Framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka um 1-1,5% vaxtalækkun Seðlabankans Ekki umtalsverð áhrif á rekstur innlánsstofnana BANKASTJÓRN Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti á skammtímaskuldbindingum innlánsstofnana um 1-1,5 prósentustig.

Framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka um 1-1,5% vaxtalækkun Seðlabankans Ekki umtalsverð áhrif á rekstur innlánsstofnana

BANKASTJÓRN Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti á skammtímaskuldbindingum innlánsstofnana um 1-1,5 prósentustig. Í frétt frá Seðlabankanum segir að undanfarið hafi vextir á peningamarkaði lækkað nokkuð og með þessum breytingum vilji bankinn stuðla að frekari lækkun. Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka, segir að þessar breytingar á vöxtum Seðlabankans hafi ekki umtalsverð áhrif á rekstur innlánsstofnana. Brynjólfur Helgason, aðstoðarbankastjóri í Landsbanka Íslands, segir að þessi ákvörðun sé spor í rétta átt.

Seðlabankinn lækkar vexti af innistæðum á viðskiptareikningi úr 4% í 3% og nafnvexti innstæðubréfa úr 7,5% í 6%. Ávöxtun ríkisvíxla lækkar úr 8 í 7% og ávöxtun annarra verðbréfa úr 9,5% í 8%. Í frétt frá Seðlabankanum segir ennfremur að önnur ástæða þessarar lækkunar sé að á síðasta þriðjungi ársins sé útlit fyrir að lánskjaravísitala hækki um 2-2,5% samanborið við nærri 5% hækkun á öðrum þriðjungi ársins. Síðar segir: "Bankastjórn Seðlabankans væntir þess að framangreind vaxtalækkun hafi á næstunni áhrif til lækkunar á vexti banka og sparisjóða af óverðtryggðum skuldbindingum. Raunar gefur lækkun verðbólgunnar bönkum og sparisjóðum tilefni til enn frekari lækkunar á næstunni heldur en þessi 1-1,5%, enda eru Seðlabankavextir í mun betra samræmi við verðbólgustig en vextir banka og sparisjóða. Þróun vaxta á peningamarkaðnum að undanförnu hefur ekki endurspeglast í vöxtum banka og sparisjóða."

Þá vekur Seðlabankinn athygli á því að bilið milli bankavaxta og annarra vaxta hafi breikkað mjög mikið í sumar. Sé miðað við ríkisbréf á verðbréfaþinginu hafi bilið á víxilvöxtum banka og þeirra verið 2-4% á fyrrihluta ársins, sé nú um 8% og hafi um tíma verið yfir 10%.

Vaxtaskiptasamningur sýnt gagnsemi

"Þessar vaxtabreytingar Seðlabankans hafa ekki umtalsverð afkomuáhrif í rekstri banka og sparisjóða en má fremur túlka sem vísbendingu um vilja Seðlabankans," sagði Tryggvi Pálsson í samtali við Morgunblaðið. Inneignarvextir lækkuðu lítillega en Íslandsbanki hefði lítið þurft að nýta sér verðbréfasölu gegn endurkaupasamningi. "Ég vildi hins vegar sérstaklega taka fram að sá vaxtaskiptasamningur sem bankar og sparisjóðir gerðu við Seðlabankann hefur í þessum mánuði sýnt gagnsemi sína þegar lánskjaravísitalan hækkar um helmingi meira en þau 0,3% sem búist var við. Vegna samningsins getum við litið framhjá þessari hækkun." Hann sagði að það væri alveg ljóst að vextir myndu halda áfram að lækka á næstunni.

Brynjólfur Helgason sagðist eiga von á því að þessar breytingar á vöxtum Seðlabankans væru spor í áttina, en það væru fleiri samverkandi þættir sem þyrfti að fylgjast með. Vextir í útboðum hefðu heldur verið lækkandi og einnig hefði Landsbankinn verið að bíða eftir því að aðrir bankar lækkuðu vexti til jafns við þá.