Kaupfélag Eyfirðinga og dótturfyrirtæki Tæplega 105 milljóna tap fyrstu 8 mánuðina TÆPLEGA 105 milljóna króna tap varð hjá Kaupfélagi Eyfirðinga (KEA) og dótturfyrirtækjum þess fyrstu átta mánuði ársins, samkvæmt milliuppgjöri sem lagt var fram á...

Kaupfélag Eyfirðinga og dótturfyrirtæki Tæplega 105 milljóna tap fyrstu 8 mánuðina

TÆPLEGA 105 milljóna króna tap varð hjá Kaupfélagi Eyfirðinga (KEA) og dótturfyrirtækjum þess fyrstu átta mánuði ársins, samkvæmt milliuppgjöri sem lagt var fram á stjórnarfundi félagsins í gær. Tap kaupfélagsins sjálfs var um 5 milljónir en hlutdeild í afkomu dótturfélaga var 99 milljóna tap. Sambærilegar tölur liggja ekki fyrir yfir sama tímabil í fyrra en heildartap KEA og dótturfélaga nam um 217 milljónum allt sl. ár.

Heildarvelta KEA fyrstu átta mánuði ársins nam tæplega 5,1 milljarði en velta dótturfélaga nam 1,4 milljörðum og var velta samstæðunnar því um 6,5 milljarðar á tímabilinu. Rekstur KEA hefur batnað nokkuð frá síðasta ári og munar þar sérstaklega um afkomu Útgerðarfélags Dalvíkinga. Fjármagnskostnaður hefur hins vegar þróast á verri veg miðað við sama tíma í fyrra og veldur þar mestu um gengisfellingin í júní. Vegna hennar hækkuðu erlend lán kaupfélagsins sjálfs um 44 milljónir umfram innlendar verðhækkanir en samsvarandi tala fyrir KEA og dótturfélög er um 101 milljón. Einnig hafa háir vextir af innlendu lánsfé íþyngt félaginu.

Hagnaður af reglulegri starfsemi KEA án tillits til dótturfélaga nam um 10 milljónum samanborið við 27 milljónir allt árið í fyrra.

Í frétt frá KEA segir að horfurnar fram til áramóta séu óvissar. Haustmánuðirnir séu oft erfiðir, aflabrögð óviss og verslun fari yfirleitt minnkandi þar til komi að jólasölu. Einnig dragi úr mjólkurframleiðslu fram til áramóta. Á móti þessu komi að rekstur félagsins hafi batnað nokkuð sl. mánuði en væntanlega muni gengisþróun og vaxtastig ráða mestu um hvernig endanleg afkoma verði hjá félaginu á árinu 1993.

Vegna tapreksturs fyrstu átta mánuðina rýrnaði eigið fé nokkuð. Bókfært eigið fé KEA án dótturfélaga nam í lok ágúst 2.428 milljónum samanborið við 2.561 milljón um síðustu áramót. Eiginfjárhlutfall var 32,8% og hafði lækkað úr 35% frá síðustu áramótum.