Selfossbær Aðalæð hitaveitunnar í sundur Handboltamenn í kalda sturtu eftir leik Selfossi. AÐALÆÐ hitaveitunnar hjá Selfossveitum fór í sundur skammt neðan við borholusvæði veitunnar austan við Selfoss í gær.

Selfossbær Aðalæð hitaveitunnar í sundur Handboltamenn í kalda sturtu eftir leik Selfossi.

AÐALÆÐ hitaveitunnar hjá Selfossveitum fór í sundur skammt neðan við borholusvæði veitunnar austan við Selfoss í gær. Þessi bilun fór saman við óvenju mikla vatnsnotkun og að viðgerð stóð yfir á dælu í einni aðalborholunni. Þetta varð til þess að miðlunartankur hitaveitunnar tæmdist og loka þurfti fyrir heitt vatn hjá veitunni um tíma.

Viðgerð á aðalæðinni tók skamman tíma og var lokið um kvöldmatarleytið í gærkvöldi. En þá kom fram bilun í dælu einnar aðalborholunnar. Starfsmenn veitunnar töldu að orsök bilunarinnar í aðalæðinni væri að vatni úr einni borholunni var dælt inn á kerfið en vatn úr henni er mun heitara. Töldu þeir að hitabreytingin hefði orsakað bilunina.

Þriggja stiga frost

Þriggja stiga frost var á Selfossi í gær en starfsmenn veitnanna töldu enga hættu á frostskemmdum á veitukerfum húsa í vatnsleysinu. Vegna bilunarinnar verður mjög lítill þrýstingur á hitaveitukerfinu á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri og því mjög vatnslítið á veitusvæðinu fram á þriðjudag á meðan viðgerð á dælunni stendur yfir. Vatnsleysið olli því að handknattleiksmenn Selfoss og Eyjamanna áttu ekki kost á öðru en köldu baði eftir leik liðanna í gærkvöldi.

Sig. Jóns.

Hrollur

Leikmönnum Selfoss og ÍBV var hrollkalt þegar þeir þvoðu af sér svitann eftir leikinn.