Þrír mismunandi kostir um framtíð bandaríska varnarliðsins Flugherinn vill að allri starfsemi verði hætt BANDARÍSK stjórnvöld leggja til við íslensk stjórnvöld að samið verði um ákveðinn niðurskurð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Þrír mismunandi kostir um framtíð bandaríska varnarliðsins Flugherinn vill að allri starfsemi verði hætt

BANDARÍSK stjórnvöld leggja til við íslensk stjórnvöld að samið verði um ákveðinn niðurskurð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins í Washington leggja Bandaríkjamenn fram þrjá mismunandi kosti: Sá fyrsti mun gera ráð fyrir því að varnarliðið hverfi úr landi, ásamt öllum tækjum, tólum og flugvélakosti; annar kosturinn gerir ráð fyrir breytilegum umsvifum, og ákveðnum hreyfanleika, þannig að herþotur verði sendar hingað til lands í eftirlitsskyni, eftir þörfum; sá þriðji kemur til móts við kröfu íslenskra stjórnvalda, að því leyti að hér verði varanlegt varnarlið, en þó minni umsvif en nú eru og færri flugvélar, en þær eru nú 12.

Líkur eru taldar á því, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, að íslensk stjórnvöld muni taka tveimur fyrri kostunum fálega, sá fyrsti mun vera ættaður frá bandaríska flughernum og annar úr bandaríska varnarmálaráðuneytinu (Pentagon). Íslensk stjórnvöld hafa í samningaviðræðunum við Bandaríkjamenn beitt þeim rökum að ekki sé verið að semja um framtíð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli út frá heimsástandinu, heldur út frá vörnum Íslands, sem byggja á tvíhliða varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna, frá árinu 1951. Varnarsamningurinn byggir á því að Ísland leggur til land og Bandaríkin leggja til varnir.

Líklegt er því talið að íslensk stjórnvöld ákveði að segja upp varnarsamningnum, hverfi Bandaríkjamenn með allar varnir úr landinu. Uppsögn samningsins er á hinn bóginn óásættanlegur kostur að mati Bandaríkjamanna og því er talið líklegast að um málamiðlun verði að ræða, á þann veg að Bandaríkjamenn bjóði upp á að tryggja varnir Íslands, jafnframt því sem íslensk stjórnvöld samþykki að hernaðarlegt mat á því hvers konar viðbúnað þurfi að viðhafa á Íslandi verði alfarið í höndum Bandaríkjahers.

Ekki lengur þörf heillar flugsveitar

Ekki er lengur talin þörf á eftirliti með sovéskum orrustuþotum, sem ekki hafa flogið inn í íslenska lofthelgi síðan 1991. Hið sama mun eiga við um eftirlit með rússneskum kafbátum. Bandaríkjamenn telja því ekki þörf á staðsetningu heillar flugsveitar hér á landi.

Herstöðin verður því lítil flotastöð í framtíðinni, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, en þó munu þyrlur varnarliðsins verða áfram á Keflavíkurflugvelli ef þar verður áfram staðsett flugsveit með varanlegum hætti. Þetta er sökum þess að reglugerð Bandaríkjahers kveður á um að þar sem flugstarfsemi á vegum heraflans fer fram, verða að vera þyrlur til þess að gæta öryggis bandarískra þegna.

Búist er við því að innan NATO komi fram krafa frá Íslendingum og Bandaríkjamönnum í þá veru að aðrar NATO-þjóðir, eins og Norðmenn, Danir og Bretar, taki þátt í að reka varnarstöðina í Keflavík.