Atvinnulausum fjölgar um 250 í september frá því sem var í ágústmánuði Atvinnulífsbati hefur stöðvast AÐ MEÐALTALI voru 250 fleiri atvinnulausir í septembermánuði en í ágúst og um 1.020 fleiri en í septembermánuði í fyrra, að því er fram kemur í yfirliti...

Atvinnulausum fjölgar um 250 í september frá því sem var í ágústmánuði Atvinnulífsbati hefur stöðvast

AÐ MEÐALTALI voru 250 fleiri atvinnulausir í septembermánuði en í ágúst og um 1.020 fleiri en í septembermánuði í fyrra, að því er fram kemur í yfirliti um atvinnuástandið frá vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins. Samtals voru skráðir tæplega 100 þúsund atvinnuleysisdagar í september en það jafngildir því að 4.557 hafi gengið atvinnulausir eða um 3,4% af mannafla á vinnumarkaði. Þar af voru 1.905 karlmenn atvinnulausir og 2.652 konur.

Í frétt frá vinnumálaskrifstofunni segir að aukningu atvinnuleysis nú megi að miklu leyti rekja til að dregið hafi úr átaksverkefnum víða og aflasamdráttar miðað við fyrri mánuð. Megin niðurstaðan sé sú að sá bati sem orðið hafi um land allt frá því í mars hafi stöðvast og fyrirsjáanlegt sé nú að fjöldi atvinnulausra fari aftur vaxandi. Atvinnuástand hafi þannig versnað víðast hvar en þó mest á Suðurnesjum og Vesturlandi.

Í lok septembermánaðar voru fleiri skráðir atvinnulausir en í mánuðinum að meðaltali. Þannig voru samtals 4.827 skráðir atvinnulausir síðasta dag mánaðarins, 2.062 karlar og 2.765 konur. Fjölgunin er mest á höfuðborgarsvæðinu, um 106, og næst mest á Suðurnesjum, 82. Á Suðurlandi fjölgar atvinnulausum um 42, á Vesturlandi um 15 og á Austurlandi um 3. Hins vegar fækkar atvinnulausum um 21 bæði á Norðurlandi eystra og vestra og á Vestfjörðum fækkar atvinnulausum um 19.