Byggt við Hlégarð UNNIÐ hefur verið að stækkun félagsheimilisins Hlégarðs í Mosfellsbæ síðustu þrjá mánuði þar sem bætist við einn salur með sérinngangi og snyrtingu.

Byggt við Hlégarð

UNNIÐ hefur verið að stækkun félagsheimilisins Hlégarðs í Mosfellsbæ síðustu þrjá mánuði þar sem bætist við einn salur með sérinngangi og snyrtingu. Í salnum verður nýr og glæsilegur bar og setustofa með vönduðum húsgögnum og sagði Vignir Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hlégarðs, að þetta myndi auka notagildi hússins verulega auk þess að skapa meira rými og vera útlitslyfting á staðnum.

Viðbyggingin er á milli tveggja álma gamla hússins að norðanverðu og er gengið inn á neðri hæð þar sem jafnframt eru snyrtingar. Alls bætast 170 fermetrar við og nú mun hægt að leigja út þrjá sali í senn. Framkvæmdir hófust í júlí í sumar en það er fyrirtækið Gunnar og Kjartan hf. sem átti lægsta tilboð í bygginguna. Teiknistofa Gylfa Guðjónssonar hannaði viðbygginguna.

Kostnaður 25 milljónir

Alls eru þetta framkvæmdir upp á 25 milljónir en sex milljónir af þeirri upphæð fara í endurnýjun á loftræstikerfi hússins sem þurfti orðið endurnýjunar við. Eigendur Hlégarðs eru Kvenfélag Lágafellssóknar, Mosfellsbær og Ungmennafélagið Afturelding. Nýi salurinn var vígður í sérstöku hófi í gærkvöldi og voru margar hendur á lofti við lokafráganginn þegar blaðamann bar að garði í vikunni.

Morgunblaðið/Valdimar Kristinsson

Staðið í ströngu

ÞEIR hafa staðið í ströngu síðustu vikur og mánuði, Kjartan Hálfdánarson og Gunnar Pétursson, sem hafa stjórnað verkinu, og Vignir Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hlégarðs.