Samkór Selfoss Tónlist Jón Ásgeirsson Þegar talað er um þá blómstrandi þróun, sem orðið hefur á sviði tónlistar síðustu tvo áratugina, vill gleymast að hún hefur einnig breiðst út um landsbyggðina og birtist þar með ýmsum hætti.

Samkór Selfoss Tónlist Jón Ásgeirsson Þegar talað er um þá blómstrandi þróun, sem orðið hefur á sviði tónlistar síðustu tvo áratugina, vill gleymast að hún hefur einnig breiðst út um landsbyggðina og birtist þar með ýmsum hætti. Starfsemi kóra er einn þátturinn í þessari tónlistarvakningu og sú framþróun, sem hefur orðið í kórsöng á höfuðborgarsvæðinu, hefur einnig haft áhrif á kórsöng úti á landsbyggðinni.

Samkór Selfoss heldur upp á 20 ára starfsemi sína og hélt tónleika í Seljakirkju sl. miðvikudag. Stjórnandi kórsins er Jón Kristinn Cortez og píanóleikari með kórnum var Þórlaug Bjarnadóttir. Á efnisskránni voru íslensk þjóðlög og kórverk, skemmtitónlist og kórþættir úr óperum. Í heild var söngur kórsins góður, vel samæfður og auðheyrt að stjórnandinn hafði unnið vel og hugað grannt að, hvar gæta skal varúðar, varðandi tónstöðu og raddbeitingu.

Af þjóðlögunum var Ísland farsælda Frón vel flutt og með töluverðri stígandi og af íslensku söngverkunum var Smávinir fagrir, eftir Jón Nordal, sérlega fallega sungið.

Sönggleði einkenndi allan söng kórsis en var þó mest áberandi í skemmtilögunum, t.d. í "Viljasöngnum" eftir Lehár og Vorljóði eftir Johann Strauss. Síðustu lögin voru fangakórinn úr Nabucco og Steðjakórinn úr Trovatore, bæði eftir Verdi, og lokakórinn úr Þrymskviðu, sem flutt voru með töluverðum tilþrifum og ágætri aðstoð píanóleikarans, Þórlaugar Bjarnadóttur.

Samkór Selfoss er vel æfður og vel syngjandi kór, með þónokkuð þéttan tón, sem kórstjórinn nýtti vel, bæði í veikum og sterkum söng og ofgerði kórnum aldrei. Þetta góða jafnvægi í styrk kom sérlega vel fram í lagi Páls Ísólfssonar, Úr útsæ rísa Íslands fjöll í kórgerð Garðars Cortes, Maístjörnunni, óperukórnum og í léttu lögunum, sem voru og sungin af gleði, lögum eins og Lítill fugl eftir Sigfús Halldórsson, Hin sólgyllta strönd, eftir Sieczynski og Faðmlög og freyðandi vín, sem trúlega er rússneskt alþýðulag.

Sigurður Ágústsson var einn þeirra manna sem var fremstur í flokki tónlistarfrömuða á Suðurlandi og eftir hann söng kórinn lagið Jörvagleði, við kvæði eftir Davíð, ágætt lag, sem kórinn söng hressilega. Tónleikar Samkórs Selfoss benda til þess að tónlistariðkun á Suðurlandi sé vel á vegi stödd og Jón Kristinn Cortez kemur þarna fram sem vandvirkur og góður stjórnandi.