75 ára Pétur Pétursson "Pétur þulur" er sjötíu og fimm ára í dag. Hann er víst eini maðurinn sem þetta forna heiti hefur fest við og næstum hvert mannsbarn á landinu þekkir undir því nafni. Mér finnst þetta alls engin undur, þegar ég hefi í huga þau gömlu nöfn úr tungunni, sem eru "fræðaþulur" og "sagnaþulur". Röddin var jú alltaf skýr og er það enn og að ekki sé talað um það lýtalausa móðurmál sem hann talar og við hin erum að reyna að halda á lofti. Allt þetta er Pétur í fyllsta mæli. Það var ábyggilega mikið ábyrgðarhlutverk að velja mann í þetta þýðingarmikla starf á ofanverðum stríðsárunum, þegar útvarpið var að þenja sig út á þeim góðæristímum. Brautryðjendum útvarpsins tókst þar vel, eins og vel hefur sannast. Settist hann þar í stólinn við hlið Þorsteins og Sigrúnar og vann sér strax hylli alþýðu manna. Oft hefi ég hlustað með athygli á skemmtilegar endurminningar Péturs frá þeim tímum, er allt var næstum í einu herbergi þar á bæ og samgangur og kynning við þá snillinga sem þar störfuðu var í takt við tímans rás. Er mér þá ofarlega í huga að minnast Þorsteins, Stefáns fréttamanns, Túlla Smith, Páls, Þórarins og þannig mætti lengi telja að ógleymdum Helga Hjörvar. Ég hef oft sagt við Pétur að það væri synd að hann skuli ekki hafa sett þetta á band og lofað okkur hinum að skyggnast á bak við tjöldin. Allt kom þetta fyrir eyru sem slétt og fellt. Jafnvel stórviðburðir voru sagðir með slíkum aga að ekki varð á betra kosið. En að baki stóð skondin saga á stundum. Megum fá þar meira að heyra.

Pétur er meira en útvarpsþulur. Hann er fræða- og sagnaþulur, svo góður að á stundum trúi ég hann sé jafnoki þeirra hálærðustu í þeim efnum. Fer þar saman óvenjugott minni og rík alþýðumennt. Alþýðan hefur ávallt kunnað að meta þennan þátt Péturs. Að kunna að setja fram sögu þjóðarinnar í þá frásögn, sem hún hefur best gerst frá alda öðli. Er vel að þjóðin kann enn að meta það. Pétur hefur lagt stund á að kynna sér ár mikilla umbyltinga í íslensku þjóðfélagi, sem átti sér stað fyrir og eftir fyrra stríð. Er með ólíkindum hvað hann hefur grafið upp og komið á framfæri við okkur, sem á stundum viljum gleyma þessu öllu í æðibunugnangi nútíma þjóðfélags. Margt er þarna óbirt og enn er Pétur að grafa gull. Það er ósk mín að þú getir um stund bætt við þetta og látir okkur fara að heyra eitthvað af þessu.

Pétur er fæddur á Eyrarbakka fyrir nákvæmlega 75 árum, yngsta barn hjónanna Péturs Guðmundssonar kennara og konu hans Elísabetar Jónsdóttur, þekktra og merkra heiðurshjóna, sem bæði áttu sína stóru sögu, sem hér verður ekki skráð. Fimm ára fluttist Pétur á mölina í Reykjavík, nánar tiltekið vestur á Granda, þar sem margir aðfluttir námu land og væri enn gott að mega heyra eitthvað meira frá Pétri um það merka byggðarlag. Lífsbaráttan var hörð eins og gefur að skilja, en samheldni fjölskyldunnar var mikil og öll komust börnin vel upp undir handarjaðri ekkjunnar og urðu mætir þegnar í þjóðfélaginu. Ekki má gleyma eiginkonu Péturs, Birnu Jónsdóttur, sem staðið hefur dyggilega við hlið manns síns allt frá því að þau kynntust í stríðsbyrjun, rúmlega 50 ár. Þau eiga eina dóttur barna, frú Ragnheiði Ástu, sem fetað hefur í fótspor föður síns sem þulur. Við hjón sendum ykkur öllum árnaðaróskir á þessum merku tímamótum og vonum að þið megið dafna vel og lengi.

Kjartan Helgason.