Jónas Gústavsson - viðbót Kynni mín af Jónasi Gústavssyni hófust vorið 1990, en þá hóf ég störf við borgarfógetaembættið í Reykjavík. Fyrsta verkefni mitt var að starfa við utankjörfundaratkvæðagreiðslu, en yfirumsjón með henni hafði Jónas. Ég hafði þá nýlokið lagaprófi og bar óttablandna virðingu fyrir þessum nýja yfirmanni mínum, sem átti að baki langan starfsferil við embættið. Jónas var stjórnsamur og reglusamur og krafðist þess að starfsmenn hans legðu sig alla fram í starfi, enda hlífði hann ekki sjálfum sér.

Eftir því sem á starfstíma minn við embættið leið kynntist ég Jónasi betur. Kom þá í ljós að þar fór greindur maður með góðan húmor. Hann hafði einstaklega skemmtilega frásagnargáfu og hinir hversdagslegu hlutir urðu oft bráðfyndnir sagðir með orðum Jónasar.

Í júlí 1992 skiptum við bæði um starfsvettvang og hófum störf við hinn nýstofnaða Héraðsdóm Reykjavíkur. Kom sér þá vel fyrir mig að geta leitað í smiðju til hins reynda embættismanns sem Jónas var, til að fá aðstoð við að leysa úr hinum ýmsu lögfræðilegu álitaefnum. Ég veit að Jónas var mjög ánægður í hinu nýja starfi sínu, þar sem hann sá fram á að fást við fjölbreytilegri verkefni en áður. En margt fer öðruvísi en ætlað er.

Ég þakka Jónasi samfylgdina og votta fjölskyldu hans innilega samúð mína.

Kolbrún Sævarsdóttir.