Jónas Gústavsson - viðbót Látinn er langt um aldur fram góður vinur minn og náinn samstarfsmaður um árabil, Jónas Gústavsson, héraðsdómari í Reykjavík. Ég kynntist Jónasi fyrst, er ég tók við starfi yfirborgarfógeta 1. september 1979. Hann hafði þá starfað við embættið stærstan hluta síns starfsaldurs og var fljótlega eftir komu mína skipaður borgarfógeti í uppboðsrétti og gegndi því starfi allt til 1. júlí 1992, er hann var skipaður héraðsdómari í Reykjavík.

Ég komst fljótt að því, við náin kynni af Jónasi, að hann bjó yfir mikilli þekkingu í lögfræði og engum hefi ég kynnst, sem var tölugleggri en hann. Hans áhugasvið var mjög stórt og kunni hann á flestu einhver skil, hvort sem var á sviði lista, tæknimála eða efnahagsmála. Slíkan samstarfsmann er gott að hafa og bar aldrei skugga á okkar samstarf.

Jónas var yngsta barn Steinunnar Sigurðardóttur Sivertsen og Gústavs A. Jónassonar ráðuneytisstjóra. Hann var heilsuveill í bernsku, en naut mikils ástríkis og góðs uppeldis á miklu menningarheimili foreldra sinna og eldri systkina.

Jónas var mikill gæfumaður í einkalífi. Hann kvæntist Kristínu G. Jónsdóttur fóstru, hinni ágætustu konu. Þau eignuðust tvær myndarlegar dætur, sem báðar hafa lokið stúdentsprófi. Sú eldri, Guðrún, er við nám í listfræði í Háskólanum í Bologna, en sú yngri, Steinunn, er við nám í mannfræði í Háskóla Íslands. Kristín lauk prófi í sálarfræði og félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Hún starfar nú sem félagsráðgjafi.

Jónas var afar stoltur af konu sinni og voru þau hjón mjög samhent í lífinu. Áhugamál beggja virtust lík. Þau ferðuðust gjarnan, bæði innanlands og utan, og nutu þess vel. Skíðaferðir á vetrum til Austurríkis voru næsta árlegur viðburður.

Jónas kunni frá mörgu að segja og var oft gaman að hlýða á fjörlega frásögn hans af mönnum og málefnum. Hann var stundum ofurlítið gráglettinn í frásögn sinni, en mikill vinur vina sinna og heill og hreinskiptinn í daglegu lífi.

Ég hefi fáa ef nokkra fyrirhitt, sem vissu jafn mikið um jafnmargt og Jónas Gústavsson. Þetta þekktu margir kunningjar hans, sem leituðu oft ráða hjá honum, ef þeir brugðu sér til t.d. til London. Hann þekkti leikhúsin þar og hvað var á fjölunum hverju sinni. Hann þekkti sömuleiðis til tónlistarhúsanna, matsölustaðanna og verslana stórborgarinnar. Hann fylgdist með þessu öllu og fleiru úr fjarlægð og minnið var óbrigðult. Það er sárt til þess að vita að hann skuli nú allur.

Jónas veiktist skyndilega í mars sl. og hefur frá þeim tíma háð sitt stríð við skæðan sjúkdóm á sjúkrahúsum í Reykjavík lengst af. Allt var gert, sem í mannlegu valdi stóð, til þess að gefa honum heilsuna aftur. En það tókst því miður ekki.

Við Hólmfríður og börn okkar vottum konu hans Kristínu, dætrunum Guðrúnu og Steinunni, svo og tengdaforeldrum, Jóni vini mínum Guðjónssyni og Guðrúnu og öðrum aðstandendum innilega samúð.

Sama gerir samstarfsfólk hans við borgarfógetaembættið, sem hér starfar.

Jón Skaftason.