Jónas Gústavsson - viðbót Það eru sumir sem leyfa lífinu að snerta sig og snerta þar með lífið sjálft. Jónas var slíkur maður. Hann var ætíð óhræddur við að kanna ótroðnar slóðir, afla sér fróðleiks og veita af þeim viskubrunni. Ég tel það gæfu mína að hafa, frá unglingsaldri, fengið að kynnast lífsspeki hans.

Þessi lífsspeki var yfirveguð og alltaf í miklu jafnvægi. Hann hafði þann eiginleika að lifa lífinu lifandi og njóta augnabliksins. Ég man eftir mörgum stundum þar sem ég sat í græna sófanum í Stóragerðinu, ásamt Guðrúnu Helgu dóttur hans, bestu vinkonu minni, og fékk að hlusta á brot úr tónverkum, skoða ljósmyndir frá öllum heimshornum og kynntist sérstökum sjónarhornum hans. Hann kunni að meta hið nálæga og fjarlæga. Hann lagði mikið upp úr því að rækta vináttusambönd, sinna fjölskyldunni og vera í tengslum við náttúruna og umheiminn. Þetta jafnvægi endurspeglast í mörgum áhugamálum hans. Jónas var áhugamaður um alls konar vísindi og tækni. Hann var fyrsti maðurinn sem ég þekkti sem átti "soda stream tæki", geislaspilara og tölvu og sá eini sem ég þekkti sem vissi alltaf allt um nýjustu leikrit á Broadway, bestu bíómyndir í Bologna og var ætíð búinn að lesa allar þær bækur sem eitthvað var varið í á bókalista New York Times. Þessi áhugamál voru öll máluð einstökum frumleika. Ég gleymi því aldrei þegar Guðrún Helga dóttir hans var skiptinemi á Ítalíu og Jónas hringdi í mig einn sunnudagsmorgun og bað mig um að koma í heimsókn. Er ég gekk inn í stofuna beið videoupptökuvél og ég var tekin í viðtal til að fræða Guðrúnu Helgu um nýjungar frá föðurlandinu. Síðan myndaði hann alla uppáhaldsstaði Guðrúnar, m.a. sundlaugarnar í Laugardalnum, þar sem við Kristín, móðir Guðrúnar, vorum látnar taka smá sundsprett í snjókomu og hagléli.

Það var þessi skemmtilega samblanda af kímnigáfu og alvarleika og hin ólíku áhugamál hans sem gerðu mér ljóst að það væru margir göngustígar á "hraðbraut" lífsins. Það heillaði mig þó að Jónas hefði valið lögfræði sem ævistarf, að hann lokaði sig aldrei frá margbreytileika lífsins. Hann festist hvorki í fastmótað form né beygði sig undir vængi hversdagsleikans. Hann spreytti sig á spurningum lífsins og aflaði sér þannig skilnings sem margir fara á mis við.

Síðasta skiptið sem ég sá Jónas var á Seltjarnarnesinu, þar sem hann var ásamt Kristínu eiginkonu sinni. Við hittumst öll fyrir tilviljum og dáðumst að undurfögru sólsetrinu. Slík augnablik eiga ætíð eftir að minna mig á hann og fjölskyldu hans. Jónas mun lifa í öllu því sem hann skilur eftir, sérstaklega var hann stoltur af stórkostlegum dætrum þeirra Kristínar, Guðrúnu Helgu og Steinunni.

Ég þakka Guði fyrir að hafa fengið að kynnast jafn vitrum og góðum manni. Ég bið Guð um að vernda þær mæðgur, Kristínu, Guðrúnu og Steinunni, og veita þeim styrk og orku á þessari stundu.

Kristín Zoëga, Taiwain.