Jónas Gústavsson, viðbót sunnudag Sunnudaginn 10. október sl. andaðist mágur minn og vinur, Jónas Gústavsson héraðsdómari, eftir stutta en harða baráttu við illkynjaðan sjúkdóm. Jónas var fæddur 12. mars 1941 í Reykjavík og því aðeins 52 ára að aldri þegar hið óvænta og ótímabæra fráfall hans bar að. Þó okkur sem fylgdumst með veikindum Jónasar væri löngu ljóst að hverju stefndi setti að mér mikinn trega og söknuð þegar kaldur veruleikinn blasti við.

Fundum okkar Jónasar bar fyrst saman fyrir 40 árum þegar ég var að draga mig eftir systur hans og tók að venja komur mínar á heimili foreldra þeirra á Garðastræti 40 í Reykjavík. Jónas var yngstur fjögurra barna hjónanna Gústavs A. Jónassonar ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu og konu hans Steinunnar Sigurðardóttur Sívertsen, en systkini hans eru Þórdís, Sigurður og Kristín.

Gústav var ættaður frá Sólheimatungu í Borgarfirði, sonur Jónasar bónda þar Jónssonar stúdents frá Leirá Árnasonar, en móðir Gústavs var seinni kona Jónasar Kristín Ólafía Ólafsdóttir bónda í Sumarliðabæ í Holtum Þórðarsonar. Steinunn var dóttir Sigurðar P. Sívertsens prófessors og vígslubiskups og konu hans Þórdísar Helgadóttur lektors Hálfdánarsonar.

Jónas hafði sterka skapgerð og var gæddur óvenju góðum gáfum sem nýttust honum vel í námi og starfi. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1961 hóf Jónas nám í lögfræði við Háskóla Íslands og lauk embættisprófi þaðan 1968. Að loknu lagaprófi stundaði Jónas lögmannsstörf í Reykjavík til ársins 1970 er hann gerðist fulltrúi yfirborgarfógetans í Reykjavík og síðan aðalfulltrúi við það embætti.

Jónas var skipaður borgarfógeti í Reykjavík 1976 og gegndi því embætti til 1. júlí 1992 er hann var skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, sem þá tók til starfa. Hann átti sæti í Félagsdómi frá 1986 til 1989 og var varaforseti Félagsdóms frá 1992. Öllum þessum störfum gegndi hann af alúð og kostgæfni, naut vinsælda starfsfélaga sinna og annarra sem þurftu að hafa við hann samskipti. Mér var kunnugt um að honum líkaði vel við sitt nýja starf sem héraðsdómari og naut þess að takast á við ný verkefni í hópi góðra vinnufélaga. Sá tími varð því miður alltof stuttur. Þó að Jónas væri ungur að árum þegar ég kom inn í fjölskyldu hans tókust strax með okkur góð kynni, sem með árunum urðu að innilegri vináttu, sem ekki bar skugga á en Jónas var einlægur vinur vina sinna, hollráður og hjálpfús.

Ég og fjölskylda mín eigum margs að minnast og mikið að þakka frá ljúfum samverustundum með Jónasi og Kristínu. Í vinahópi var hann jafnan hrókur alls fagnaðar og geislaði af honum þegar hann kom með hnyttin tilsvör og skemmtilegar lýsingar af mönnum og málefnum. Frásagnargáfuna átti Jónas ekki langt að sækja, en Gústav var landsþekktur á sínum yngri árum sem revíuhöfundur og Steinunn var einstaklega skemmtileg og greind kona.

Jónas hafði mikla ánægju af að ferðast, fór víða með fjölskyldu sinni og naut þess af lífi og sál. Við Þórdís ferðuðumst mikið með Jónasi og Kristínu bæði innan lands og utan, stundum með sameiginlegum vinum og úr þeim ferðum er margs að minnast. Eitt atvik frá því við vorum stödd í Rússlandi, fyrir þær breytingar sem nú eru þar orðnar á stjórnarháttum, kemur mér í hug. Á ferðalögum hafði Jónas alltaf meðferðis vandað stuttbylgjutæki og reyndi að ná stuttbylgjusendingum frá Íslandi hvar sem hann var staddur í heiminum. Þetta hafði gengið hálf illa í Rússlandi og undi Jónas því ekki vel. Þegar aðrir fóru að leika tennis gekk Jónas út í skógarjaðar og þar sá ég til hans klifra upp í tré og koma fyrir löngu loftneti, sem hann strengdi milli trjánna, en ekki veit ég hvað hefði skeð ef KGB hefði séð aðfarirnar. Svo fór að Jónas náði fréttunum sem voru nú ekki merkilegar, frekar en oft er, en aðalfréttin var um aflabrögð á Ísafirði. Þessi saga lýsir Jónasi vel, hann framkvæmdi það sem hann hafði ákveðið að gera og lagði sig þá allan fram. Þessi framkvæmdasemi kom víða fram s.s. við undirbúning ferðalaga og allt skipulag í því sambandi, fengu margir samferðamenn hans að njóta þess og engan þekki ég sem átti auðveldara með að láta drauma um ferðir til fjarlægra landa rætast. Hins vegar var sú ferð sem hann hefur hafið óundirbúinn.

Í einkalífi sínu var Jónas mikill gæfumaður, en árið 1968 kvæntist hann Kristínu Gyðu Jónsdóttur félagsráðgjafa og var hjónaband þeirra einkar farsælt, voru þau mjög samrýnd og nutu lífsins saman. Kristín er dóttir Jóns Guðjónssonar brunavarðar í Reykjavík og konu hans Guðrúnar Helgu Karlsdóttur.

Jónas og Kristín eignuðust tvær efnilegar dætur, Guðrúnu Helgu, sem stundar nám í listfræði við Háskólann í Bologna á Ítalíu, og Steinunni, sem stundar nám í mannfræði við Háskóla Íslands. Innilegt samband var milli þeirra feðgina og syrgja nú systurnar sárt föður sinn. Eftir að Jónas veiktist reyndi mikið á Kristínu, en það var eins og hún efldist við hverja raun og fá engin orð lýst þreki hennar og dugnaði.

Kæra Kristín, Guðrún Helga og Steinunn, söknuðurinn er sár og missirinn mikill, en minningin um góðan dreng lifir og er huggun harmi í.

Jóhann H. Níelsson.