Marta Guðjónsdóttir - viðbót Í dag klukkan ellefu verður hún amma okkar, Marta Guðjónsdóttir, fyrrverandi húsfreyja í Berjanesi undir Austur-Eyjafjöllum, jarðsungin frá Eyvindarhólakirkju. Hún var bráðkvödd sl. laugardagsmorgun á heimili sínu á Selfossi þar sem hún hafði búið sl. áratug. Þangað fluttist hún eftir að afi missti heilsuna og þau höfðu brugðið búi.

Andlát ömmu markar þáttaskil í margvíslegum skilningi. Þar með lýkur löngu og oft ströngu en samt hugljúfu ævintýri sem eins og svo mörg önnur, hófst með kynnum, ástum og bjartsýni ungrar konu og ungs manns af aldamótakynslóðinni. Ævintýri sem greinir frá upphafi hjúskapar þegar heimskreppan var að halda innreið sína, sem greinir frá samheldni afa og ömmu, þrotlausri eljusemi þeirra, sparsemi og þrautseigju. En ævintýrið greinir einnig frá uppskeru þessara mannkosta þeirra, að þau stýrðu um áratuga skeið einu stærsta býlinu undir Eyjafjöllum, eignuðust tíu börn og komu níu þeirra til fullorðinsára en við barnabörnin erum nú þrjátíu og átta talsins og barnabarnabörnin eru tuttugu.

Ævistörf sem státa af slíkri uppskeru þurfa ekki frekari vitnanna við. Þau eru okkur, afkomendum afa og ömmu, áminning um það sem máli skiptir í lífinu og hollt mótvægi við hégómlegt metorðapríl nútímans. Hvert og eitt hljótum við því að líta um öxl með þakklæti og virðingu þegar við kveðjum ömmu okkar og langömmu hinstu kveðju.

Amma var áttatíu og eins árs er hún lést. En hún var ekki gömul, hvað sem árafjöldanum leið. Hún fylgdist af áhuga með öllu því sem hæst bar í þjóðlífinu hverju sinni, hafði alltaf mikið og gott samband við unga fólkið í fjölskyldunni og hafði afburðaminni sem hún hélt óskertu fram í andlátið.

Fyrir tveimur mánuðum sóttum við systurnar þing ungra sjálfstæðismanna á Selfossi. Þá var, eins og alltaf áður, gott að koma til ömmu og eiga hjá henni næturstað. Hún ræddi við okkur af áhuga um stjórnmál líðandi stundar, hafði fylgst með sjónvarpsviðtali við formannsframbjóðendur þingsins og lét sig ekkert muna um það að ráða okkur heilt í því hvorn þeirra við ættum að kjósa.

Við þetta tækifæri var indælt að sitja með ömmu og rifja upp gamlar minningar frá bernskudögunum austur í Berjanesi. Okkur systrum þóttu það orð að sönnu sem hún lét falla af því tilefni: "Stelpur mínar, þið verðið aldrei of gamlar til að koma í pössun til mín."

En heimsóknirnar til ömmu verða ekki fleiri. Eftir stendur minningin, ómetanleg.

Marta og Raggý

Guðjónsdætur.