Marta Guðjónsdóttir Berjanesi ­ Minning Fædd 3. ágúst 1912 Dáin 9. október 1993 Fyrstu minningar okkar um ömmu Mörtu tengjast sveitinni þar sem hún bjó lengst af ævi sinnar í Berjanesi undir Eyjafjöllum ásamt Andrési afa okkar. Þó nokkuð langt sé um liðið minnumst við með hlýju ánægjustundanna sem við áttum í sveitinni hjá ömmu og afa. Þær stundir veittu okkur einnig góða innsýn inn í líf bóndans.

Amma var góðhjörtuð manneskja sem vildi öllum vel og mátti ekkert aumt sjá. Veikindi afa okkar á sínum tíma voru ömmu erfiður tími. Andrés afi okkar dó hinn 14. maí 1984 á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi, en amma hafði flust á selfoss skömmu áður þar sem hún bjó til dauðadags. Amma var gestrisin kona, sem hafði ánægju af því að fá til sín vini og ættingja og bar því ávallt fram það besta þegar gesti bar að garði. Auk þess var amma góð matreiðslukona og er ómælt sem hún bakaði og sendi okkur og minnumst við ljúffengu kleinanna og flatkakanna hennar í því sambandi. Árni Björn, yngstur okkar, var ólatur við að heimsækja hana á Selfoss og gisti hjá henni ófáar næturnar.

Amma var af aldamótakynslóðinni og það mátti greina á tungutaki hennar, t.d. varðandi veðrið. Amma upplifði miklar breytingar á kjörum og lifnaðarháttum íslensku þjóðarinnar. Ekki þótti henni allar breytingarnar vera til góðs, því henni fannst tíminn sem gafst til samverustunda fjölskyldunnar vera of lítill.

Amma Marta var heilsuhraust svo til alla sína ævi og það var einungis allra síðustu ár sem hún þurfti að glíma við lasleika. Amma heimsótti okkur þremur vikum fyrir andlát sitt og vissulega var hægt að sjá þess merki að hún hafði ekki fulla heilsu.

Amma hafði það oft á orði síðustu mánuðina að hún óskaði sér að fá að fara skjótt, en þurfa ekki að liggja á spítala og kveljast lengi. Ósk hennar rættist og nú þegar amma hefur lokið lífshlaupi sínu kveðjum við hana með söknuði og þakklæti fyrir öll árin. Nú dvelur hún hjá afa. Blessuð sé minning hennar.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem)

Hafsteinn, Hilmar, Andrés,

Sveinbjörn og Árni Björn

Hilmarssynir.