Minning Torfi Sigurðsson bóndi á Mánaskál Í dag, laugardaginn 16. október, er til moldar borinn frá Höskuldsstaðarkirkju Torfi Sigurðsson frá Mánaskál, en hann lést á Landspítalanum 9. október eftir að hafa legið þar mikið veikur í þrjár vikur.

Torfi var fæddur að Ósi í Nesjum á Skaga 4. febrúar 1917, sonur hjónanna Sigurðar Jónssonar og Sigurbjargar Jónsdóttur sem þar bjuggu. Þau áttu átta börn og var Torfi fimmti í röðinni. Þau fluttust að Mánaskál í Laxárdal 1918 er þau keyptu þá jörð og bjuggu þar síðan allan sinn búskap. Torfi hefur því verið eins árs er þau fluttust. Móðir hans lést 1992 er hún ól sitt áttunda barn, af barnsfarasótt, sem var því miður nokkuð algeng á þeim árum. Torfi keypti jörðina af föður sínum og tók við búinu 1953, en faðir hans lést 1968.

Ég kynntist Torfa fyrst sumarið 1959 er systir mín Agnes fluttist til hans með kjörson sinn Guðna Agnarsson þá 12 ára. Þau gengu í svo í hjónaband þá um haustið og voru gefin saman að Útskálum af séra Guðmundi Guðmundssyni sem var þar prestur þá. Þau hafa búið á Mánaskál síðan. Þeim varð ekki barna auðið, en sonur Guðna, Agnar Torfi, ólst upp hjá þeim frá fjögurra ára aldri þar til hann stofnaði sitt eigið heimili í Vestmannaeyjum.

Torfi var öðlingsmaður og góður heim að sækja. Við hjónin komum oft Mánaskál, oftast tvisvar til þrisvar á ári, því að faðir minn, Sigurður, var hjá þeim hjónum á Mánaskál á hverju sumri fram til 1980, en hann lést 1983 þá 96 ára gamall. Þá voru dóttursynir okkar tveir, þeir Ólafur og Klemens, nokkur sumur hjá þeim í sveitinni er þeir voru á aldrinum 5­10 ára og líkaði þeim þar vel enda var Torfi laginn við að stjórna ærslafengnum strákum. Torfi fór ungur maður í Eiðaskóla til að afla sér menntunar. Leið hans lá svo suður til Reykjavíkur þar sem hann vann við ýmis störf. Hann var mjög laginn og fljótur að læra og mun hann hafa unnið mikið við bíla- og vélaviðgerðir hér syðra. Þetta kom sér vel fyrir hann í búskapnum eftir að vélarnar komu til sögunnar. Eins munu nágrannar hans hafa notið góðs af hagleik hans, því að hann var mjög bóngóður og átti erfitt með að neita mönnum um greiða.

Torfa voru falin ýmis trúnaðarstörf fyrir sveitarfélag sitt, Vindhælishrepp, sérstaklega nú síðari árin, er hann hefur setið í hreppsnefnd og verið fulltrúi þess á fjórðungsþingum. Þá hefur hann verið í sóknarnefnd Höskuldsstaðarsóknar og séð um kirkjuna í nokkur ár.

Torfi hefur ekki gengið heill til skógar undanfarin ár, þó að það hafi ekki komið í ljós fyrr en fyrir tæpu ári hversu alvarlegur sjúkdómur hans var, sem hefur leitt til þess að hann er nú allur. Ég vil með þessum línum þakka hans góðu kynni gegnum árin og öll samskipti okkar og þá góðu vináttu sem við höfum notið frá hans hendi, við hjónin, dóttir okkar, hennar maki og börn, sem verið hafa okkur ómetanleg.

Við vottum ykkur, Agga mín, Guðni, Agnar og fjölskyldur okkar dýpstu samúð í sorg ykkar. Við vitum, Agga mín, að missir þinn er mikill og sár. Þó að það hafi verið í raun og veru ljóst á síðustu vikum að hverju stefndi, þá kemur dauðinn alltaf að óvörum. Við biðjum Guð að styrkja þig og leggja sína líknandi hönd yfir sárin.

Ólafur Sigurðsson.