Richardt Ryel ­ Minningarorð Í dvöl minni utanlands í sumar barst mér í hendur Morgunblaðið svo að ég gat fylgzt með hinu fréttnæmasta hér heima. Sárast þótti mér að frétta af mörgum dauðsföllum fólks, sem ég þekkti persónulega eða kannaðist vel við, fólks á ýmsum aldri. Rúmri viku eftir heimkomu mína fæ ég svo fregn um andlát eins góðvinar míns, sem raunar hafði talað við mig í síma frá heimili sínu í Danmörku nokkrum dögum fyrr. Hann sagðist þá vera að leggjast inn á sjúkrahús til uppskurðar það sama kvöld og vonaðist til að geta hringt til mín heim kominn að nýju eftir viku til tíu daga. Þess í stað barst mér dánarfregnin viku síðar. Læknarnir höfðu þegar til kom ekki getað bjargað lífi hans.

Vinfengi okkar Richardts Ryel hafði staðið hátt á sjötta áratug, allt frá því er við sátum á skólabekk í Verzlunarskóla Íslands við Grundarstíg. Þrátt fyrir alllöng tímabil, þegar fjarlægðir hömluðu samgangi héldum við þræðinum með bréfaskiptum, einkanlega á síðasta áratug, eftir að hann og fjölskylda hans fluttu búferlum til Danmerkur. Á þeim tíma skrapp Richardt oftast hingað heim að sumarlagi, því að honum var kært landið og þjóðin, enda þótt hann væri að miklu leyti af dönsku og norsku bergi brotinn.

Faðir Richardts var Balduin Ryel frá Vordingborg á Suður-Sjálandi. Hann kom til Akureyrar 27 ára að aldri og gerðist verzlunarstjóri hjá Braunsverzlun. Um áratug síðar stofnaði hann eigin verzlun, sem varð landsþekkt fyrirtæki, hafði um árabil útibú á Siglufirði, Vopnafirði, Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Hann kvæntizt eyfirzkri skipstjóradóttur, Gunnhildi Olsen, en faðir hennar var norskur. Þau hjón eignuðust sex börn, þrjá syni og þrjár dætur, og var Richardt hinn þriðji í röðinni. Svo vill til að elzti sonurinn, Herluf, andaðist viku á eftir bróður sínum og er nýjarðsettur á Akureyri. Áður voru tvær systurnar látnar, Erna og Valborg, en eftir lifa Ottó píanósmiður í Reykjavík og Hjördís í Danmörku (gift íslenzkum manni).

Fyrir 50 árum gisti ég nokkur dægur hið myndarlega heimili þessarar myndarlegu fjölskyldu, og er mér síðan ógleymanlegur sá viðurgerningur, sem ég hlaut þar, ekki sízt hlýleiki húsfreyjunnar. Ryel-hjónin reistu hið veglega íbúðarhús sitt, Kirkjuhvol, árið 1934 innan til í Fjörunni. Nú er þar minjasafn bæjarins.

Richardt lét frá sér fara tvær bækur, kominn yfir sjötugt. Hin fyrri heitir Kveðja frá Akureyri og hefur að geyma minningar hans frá yngri árum, og hana prýðir fjöldi góðra mynda. Hin síðari kom út árið eftir. Þar er að finna ferðaþætti og hugleiðingar og ber hún nafnið Í frásögur færandi. Þessar bækur bera þess vott að höfundurinn kunni vel að segja frá, og víða bregður hann fyrir sig gamansemi. Ég ætla að taka hér upp minningarbrot úr fyrri bókinni:

"Trúarlíf var mikið á Akureyri á mínum uppvaxtarárum. Ég mun hafa verið á tíunda ári þegar ég var fyrst sendur til Gooks trúboða á Sjónarhæð. Þar skyldi ég nema Guðs orð og góða siði.

Fjölmargar tröppur lágu frá götunni og allt upp á efsta pallinn; en það man ég að mér fannst ég vera kominn hálfa leið til himnaríkis þegar ég var kominn alla leið þangað upp.

Gook var góður maður. Hann gaf okkur smárit og glansmyndir af heilögu fólki. Jesú kynntist ég fyrst ríðandi á asna. En einnig voru aðrar myndir af honum, bæði í vöggu og við heilaga kvöldmáltíð og svo á krossinum. Við komumst alltaf við þegar við heyrðum hvernig hann, alsaklaus, var negldur á krossinn.

Sæmundur hélt líka fallegar ræður. Hann var litlu lakari en Gook. Ég sá að margri konunni vöknaði um augu þegar Sæmundur vegsamaði dásemdir himnaríkis.

Með söknuði kvaddi ég Sæmund og Gook en seinna átti séra Friðrik Rafnar eftir að taka við sálusorgun minni og skyldi ég sækja messur hjá honum á sunnudögum. Kirkjan stóð þá inni í Fjörunni og því stutt að fara.

Ég sat venjulega uppi og innst á bekk. Oft var margt um manninn og því þétt setið. Enginn sagði neitt en menn voru alltaf að ræskja sig og hósta og olnbogaskotin gengu á víxl. Ég heyrði nú aldrei, þar sem ég sat, hvað séra Friðrik sagði en þeim mun meira söng í hljóðfærinu hjá Sigurgeiri organista. Á töflu fyrir ofan mig voru skráð númer á sálmunum og ég fylgdist vel með framvindu messunnar. Loks heyrði ég svo hátt og snjallt "amen". Allir stóðu upp og ég rauk út enda vissi ég að mamma beið tilbúin með sunnudagssteikina.

Á þessum árum var ég annars mjög jarðbundinn og eilífðarmálin vöfðust lítt fyrir manni. Sæmundur og Gook höfðu að vísu opnað dyr himnaríkis í hálfa gátt, þannig að maður gat rétt skyggnst þangað inn, en svo var skellt í lás rétt við nefið á manni."

Richardt rifjar líka upp minningar frá tveimur skólavetrum sínum syðra. Hann leigði þá herbergi hjá þekktum listamönnum, sinn veturinn hjá hvorum, Haraldi Björnssyni leikara og Árna Kristjánssyni píanóleikara. Richardt segir: "Árni og Anna eru bæði góðir Akureyringar, enda reyndust þau mér ákaflega vel, og húsaleigan hreint lítilræði. Svo fékk ég ókeypis tónleika í kaupbæti." Kunningi Richardts spurði, hvort hann yrði ekki fyrir ónæði við heimanámið, þegar Árni væri að æfa sig. Þá svaraði Richardt að bragði: Hann æfir sig ekki, hann bara spilar! Þetta er haft eftir spyrjandanum og er góður vitnisburður bæði listamanni og áheyranda.

Eftir skólavistina gerðist Richardt kaupmaður í heimabæ sínum og verzlaði þar stríðsárin. Síðan gaf hann sig að umboðs- og heildsölu, flutti suður til Reykjavíkur og eftir nokkurn tíma til Danmerkur. Þar hélt hann þessu kaupsýslustriki og fór einnig út í verzlun með íslensk frímerki. Hann flutti svo aftur hingað heim eftir drjúglanga hríð og dvaldi hér um árabil, unz hann tók sig upp að nýju og settist aftur að í Danmörku.

Richardt Ryel var tvíkvæntur. Fyrra hjónabandið stóð ekki lengi en gat af sér dóttur. Þær mæðgur munu búsettar í Bandaríkjunum. Síðari konan, Helga, er ættuð frá Suður-Jótlandi, afbragðskona á alla lund eftir kynnum mínum að dæma. Þau hjónin eignuðust þrjár dætur og einn son, Sólveigu, Dísu, Margréti og Kjartan. Dæturnar eru búsettar í Kaupmannahöfn eða nágrenni, hafa stofnað heimili og eignazt börn, en sonurinn dó ókvæntur fyrir fáum árum, var öllum harmdauði.

Richardt og Helga hafa búið í Holte, einni af útborgum Kaupmannahafnar, norður undir Furesöen. Auk hins vinalega vatns eru þar víða hinir prúðustu skógarlundir. Á árum áður hafði Nordisk Film þarna kvikmyndaver sitt, og eru því margar hinar eldri kvikmyndir félagsins teknar á þessum slóðum.

Richardt notfærði sér landslagið þarna til hollustusamlegra hreyfinga. Fór á reiðhjóli um nágrennið og norður að vatninu, þar sem hann tók sér bát á leigu og reri einn síns liðs góðan spöl. En ekki lét hann sig minna skipta hinar andlegu æfingar. Hann var alla tíð mikill áhugamaður um manntafl og iðkaði það talsvert hér heima og eins í Holte, þar sem hann gekk í taflfélag. Við vorum saman í kunningjaklúbbi æði mörg ár og höfðum alltaf jafn mikla ánægju af. Mjög vorum við líka jafnoka við skákborðið, og jók það á ánægjuna. Í síðasta símtali okkar, sem áður var nefnt, barst heimsmeistaraeinvígið í Lundúnum á góma, og taldi hann að áskorandinn hefði teflt sérlega vel oft og einatt en lent í tímahraki eða öðrum hremmingum er á leið og því misst af vinningi. Richardt fylgdist sem sé gjörla með taflmennskunni, þrátt fyrir vanheilsu, og sýnir það hug hans til skáklistarinnar.

Þau hjónin, Helga og Richardt, iðkuðu talsvert ferðalög á síðari árum, fóru akandi, fljúgandi eða í lest suður um álfuna, svo og til Austurlanda nær og norðanverðar Afríku. Í síðari bók sinni lýsir Richardt ferðum þeirra til Egyptalands og Marokkó og gerir það ágæta vel. Þessar ferðir tengdust nokkuð grúski hans í tungumálum, slavneskum málum, hebresku og arabísku, en innsýn hans á þessi svið nýttust honum talsvert á ferðalögum. Síðasta ferðin var farin í sumar, þegar þau hjónin dvöldu vikutíma í Prag, en þangað munu þau ekki hafa komið fyrr. Þaðan fékk ég frá þeim póstkort, síðasta skrif Richardts til mín, dags. 1. júlí.

En síðari bók Richardts, Í frásögur færandi, hefur líka að geyma ýmsar hugleiðingar af heimspekilegum toga, því að höfundurinn var víðlesinn á því sviði, byrjaði ungur að sanka að sér ritum um heimspeki og sálarfræði. Lesendur Morgunblaðsins hafa kynnzt þessari hlið æði oft, þegar birzt hafa pistlar frá hans hendi. Mest hefur þar borið á trúarlegum viðhorfum í frjálshyggjuanda, því að Richardt vildi ógjarnan játast nokkru því, sem ekki var hægt að færa sönnur á. Hann mat Darwin meira en aðra vísindamenn fyrir að hafa gefið mannkyni nýja innsýn í tilveruna með þróunarkenningu sinni.

Vera má að sumum lesendum pistlanna í Morgunblaðinu hafi þótt Richardt stundum nokkuð staffírugur í málflutningi sínum, en óhætt er að fullyrða að það hafi ekki verið dramb, heldur skrifað í ákafa sannfæringarinnar. Hann var heimsmaður en ljúfur í lund og einkar viðmótsgóður.

Mig langar til að taka hér upp undir lokin sýnishorn þess, að Richardt var ekki jafn gallharður efahyggjumaður og stundum mátti ætla. Dæmið er tekið úr kafla um kraftaverk í síðari bók hans:

"Góðkunningi minn frá Akureyri tók berkla ungur að árum. Faðir hans sem var læknir kom honum fyrir á Kristneshæli en síðar var hann fluttur suður á Vífilsstaði, þá um tvítugt. Á Vífilsstöðum dvaldist hann svo um nokkurra mánaða skeið undir læknishendi og var hlúð að honum eftir beztu föngum. Þrátt fyrir góða umönnun hrakaði honum jafnt og þétt. Lítil batavon virtist því fyrir hendi á Vífilsstöðum.

Þá tók faðir hans það til bragðs að senda hann til Danmerkur á heilsuhæli á N-Sjálandi, Helsingör Sanatorium. Kunningi minn var þungt haldinn þegar hér var komið sögu. Hann segir sjálfur svo frá að hann hafi vart getað vænzt langra lífdaga þegar hann innritaðist á heilsuhælið, tærður og máttvana. Á Helsingör Sanatorium var honum þó mjög vel tekið. Hælið var bjart og vistlegt með stórum gluggum. Umhverfi allt andaði friði og ró. Matur og allur viðurgerningur var eins og bezt varð á kosið. Starfsfólkið var hlýlegt og notalegt. Sannarlega vantaði ekkert á að honum gæti liðið vel - ekkert nema heilsuna.

Í hinu fagra umhverfi og við hið hlýja viðmót glæddist von kunningja míns um að þrátt fyrir allt ætti hann eftir að sigrast á veikindum sínum. Hann gat ekki kvatt þetta umhverfi og elskulega fólk, ekki fjölskylduna heima, vini, ættingja, allt sem honum var kært og allt sem hann hafði dreymt um á unglingsárum að upplifa og sjá. Hann var gagntekinn af þessari hugsun þegar hann gekk til hvílu eitt kvöldið. Sat hann þá á rúmstokknum og allt í einu spennti hann greipar. Hálfrökkur var í herberginu en skímu lagði utan frá inn um gluggann. Hann ákallaði móður sína sem var látin fyrir nokkrum árum, ákallaði hana og bað um að hún bjargaði lífi hans: Sjáðu eymd mína, móðir mín. Ég er enn ungur að árum en dauðinn stendur þegar við dyrastafinn. Hjálpaðu mér, móðir mín, læknaðu sár mín og lofaðu mér að lifa! Lofaðu mér að njóta lífsins, elska og þrá og endurgjalda allt hið góða sem mér hefur verið gert! Ég skal láta eitthvað gott af mér leiða og ég veit að ég verð bænheyrður í örvæntingu minni og ýtrustu neyð.

Hann var í hálfgerðri leiðslu. Hann hafði einblínt á vegginn andspænis þar sem mynd af móður hans hékk. Honum fannst sem hann yrði viðskila við líkamann um stund. Svo allt í einu birtist honum hvítklædd kona. Hún stóð beint upp fyrir framan hann og brosti við honum. Hann varð undrandi og vildi ávarpa hana. Hann stóð upp og tók eitt skref í áttina til hennar en þá hvarf hún jafn skyndilega og hún hafði birzt.

Hann svaf vel um nóttina og var hress við morgunverðarborðið. Matarlystin var óvenju góð og hann fór í langa gönguferð eftir morgunmatinn. Næstu daga braggaðist hann mjög. Framfarirnar voru greinilegar. Læknar tóku eftir þessum skyndilega bata en áttu ekki eina einhlíta skýringu á honum.

Það er skemmst frá því að segja að nokkrum vikum seinna var hann búinn að ná fullri heilsu og var útskrifaður alheill frá Helsingör Sanatorium. Um hvítklæddu konuna sem hafði birzt honum sagði hann síðar að hann hafi fyrst talið að þetta væri móðir sín; seinna hallaðist hann þó frekar að því að það hefði verið María mey. Kunningi minn dó í hárri elli, hartnær níræður."

Og nú er Richardt Ryel á bak og burt. Hann var fæddur 18. október 1915, dó 2. október. Á morgun er því afmælisdagur hans. Þá hefði hann orðið 78 ára. - Ég votta Helgu konu hans, dætrunum og börnum þeirra innilega hluttekningu mína, og mér er áreiðanlega óhætt að tengja þar við samúðarkveðjur skólasystkina og annarra vina.

Baldur Pálmason.