Sigríður Jónsdóttir - Minning Hinn áttunda október síðastliðinn lést vinkona mín Sigríður Jónsdóttir eftir langvarandi veikindi. Ljúfsárar minningar komu upp í huga minn um þessa glæsilegu æskuvinkonu mína. Við Sigga kynntumst fyrst þegar við vorum átta ára gamlar í Landakotsskóla og urðum strax bestu vinkonur. Hún bjó þá inn við Rafstöð en ég í Hlíðunum. Löng vegalengd var á milli heimilanna. En forsjónin hagaði því þannig að tveimur árum síðar fluttist ég ásamt fjölskyldu minni inn í Vogahverfi. Nú gátum við hist hvenær sem tími gafst til. Rafstöðin með sínu fagra umhverfi varð okkar leikvöllur. Þar lékum við okkur í boltaleikjum á fögrum sumarkvöldum og skíðuðum í Ártúnsbrekkunni á veturna. Heima hjá Siggu naut ég gestrisni foreldra hennar sem voru mér einstaklega hlý og yndisleg.

Við Sigga fórum saman í sunnudagaskóla KFUK og síðar sem unglingar sóttum við fund hjá KSS. Með þeim félagsskap fórum við ófáar ferðir saman í Vatnaskóg, Vindáshlíð og Kaldársel. Ég minnist gamlárskvölds nokkurs fyrir allmörgum árum. Þá var gengið á Helgafell eftir samverustund í Kaldárseli. Var það stórkostleg upplifun að líta yfir Reykjavíkurborg kl. 12 á miðnætti, hafin yfir allan skarkala en njóta samt stórkostlegrar ljósadýrðar. Ánægjustundirnar sem við Sigga áttum saman gegnum tíðina voru vissulega margar. Með árunum hittumst við sjaldnar en misstum þó aldrei sjónar hvor á annarri.

Áður en Sigga lærði til organista starfaði hún sem ljósmóðir og svo skemmtilega vildi til að frumburður minn var fyrsta barnið sem Sigga tók á móti sem fulllærð ljósmóðir. Betri handleiðslu við þá frumraun gat ég ekki fengið.

Fregnin um að vinkona mín væri haldin ólæknandi sjúkdómi varð mér mikið áfall. Við hittumst nokkrum sinnum á þessu ári á meðan Sigga gat enn verið heima og áttum saman ómetanlegar stundir þar sem rifjaðar voru upp gamlar minningar og fyllt upp í götin.

Með þessum fátæklegu orðum vil ég minnast vinkonu minnar og þakka henni samfylgdina í gegnum tíðina. Eiginmanni og sonum, tengdadætrum, móður og systkinum sendi ég hugheilar samúðarkveðjur.

Björg Kristjánsdóttir.