Sigríður Jónsdóttir - Minning Kveðja frá KFUK í Reykjavík Í dag stöndum við félagskonur í KFUK í þeim erfiðu sporum að kveðja Sigríði Jónsdóttur, félagssystur okkar og fyrrum formann KFUK. Á undangengnum vikum höfum við þegar séð á bak þremur félagssystrum okkar og Sigríður yngst þeirra fyllir nú þann hóp.

Við nemum staðar - komið er að kveðjustundu. Hugleiðingar um lífið og tilveruna gera óhjákvæmilega vart við sig, vangaveltur sem snerta eðli og tilgang lífsins, hinstu rök tilverunnar og þá ráðgátu sem dauðinn er. Kristur og frelsunarverk hans verður okkur hugleiknara. Vald dauðans hefur verið borið ofurliði. Sigurinn er Krists og fyrir hann höfum við höndlað lífið, lífið með honum um eilífð alla.

Sigga greindist fyrir tveimur árum með þann alvarlega sjúkdóm, sem að lokum lagði hana að velli. Í veikindum sínum var hún sem og fjölskylda hennar borin á bænarörmum, þar sem Guð var beðinn að líta til þeirra í náð sinni, veita þeim hjálp og gefa þeim styrk trúarinnar. Við fylgdumst náið með Siggu og skynjuðum glöggt þá erfiðu baráttu sem hún háði. Hún fól sig Guði og í honum átti hún athvarf sitt.

Sigga var barn að aldri þegar hún fór að sækja fundi hjá KFUK og KFUM enda voru foreldrar hennar meðlimir í þeim félögum. Framan af tók hún þátt í ýmsum þáttum starfsins en hin síðari ár var hún undirleikari á fundum okkar og samkomum. Spilaði hún síðastliðin ár nær undantekningarlaust á öllum AD-fundum í KFUK. Tónlistin skipaði stóran sess í lífi hennar. Hún starfaði sem organisti úti á landi, er fjölskyldan bjó þar og á síðari árum einnig í Reykjavík.

Sigga var í stjórn KFUK árin 1986­1992, lengstum sem ritari. Starfsárið 1991­1992 var hún formaður félagsins, en varð að hætta þeim störfum sökum þeirra alvarlegu veikinda, sem gerðu vart við sig.

Þegar horft er um öxl og litið til baka verður mynd Siggu björt og skýr. Öll störf sín í KFUK vann hún af stakri samviskusemi og vandvirkni. Þessir þættir ásamt einlægni, heiðarleika og rósemi voru einkennandi fyrir hana. Hún var glæsileg kona og einstaklega vel gerð.

Sigga var ekki margmál um eigin hagi en þó duldist engum sem kynntist henni, að eiginmaður hennar Pétur Sigurðsson stóð henni við hlið og studdi hana einlæglega. Hann lagði sitt af mörkum til starfsins og í honum eignaðist KFUK góðan stuðningsmann, sem við metum mikils og þökkum fyrir. Við sendum Pétri, sonum þeirra, Sigurði, Gunnari Þór og eiginkonum þeirra, Hannesi, aldraðri móður og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur. Við biðjum Guð að umvefja þau með kærleika sínum, hugga þau og vera þeim nálægur í sorg þeirra.

Við þökkum Guði fyrir Siggu og öll störf hennar í þágu KFUK. Við kveðjum hana með orðum þeim sem hún gaf okkur félagssystrum sínum er hún lét af formennsku í KFUK árið 1992.

"Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður. Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt." (2. Kor. 4:16­17.)

Stjórn KFUK í Reykjavík.