Sigríður Jónsdóttir - viðbót Glæsileg, hæfileikarík og ljúf í viðmóti eru þau orð sem okkur dettur í hug, er við minnumst bróðurdóttur okkar, Sigríðar Jónsdóttur, sem lést 8. október síðastliðinn, eftir erfið veikindi aðeins 47 ára gömul. Hún var fædd í Reykjavík 8. febrúar 1946, dóttir hjónanna Jóns Ásgeirssonar, stöðvarstjóra við Elliðaárstöðina, sem lést 1978 og Gunnþórunnar Markúsdóttur, sem lifir dóttur sína. Hún var önnur í systkinaröðinni, eldri er Ásgeir Markús og yngri Guðrún, bæði búsett í Reykjavík.

Sigríður ólst upp á yndislegu heimili í fögru umhverfi við Elliðaárnar. Snemma komu tónlistarhæfileikar hennar í ljós, sem hún ræktaði vel enda fékk hún hvatningu til að stunda tónlistarnám. Hún lærði líka ljósmóðurstörf og vann við þau um árabil.

Árið 1968 giftist hún Pétri Sigurðssyni skipstjóra. Þau eignuðust þrjá syni sem eru: Sigurður, fæddur 1969, líffræðinemi, kvæntur Ingibjörgu Valgeirsdóttur; Gunnar Þór, fæddur 1971, lögfræðinemi, kvæntur Eddu Björk Skúladóttur; og Hannes, fæddur 1974, nemi.

Fjölskyldan bjó um tíma á Suðureyri. Þar var Sigríður organisti í kirkjunni. Eftir að þau fluttu aftur til Reykjavíkur varð hún aðstoðarorganisti í Laugarneskirkju í tvö ár, seinna eitt ár í Breiðholtskirkju og síðan í Grafarvogssókn frá stofnun hennar.

Tími Sigríðar er nú liðinn. Enginn flýr örlög sín, síst af öllu dauðann. Stundum finnst manni hann birtast okkur af miskunnarleysi og svo er vissulega nú þegar við kveðjum frænku okkar, svo unga og hæfileikaríka konu, sem lífið virtist blasa við.

Við og fjölskyldur okkar sendum Pétri, sonum, tengdadætrum, Gunnþórunni, Ásgeiri Markúsi, Guðrúnu og fjölskyldum, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sá sem eftir lifir

deyr þeim deyr

en hinn dáni lifir

í hjarta og minni

manna er hans sakna.

þeir eru himna......

honum yfir.

(Hannes Pétursson)

Guðs blessun fylgi Sigríði í hinstu ferð.

Steinunn Ásgeirsdóttir,

Einar Ásgeirsson

og fjölskyldur.