Sigríður Jónsdóttir - viðbót Hinn 8. okt. sl. lést vinkona okkar, Sigríður Jónsdóttir, organisti, á Grensásdeild Borgarspítalans, eftir langvarandi sjúkdómslegu af völdum heilablóðfalls. Af þeim sökum hefði lát hennar ef til vill ekki átt að koma okkur á óvart. Samt sem áður snertir fráfall góðs vinar ávallt viðkvæman streng í hjörtum okkar. Það er þó huggun harmi gegn, að við vitum, að hún hefur nú fengið lausn frá jarðneskum þjáningum og hvílir nú við brjóst síns himneska föður, sem hún átti svo einlæga trú á.

Við kynntumst Sigríði Jónsdóttur fyrst fyrir um það bil 35 árum, þegar hún gekk til liðs við okkur í Kristilegum skólasamtökum. Þar var fyrir bróðir hennar, Ásgeir Markús, og nokkrum árum seinna kom yngri systir þeirra, Guðrún, einnig í KSS. Þau systkinin komu frá einlæglega trúuðu heimili, þar sem foreldrar þeirra Gunnþórunn og Jón Ásgeirsson, veittu þeim ástúðlegt, kristilegt uppeldi, sem þau nutu góðs af upp frá því og var þeim gott veganesti í lífsbaráttunni.

Á þessari stundu koma fram í hugann allar yndislegu samverustundirnar, sem við áttum í KSS. Við minnumst allra fundanna, skólamótanna í Vatnaskógi og Vindáshlíð og starfs í æskulýðskórum. Alls staðar var Sigríður sjálfsagður þátttakandi og gekk að starfinu af fúsleik, til þess að sem flestir fengju að heyra fagnaðarboðskapinn um Jesúm Krist. En síðast og ekki síst minnumst við allra gamlárskvöldanna, þegar okkur var öllum boðið heim til þeirra og nutum við einstakrar gestrisni foreldra þeirra. Þar ríkti fölskvalaus gleði, farið var í leiki og mikið sungið. Þá tók Jón faðir þeirra fram fiðluna sína og spilaði fyrir okkur við undirleik Sigríðar. Þetta eru okkur öllum ógleymanlegar stundir.

Nú að leiðarlokum í þessu lífi, viljum við gömlu félagarnir þakka Sigríði Jónsdóttur fyrir allt sem hún var okkur, fyrir allt hennar óeigingjarna starf, sem hún innti af hendi fyrir KSS á þeim árum sem við störfuðum þar. Við biðjum góðan Guð að blessa minningu hennar.

Þá biðjum við Drottin að blessa ástvini hennar, eiginmann, móður, börn og tengdabörn og veita þeim sinn styrk í þeirra mikla söknuði og sorg.

Fyrir hönd gömlu félaganna í KSS,

Hilmar E. Guðjónsson.