Sigurður Markús Sigurðsson - Minning Fæddur 22. júlí 1961 Dáinn 3. október 1993 Ég á erfitt mað að sætta mig við það að eiga ekki eftir að sjá stóra bróður aftur. Ég bíð alltaf eftir því að mamma segi mér að þetta hafi verið einhver misskilningur, Sonny sé lifandi, því hann hafi meiri lífskraft en nokkur annar. Ég stríddi honum með því að segja að hann hefði fleiri líf en kötturinn.

Sonny hafði sína galla eins og allir aðrir, en góðhjartaðri manni hef ég ekki kynnst. Hann var gjafmildur og í ófá skipti birtist hann með eitthvað til að gleðja mig og Brögu dóttur mína. Reglulega sendi hann kort eða blóm og ef hann kom ekki á afmælisdögum sendi hann skeyti. Samskiptin voru þó ekki alltaf dans á rósum og þar sem við vorum svo lík í skapi var stundum erfitt fyrir okkur að vera saman. Ég man varla eftir því að við höfum spilað saman án þess að allt færi í háaloft. Stundum endaði það með því að annað hvort okkar rauk út og skellti hurð. Hvorugt okkar tók þessu þó alvarlega og aldrei vorum við lengi reið. Hann vissi alltaf hvaða sess hann skipaði í hjarta mínu.

Ég var svo heppin að fá að vera mikið með Sonna hans síðustu daga hér á Íslandi, því svo fór hann til Hollands með konu sinni Emblu, sem hann var nýbúinn að giftast. Tveimur vikum fyrir lát hans var ég viðstödd giftinguna. Þau svo ástfanginn að ekkert hefði getað eyðilagt þennan dag fyrir þeim. Sonny fékk þá að kynnast þeirri hamingju sem Embla veitti honum. Ég vil þakka henni fyrir það.

Tveimur dögum áður en Sonny og Embla fóru út sátum við öll og ræddum um allt milli himins og jarðar. Þá fannst mér ég nánari honum en nokkurn tímann áður. Þeirra stunda sem við Sonny sátum og spjölluðum um lífið og tilveruna á ég eftir að sakna mjög mikið. En ég veit að honum líður vel.

Litla systir Aðalheiður.