Sigurður Markús Sigurðsson - viðbót Hér koma fáeinar línur um mann sem ég náði því miður ekki að kynnast mjög náið. Þrátt fyrir það hafði ég heyrt mikið um hann. Alltaf var Heiða að tala um Sonna bróður. Eftir langan tíma fékk ég svo loks að hitta hann, því að hann hafði dvalið erlendis um nokkurt skeið. Ég man að ég kveið dálítið fyrir. Mér fannst svo skrítið að Heiða litla ætti stóran bróður, og stór var hann svo sannarlega.

Ég sá hann fyrst á Dyngjuveginum á heimili foreldra þeirra systkinanna. Þá var hann brúnn og mikill á velli. Við kynntum okkur og ótrúlegt en satt: eftir fáeinar mínútur sátum við tveir inni í eldhúsi yfir kaffibolla og töluðum saman óþvingað og opinskátt. Fyrst þá skildi ég Heiðu, en hún var búin að segja mér að þau tvö gætu setið klukkutímum saman og talað.

Það streymdi eitthvað frá honum Sonna sem gerði það að verkum að maður vildi tjá sig við hann.

Fleiri verða þessar línur ekki, en að lokum vil ég biðja Guð um að gefa foreldrum, systkinum, eiginkonu, syni og öðrum syrgjendum styrk.

Einar Halldór.