Rómantík Leitast við að fanga innri birtu sálarinnar.
Rómantík Leitast við að fanga innri birtu sálarinnar. — Morgunblaðið/Kristinn
Aðalbjörg Þórðardóttir Til 1. apríl. Gallerí Fold er opið mán. til fös. 10 -18, laud. 11-16 og sun. 14-16. Aðgangur ókeypis.

AÐALBJÖRG Þórðardóttir heldur sína fyrstu málverkasýningu í Gallerí Fold en hún hefur áður starfað við hönnun, myndskreytingar og auglýsingagerð. Myndefni Aðalbjargar er afar rómantískt eins og texti hennar í sýningarskrá endurspeglar en þar kemur fram áhersla á innri birtu sálarinnar.

Rómantík kom fram á nítjándu öld sem andsvar við skynsemisstefnu upplýsingaaldar. Stefnan lagði áherslu á tilfinningar ofar rökhyggju, þann hluta sálarinnar sem er ljóðrænn og hástemmdur ásamt virðingu fyrir náttúrunni. Flestir þekkja málara á borð við William Turner og Caspar David Friedrich. Viðfangsefni Aðalbjargar er í samræmi við markmið rómantísku stefnunnar en hún leitast við að fanga innri birtu sálarinnar og eins og hún orðar það, það svið mannlegrar tilveru sem er eilíft.

Aðalbjörg sýnir allnokkur stór olíumálverk sem sýna ýmist svani á flugi eða samruna svans og konu, pensildrættir, litanotkun og áferð minna einnig á rómantíska tímabilið. Myndefni hennar er tæpast frumlegt, né nálgunin og í heildarmynd sýningarinnar gætir nokkurrar einsleitni, eins er málarastíllinn vandasamur og sum verkin líða nokkuð fyrir stífni og skort á átökum í uppbyggingu.

En listakonan nálgast viðfangsefni sitt af einlægni og einbeittum ásetningi sem verður til þess að þegar henni tekst hvað best upp nær hún á nokkuð óhlutbundinn máta að fanga næstum upphafna hreyfingu og birtu sem gefur ef til vill meira í skyn en bókstaflegri nálgun gerir.

Ragna Sigurðardóttir