Í land Kláfur er notaður til að ferja vörur og menn milli skips og lands.
Í land Kláfur er notaður til að ferja vörur og menn milli skips og lands. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is Sandgerði | Vinna við viðgerð á botni strandaða flutningaskipsins Wilson Muuga er komin á fullan skrið á strandstað við Hvalsnes. Verkefnið er erfiðara en gert var ráð fyrir en ekkert uppgjafarhljóð er þó komið í menn.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

Sandgerði | Vinna við viðgerð á botni strandaða flutningaskipsins Wilson Muuga er komin á fullan skrið á strandstað við Hvalsnes. Verkefnið er erfiðara en gert var ráð fyrir en ekkert uppgjafarhljóð er þó komið í menn.

Gera þarf við göt á botni skipsins og gera það klárt til að hægt sé að draga það burtu á stórstraumsflóði um miðjan maí. Vinna við viðgerð hófst 1. apríl og hefur verið unnið sleitulaust síðan, fyrir utan stutt frí um páskahelgina.

Þyrla var upphaflega notuð til að koma tækjum og mannskap út í skipið en fyrir páska var útbúinn kláfur sem notaður er til að draga varahluti og efni sem nota þarf við verkið á milli og jafnvel starfsmenn sem þurfa að komast í land. Annars sofa starfsmennirnir í íbúðum skipsins og vinna langan vinnudag sem þó ræðst af sjávarföllunum. Það er Köfunarþjónusta Árna Kópssonar sem annast viðgerðina.

Stanslaus bræla

"Það hefur verið nánast stanslaus bræla og ekki hefur það hjálpað til," segir Guðmundur Ásgeirsson, stjórnarformaður Nesskipa, sem eiga skipið en hann stjórnar aðgerðum um borð í Wilson Muuga. Hann segir að ýmislegt hafi komið í ljós við viðgerðina, eins og oftast við slík verkefni, en hingað til hafi flest tíðindin verið neikvæð og geri verkið erfiðara. Nefnir hann að erfiðara sé að vinna í vélarrúminu en gert var ráð fyrir enda sé svo smástreymt núna að vélin komi ekkert uppúr núna. Þá hafi uppgötvast leki í lest skipsins sem menn hefðu verið að vona að væri ekki.

Guðmundur og hans fólk er þó ekkert á því að gefast upp og vonast til að hægt verði að ráða fram úr þessum málum í tíma.