"ÞETTA er nærri 20 ára gömul frétt. Allir sem hafa fylgzt með viðskiptalífinu á Íslandi, vita að Vogun, dótturfyrirtæki Hvals hf., keypti stærsta hlutann í Granda árið 1988 og hefur verið stærsti hluthafinn síðan.

"ÞETTA er nærri 20 ára gömul frétt. Allir sem hafa fylgzt með viðskiptalífinu á Íslandi, vita að Vogun, dótturfyrirtæki Hvals hf., keypti stærsta hlutann í Granda árið 1988 og hefur verið stærsti hluthafinn síðan. Það er því einkennilegt að einhver brezk hvalverndunarsamtök séu að stæra sig af því nú, að hafa komizt á snoðir um þessi gömlu tengsl," segir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals og stjórnarmaður í HB Granda.

Þetta segir Kristján í kjölfar þess að brezk hvalaverndunarsamtök (Whale and Dolphin Conservation Society) kalla nú eftir því að stórverzlanir og birgjar í Bretlandi staðfesti að þeir kaupi ekki fisk frá íslenzkum fiskvinnslufyrirtækjum sem tengjast hvalveiðum.

Kristján bendir einnig á að það felist lítil rannsóknarvinna í því að finna út að 20% afurða HB Granda séu seld til Bretlands. Það standi í ársskýrslu félagsins. Hann segist ekki hafa nokkrar áhyggjur af þessum aðgerðum WDCS í Bretlandi og að ekkert mál verði að selja hvalkjötið frá síðasta hausti. Það sé hins vegar tímafrek vinna að taka öll nauðsynleg sýni úr kjötinu og fara yfir þau, en þau séu tæplega 5.000. Að því loknu verði kjötið selt.

Fram kemur á vefsíðu WDCS að samtökin hafi komizt að því að hvalveiðiiðnaðurinn á Íslandi tengist íslenskum fiskvinnslufyrirtækjum að hluta.

Samtökin hafa sent stærstu stórverzlununum og fiskheildsölum í Bretlandi bréf þar sem bent er á þessi tengsl íslenzkra fiskvinnslufyrirtækja við hvalveiðar. WDCS vill fá tryggingu fyrir því að fyrirtækin muni ekki kaupa fisk af íslenzkum fiskvinnslufyrirtækjum sem tengjast beint eða óbeint hvalveiðum.

Fram kemur á vef samtakanna að þau hafi komizt að því, þrátt fyrir yfirlýsingar íslenzkra stjórnvalda, að fiskvinnslufyrirtæki tengist ekki hvalveiðum, að Hvalur hf. eigi stóran hluta í fiskvinnslufyrirtækinu HB Granda. Að HB Grandi geymi hvalaafurðir Hvals frá veiðum síðasta haust og jafnframt er bent á það að HB Grandi selji að minnsta kosti 20% afurða sinna til Bretlands.

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri Granda, segir það ekki rétt að HB Grandi geymi hvalkjötið, heldur hafi félagið leigt Hval hf. aðstöðu til að vinna kjötið tímabundið síðasta haust. Hann segir einnig að félagið eigi góða viðskiptavini í Bretlandi og það liggi ekki undir neinum þrýstingi frá þeim. "Þessi svokallaða frétt frá WDCS er því sannkölluð ekkifrétt," segir Eggert.

Í hnotskurn
» HB Grandi á góða viðskiptavini í Bretlandi og liggur ekki undir neinum þrýstingi frá þeim.
» WDCS vill fá tryggingu fyrir því að fyrirtækin muni ekki kaupa fisk af íslenzkum fiskvinnslufyrirtækjum sem tengjast beint eða óbeint hvalveiðum.
» HB Grandi geymir ekki hvalkjötið fyrir Hval hf.