[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar leið að lokum hins langa ferðalags Elizu Reid um Vestur-Afríku, sem sagt hefur verið frá hér í blaðinu fjóra síðustu sunnudaga, heimsótti hún munaðarleysingjahæli íslensku samtakanna Spes í Tógó og virti fyrir sér áhrifamikil minnismerki um mansal í Ghana.

Í Vestur-Afríku eru fimmtungslíkur til þess að kornabarn deyi áður en það nær fimm ára aldri. Malaría, niðurgangur, alnæmi og aðrir sjúkdómar sem er hægt að lækna eða halda í skefjum á Vesturlöndum eru banvænir á þessum slóðum. Á ferð minni komst ég ekki hjá því að sjá hvern þorpskrakkann á fætur öðrum með uppþembdan maga eða bleiulaus smábörn skríðandi í stórum pappakössum sem komu í stað leikgrinda.

Örbirgðin breytti því ekki að flest börn sem ég hitti voru vingjarnleg og glöð í bragði, köstuðu á mig kveðju þegar ég átti leið hjá og báðu mig um bonbons. Og hamingjan skein einna skærast í andliti krakkanna sem ég hitti í Spes (www.spes.is).

Spes er latneska orðið fyrir von. Í þessu tilfelli er það einnig skammstöfun fyrir samtökin Soutien pour l'enfance en souffrance (stuðningur fyrir börn í neyð). Þau reka munaðarleysingjahæli í Lomé, höfuðborg Tógó, sem reis að frumkvæði Njarðar P. Njarðvík eftir að hann heimsótti vini í landinu fyrir tæpum áratug.

"Við byrjuðum alveg frá grunni með Nirði," sagði forstöðukonan Immaculée Amenganvi um leið og við vættum kverkarnar með bleikum bissap-safa. Eftir fyrstu ferðina til Tógó safnaði Njörður því fé sem þurfti fyrir hælið og fékk til liðs við sig valinkunna einstaklinga (Össur Skarphéðinsson er núna formaður Spes á Íslandi og með honum í stjórn eru Bera Þórisdóttir, Eva María Gunnarsdóttir, Jón Sigurðsson og Lena Magnúsdóttir). Með aðstoð móðursamtakanna í Frakklandi tókst þeim að afla fjár til að sjá um dvöl fimm barna á munaðarleysingjahælinu.

Hælið sjálft er líkast kastala í ævintýri og stendur nærri þjóðarleikvangi landsins. Þegar ég var á ferð átti 61 barn heima þar, allt frá hvítvoðungum til tíu ára aldurs. Þau hafa annaðhvort misst annað foreldrið eða bæði og Spes sér hverju barni farborða til 16 ára aldurs; veitir bæði menntun og hollan mat.

Spes var eins og fimm stjörnu hótel miðað við aðbúnaðinn sem ég sá í Peuple du Monde í Benín þar sem allt var á byrjunarstigi. Hjá Spes er rafmagn og rennandi vatn og í starfsliðinu eru meðal annars 15 "ta-ta", nokkurs konar dagmömmur sem fylgjast með börnunum. Í gluggunum eru moskítónet og nýtt mötuneyti og svefnskáli eru í byggingu. Eflaust hefur það sitt að segja að Spes er í höfuðborginni og vegleg fjárframlög hafa greinilega verið nýtt skynsamlega (það kostar 77 evrur á mánuði að styrkja eitt barn).

Á einum veggnum var málverk af ávaxtakörfu og þar fyrir ofan látlaus skjöldur með þökkum til íslenskra stjórnvalda og annarra vildarvina fyrir stuðning við hælið. Í portinu hljóp einn fjörkálfurinn um í stuttermabol með merki Sparisjóðsins.

Au revoir français, hello English

"Og hvernig leist þér á Tógó?" Tógóski landamæravörðurinn spurði mig spjörunum úr á varðstöðinni á Aflao við landamæri Tógó og Gana. "Bara mjög vel en ég hafði þó ekki tíma til að ferðast mikið," sagði ég um fimm daga dvöl mína í landinu, þar af var tveimur var eytt uppi í rúmi út af einhverri flensu sem ég fékk. "Ah!" hrópaði hann skrækt upp yfir sig eins og mönnum er svo tamt í þessum hluta Afríku þegar þeir láta í ljós uppgerðarhneykslan. "En það er allt í lagi," hélt hann áfram. "Næst þegar þú kemur geturðu haft uppi á mér og ég skal vera með þér allan tímann." Svo blikkaði hann mig. Þetta var í síðasta skipti sem ég fór um landamæri á ferðalaginu og þegar ég tók mín fyrstu skref í Gana buðu kaupahéðnar kostakjör hver í kapp við annan: hagstæðustu gjaldeyriskaupin hér, besta verðið á ólöglegum geisladiskum þar, steikt kjöt á teini eða hass. Ég lét þetta allt sem vind um eyru þjóta.

"Gæti ég fengið smágreiðslu?" spurði þreytulegur embættismaður Ganamegin þegar hann kvaðst vilja sjá vottorðið mitt um bólusetningu gegn gulu. Ég hristi höfuðið. "Tja, kannski þú viljir giftast mér í staðinn?" spurði hann þá með vonarglætu í röddinni.

Ég var sem sagt komin til Gana, þar sem enska er töluð og innblásin heiti hárgreiðslustofanna bera trúarhita íbúanna glöggt merki. Í suðurhluta landsins þar sem kristni er ríkjandi tekur maður sérstaklega eftir biblíuvísunum í heitum hinna ýmsu fyrirtækja og stofnana. Fyrstu mínúturnar á fjögurra stunda ökuferðinni til höfuðborgarinnar Accra tók ég til dæmis eftir Dýralæknastofu gæfu og náðar (eins og í Davíðssálmum), Heilsulind hinnar heilögu þrenningar, Matvöruverslun dýrðarinnar, og Tískubúð hins sæla Jesú. "Drottinn verndar mig gegn öllum hættum," var málað á sendiferðabíl við hús sem verið var að reisa. Lausir trjábolir studdu við burðarvirkið sem var í smíðum og verkamenn gengu um án hjálms tugi metra frá jörðu.

Aldrei aftur

Sjávarseltan liggur í röku loftinu þegar maður röltir eftir hinum sendnu ströndum Cape Coast, um þriggja tíma ökuferð vestur frá Accra. Fiskimenn leggja á hafið í löngum mjóum bátskeljum með flaggstöng í stafni þar sem litríkir fánar blakta – nema á þriðjudögum því þá eru allir í landi svo fiskurinn fái "hvíld".

Staðhættir gætu vart verið betri frá sjónarhóli ferðalangsins. Bærinn er rétt mátulega stór svo maður getur farið allra ferða sinna á tveimur jafnfljótum. Þarna er líf og fjör, stærðarinnar pálmatré veita skjól gegn geislum sólarinnar, öldur Atlantshafsins skella á brimsorfnum klettum og tónlist heimamanna hljómar í hátölurum við notaleg kaffihús. Allt þetta, jafngott og það er, er þó ekki ástæða þess að Cape Coast er með vinsælustu ferðamannastöðum í Gana.

Virki og kastalar frá valdaskeiði Evrópumanna eru hvergi fleiri en á strandlengjunni í Gana og Cape Coast er þar um það bil miðja vegu. Frá seinni hluta fimmtándu aldar til þeirrar átjándu risu yfir 80 strandvirki af ýmsum stærðum og gerðum og hinir og þessir réðu þar ríkjum hverju sinni; Bretar, Portúgalar, Hollendingar, Frakkar, Prússar, Svíar og Danir. 37 þessara mannvirkja voru rammgerðir og voldugir kastalar og 29 þeirra standa enn. Sá sem er einna heillegastur er í Cape Coast.

Kastalarnir og virkin risu á sínum tíma til að tryggja öryggi Evrópubúanna og hagsmuni þeirra á svæðinu. Ýmiss varningur, sem hafði verið aflað inn til landsins, var geymdur þar og síðan fluttur til Evrópu eða Nýja heimsins. Fyrst voru hirslur fullar af gulli og fílabeini en seinna urðu viðskipti með mannfólk fyrirferðarmest og í dag laðar sú saga að ferðamenn frá öllum heimsins hornum.

Ábyggilegar tölur liggja ekki fyrir en líklegt er að árin 1650–1850 hafi um sjö milljónir manna verið hneppt í þrældóm þar sem nú heitir Gana og flutt nauðug til Nýja heimsins. Kastalinn í Cape Coast og virkið í Elmina um tíu kílómetra í burtu eru nú á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Á báðum stöðum eru söfn um þrælaflutningana.

Ég tók þátt í frekar tregablandinni skoðunarferð um Cape Coast kastalann. Leiðsögumaðurinn Gmangul Nkrumah fór með okkur átta niður í dýflissuna; dimman og rakan klefa á stærð við hálfan tennisvöll með þremur litlum gluggum á einum veggnum. Þarna voru 250–300 manns hlekkjaðir saman uns næsta skip kom. Þeir sváfu í klefanum, mötuðust þar og gerðu þarfir sínar og ef þeir lifðu þessa þrekraun haf beið þeirra enn hörmulegri vist á leið yfir hafið. Þyldu þeir hana tæki við ævilangur þrældómur.

Gmangul leiddi okkur líka að klefa hinna dauðadæmdu. Þangað fóru þeir sem höfðu náðst á flótta eða brotið af sér á einhvern hátt að mati yfirboðaranna. Aftur voru menn hlekkjaðir saman, 50 talsins, og læstir inni í þessari litlu og niðdimmu og loftlausu kytru, án matar og drykkjar. Síðan biðu þeir dauða síns og þegar sá síðasti hafði gefið upp öndina var líkum allra fleygt í hafið.

Kvenfólkinu var haldið föngnu í sérstakri dýflissu. Einatt nauðguðu hinir evrópsku drottnarar konunum, einir eða fleiri saman. Skólar voru stofnaðir fyrir börn ambáttanna og herranna og marka þeir upphaf menntakerfis í Gana. Enn þann dag í dag bera sumir Ganamenn nöfn þeirra Evrópumanna sem voru viðriðnir þrælasöluna á sínum tíma; Johnson, Van Dijk og þar fram eftir götunum.

Í hverju virki var "heljarhlið" sem fangarnir gengu um, fjötraðir saman, út á skipsfjöl og síðan í vítisvistina vestan hafs. Hliðið er í raun dimmur gangur sem nær manni í mitti eða þar um bil; þrælarnir voru látnir skríða svona síðustu metrana svo þeir reyndu ekki að flýja í örvæntingu sinni.

Mansal var bannað innan breska heimsveldisins árið 1833 og í nýlendum Portúgala árið 1869. Í Ameríku var þrælahald lengst leyft með lögum í Brasilíu, til ársins 1888.

Í kastalanum í Cape Coast er minnisvarði um þá sem létu lífið í ánauð. Þar segir:

Megi þeir sem létust hvíla í friði.

Megi þeir sem snúa til baka finna uppruna sinn.

Megi mannkyn aldrei framar fremja svo mikinn glæp gegn sjálfu sér.

Við sem lifum lofum að efna þetta heit.

Minning um Afríku

Sex dögum fyrir ferðalok hafði ég vaknað frekar úrill í Accra. Ég var með smákveisu og höfuðverk út af stífluðum ennisholum. Ég missti af rútunni til Cape Coast því hótelstjórinn hafði sagt mér það sem hann hélt að ég vildi heyra um brottfarartímann frekar en það sem var satt í raun (hann vissi að ég vildi helst ekki vakna fyrir allar aldir og tjáði mér því að rútan færi klukkan tíu en ekki sjö eins og áætlunin kvað á um). Þegar ég var loks komin á umferðarmiðstöðina til að ná seinni ferð hafði henni auðvitað seinkað um ótiltekinn tíma. Margt smátt gerir eitt stórt og ég var orðin verulega pirruð á ástandinu.

Ég spurði miðaldra konu sem sat næst mér hvort ég biði ekki örugglega á réttum stað eftir rútunni til Cape Coast. Hún fullvissaði mig um það og kynnti mig svo fyrir vinkonu sinni sem átti pantað far með sömu rútu. Sú kona sagðist myndu verða mér innanhandar og sjá til þess að ég fengi leigubíl á sanngjörnu verði þegar ég kæmi á áfangastað. Þegar þangað var loks komið tók konan ekki annað í mál en fylgja mér að hótelinu mínu og borga leigubílinn sjálf í ofanálag.

Ég þakkaði sessunautnum, sem ég hafði gefið mig á tal við, fyrir öll liðlegheitin. "Já, sjáðu til," sagði hún, "mín börn hafa ferðast erlendis og ætíð notið mikillar gestrisni þannig að þegar ég hitti ferðalanga hér reyni ég að gjalda líku líkt." Og viti menn, á svipstundu hafði hún eytt öllum mínum efasemdum um ferðalagið.

Þeir dagar komu að ég var við það að ganga af göflunum. Þær stundir komu að ég lét vanþróað kerfið fara í taugarnar á mér, rafmagnsleysið og þá þraut að fá ekki skýr svör um einfalda hluti hjá fólki, eða ég fylltist samviskubiti yfir að sjá alla fátæktina og vannærðu börnin en gera ekki neitt.

Dagar komu þegar ég var kófsveitt, önug eða lasin og átti þá ósk heitasta að hverfa inn í annan heim, kúra í mjúku rúmi í loftkældu herbergi og njóta góðrar bókar. Ég hef aldrei áður ferðast við jafnerfiðar aðstæður.

En í hvert skipti sem ég spurði sjálfa mig hvers vegna í fjandanum ég væri að þessu hitti ég einhvern eins og konuna á umferðarmiðstöðinni í Accra – eða Arona og hans fólk í Senegal, eða hina ógleymanlegu Mme Samb sem fylgdi mér til Gambíu, götusalana í Bamako sem buðu mér eitt hádegið að deila hrísgrjónum og tei með þeim, hótelhaldarana í Malí sem náðu í lækni þegar ég var lasin og ferðafélagana í rútum eða leigubílum sem skiptust á kosti sínum og ferðasögum með mér, svo ekki sé minnst á alla biðlana og þeirra rómantísku en vonlausu bónorð sem ég vísaði kurteislega á bug.

Fyrst lærði ég að meta hve íbúarnir eru gjafmildir og glaðlyndir og síðan sá ég allt hitt sem einkennir þennan hluta heimsins: taktfastan og seiðandi trumbusláttinn, sterk fjölskyldubönd, keiminn af steiktu geitakjöti á grilli úti á götuhorni, hressandi hafgoluna, blóðrautt sólarlag í eyðimörkinni, bonjours og þétt handtak hvenær sem færi gafst, og hláturinn allan liðlangan daginn.

Þessi lífsreynsla var endurnærandi og því lengri tími sem líður frá ferðinni, því sterkari verða þessar ljúfu minningar um leið og þær sárari dofna og hverfa. Ég reyni enn frekar en áður að brosa og heilsa fólki hvar sem ég fer og sýna ókunnugum þá vinsemd sem mér var hvarvetna sýnd í Vestur-Afríku.

Sú ferðasaga sem ég hef sett saman er aðeins mín eigin minning um Afríku. Legðir þú í sömu ferð á sama tíma að ári yrði þín saga öll önnur. Ég hélt ekki til allra ferðamannastaðanna sem maður "verður að sjá". Ég smakkaði ekki á eins mörgum réttum og ég hefði átt að gera og hlustaði ekki á eins mikið af tónlist heimamanna og ég hefði annars kosið. En ég myndi alls engu breyta.

Og dag einn sný ég aftur á þessar slóðir – til þess að eignast nýjar minningar.

eliza@elizareid.com

Hér lýkur frásögn Elizu Reid af sjö vikna ferð hennar um Vestur-Afríku. Fjóra fyrri hluta ferðasögunnar má lesa á mbl.is: http://mbl.is/go/8hpsw http://mbl.is/go/y3ma6 http://mbl.is/go/ysap2 http://mbl.is/go/uz723