Rannveig Guicharnaud
Rannveig Guicharnaud
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rannveig Guicharnaud og Bergur Sigfússon skrifa um nýja tegund jarðstrengja: "...þurfum við að vanda okkur því ekki viljum við bæta við jarðvegsmenguðum svæðum þvers og kruss um landið."

Á UNDANFÖRNUM vikum hefur verið töluverð umræða um kosti og galla þess að leiða raforku um jarðstrengi í stað hefðbundinna raflína í lofti. Margir telja að út frá umhverfissjónarmiðum sé mun ásættanlegra að leggja jarðstrengi þar sem lagning þeirra hefur t.d. í för með sér minna rask og að sjónmengun af völdum þeirra er hverfandi að loknum framkvæmdum.

Þrátt fyrir þessa kosti geta jarðstrengjum þó fylgt ýmis umhverfisvandamál en þau ráðast fyrst og fremst af þeirri tækni sem notuð er til einangrunar jarðstrengsins. Jarðvegs- og loftmengun eru þekktir fylgifiskar jarðstrengja. Þannig eru eldri jarðstrengir oft einangraðir með gerviefnum. Við hitnun og bruna á einangruninni geta myndast eitraðar loftegundir sem ýmist bindast í jarðveginum eða ferðast um umhverfið í vatni og andrúmslofti og enda gjarnan í lífkeðjunni. Þessar loftegundir geta truflað starfsemi lífvera í jarðveginum og þar með virkni hans í heild. Einnig eru jarðstrengir oft lagðir í steyptan stokk og síðan einangraðir með olíu. Olían er vanalega sett á undir þrýstingi til að þrýstast út um rifur sem myndast og mengar því umlykjandi jarðveg. Afleiðing af olíumengun jarðvegs getur t.d. verið gróðurdauði, takmörkuð örveruvirkni sem stuðlar að ófrjósemi jarðvegs sem og mengun yfirborðs og grunnvatns og þar með neysluvatns. Hreinsun olíu úr jarðvegi er flókið úrlausnarefni og á heimsvísu er takmörkuð reynsla á slíkri hreinsun úr eldfjallajarðvegi sem þekur meginhluta landsins. Auk mengunarhættu þurfa slíkir strengir reglulegt viðhald og er því þörf á vegi meðfram strengnum.

Ný tegund jarðstrengja hefur verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum og áratugum en þeir nefnast XLPE strengir (Cross linked polyethylene cables). Þeir eru einangraðir með gerviefni sem myndar einungis koldíoxíð og vatn við bruna eða hitnun og er jafnframt einangrandi á víðu hitastigsbili. Strengir sem þessir þola upp í 275 kV spennu (sbr. Fljótstalslínur 3 og 4 sem byggðar eru fyrir 420 kV en verða reknar á 220 kV). Helsti kostur þessara strengja er að þeir þurfa ekki jafn mikið viðhald (enginn vegur á yfirborði) og hefðbundnir háspennustrengir og mengunarhætta af rekstri þeirra er hverfandi. Ekki geta höfundar þó dæmt um hvort slíkir strengir séu rekstrarlega hagkvæmir fyrir flutning á rafmagni í þeim mæli sem framtíðarvonir sumra standa til.

Sögulega er jarðvegsmengun tiltölulega lítið vandamál á Íslandi utan nokkurra afmarkaðra svæða. Ef vilji er til að leiða inn notkun jarðstrengja í ríkari mæli á Íslandi þurfum við að vanda okkur því ekki viljum við bæta við jarðvegsmenguðum svæðum þvers og kruss um landið. Látum okkur nægja að þurfa að kljást við jarðvegsmengun á gömlum athafnasvæðum hersins, umhverfis iðjuver og önnur iðnaðarsvæði og í kringum vegakerfi landsins.

Höfundar eru doktorsnemar í jarðvegsfræði við Háskólann í Aberdeen.