30. apríl 2007 | Minningargreinar | 1857 orð | 1 mynd

Guðmundur Einarsson

Guðmundur Einarsson fæddist í Reykjavík 22. ágúst 1925. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Holtsbúð í Garðabæ 24. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru Karólína Guðmundsdóttir vefnaðarkona, frá Þóroddsstöðum í Grímsnesi, f. 29. apríl 1897, d. 31.ágúst 1981 og Einar S. Jóhannesson vélstjóri frá Eyvík í Grímsnesi, f. 20. september 1892, d. 20. júlí 1966. Fjölskylda Guðmundar bjó frá 1929 að Ásvallagötu 10-A, þar sem Karólína rak vefnaðarstofu fram til ársins 1972. Systkini Guðmundar eru: a) Jóhannes verkfræðingur f. 6. júlí 1929. Kona hans er Ingibjörg Ólafsdóttur, þau eiga fjögur börn. Þau hafa búið í Luxemburg frá árinu 1978. b) Uppeldissystir er Guðrún Þórðardóttir, f. 28. maí 1918. Eiginmaður Guðrúnar var Val Skowronski, d. 22. maí 1999. Þau eiga fimm börn. Guðrún býr í Reykjavík.

Fyrri kona Guðmundar var Unnur Andrea Jónsdóttir, f. 1. maí 1925, d. 7. febrúar 1962. Foreldrar Unnar Andreu voru Guðlaug Björnsdóttir og Jón Erlendsson. Með Unni Andreu eignaðist Guðmundur fimm börn, þau eru: a) Jón verktaki, f. 4. ágúst, 1949, býr í Reykjavík. Dóttir hans er Rakel, f. 1970. b) Einar geðlæknir, f. 28. febrúar 1953, býr í Garðabæ, kvæntur Huldu Jóhannesdóttur hjúkrunarfræðingi. Börn: Unnur Andrea, f. 1981, Jóhannes, f. 1984, Anna Guðrún, f. 1992 og Sólveig, f. 1995. c) Karólína iðnaðarverkfræðingur, f. 28. janúar 1955, býr í Garðabæ, gift Guðmundi Elíasi Níelssyni verkfræðingi. Börn: Elías Karl, f. 1990, Kristín, f. 1993 og Guðmundur Ásgeir, f. 1997. d) Guðmundur vélaverkfræðingur, f. 28. janúar 1955, býr í Garðabæ, kvæntur Ruth Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingi. Börn: Lilja Björk, f. 1983 og Stella Andrea, f. 1989. e) Guðlaug hjúkrunarfræðingur, f. 11. október 1956, býr á Álftanesi, gift Brynjólfi Sigurðssyni verktaka. Börn: Sigurður, f. 1982, Guðmundur Bjarki, f. 1985 og Stefán, f. 1990.

Seinni kona Guðmundar var Lilja Viktorsdóttir, f. 23. maí 1936, d. 11. apríl 1997. Foreldrar Lilju voru Friðmey Jónsdóttir og Viktor Björnsson. Dóttir Guðmundar og Lilju var Fríða barnalæknir, f. 4. september 1967, d. 20. desember 2001, gift Sævari Leifssyni húsasmíðameistara. Börn: Birta Rún, f. 1992, Viktor, f. 1995 og Leifur, f. 1996.

Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík fór Guðmundur til Bandaríkjanna og nam vélaverkfræði við Stevens Institute of Technology í New Jersey og útskrifaðist árið 1949. Guðmundur starfaði sem verkfræðingur í New York á Manhattan í 2 ár eftir nám, ma. við byggingu húss Sameinuðu þjóðanna og Port Authority Building í New York.

Eftir heimkomu árið 1951 vann hann hjá Almenna byggingafélaginu á Keflavíkurflugvelli, varð síðar yfirverkfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Sameinuðum verktökum til 1957 og verklegur framkvæmdastjóri hjá Íslenskum aðalverktökum 1957-1967. Þar bar hann ábyrgð á mörgum stærstu framkvæmdum landsins á þeim tíma eins og lagningu Keflavíkurvegarins, byggingu hafnar í Hvalfirði og ratsjárstöðva um allt land. Hinn 1. maí 1967 stofnaði hann Breiðholt hf. sem byggði 1100 íbúðir í Breiðholti og er það stærsta byggingarátak Íslandssögunnar. Nokkrum árum síðar stofnaði hann verktakafyrirtækið Aðalbraut hf og Verkfræðistofuna Gimli, sem hann rak til ársins 1995. Guðmundur rak einnig Bókaklúbbinn Birting um árabil, sem hann helgaði útgáfu bóka um andleg málefni. Fyrst eftir heimkomu frá Bandaríkjunum bjó fjölskyldan í Ytri Njarðvík og við Keflavíkurflugvöll, en flutti að Gimli v/Álftanesveg í Garðabæ árið 1960 og bjó Guðmundur þar þangað til hann flutti í Holtsbúð árið 2002. Guðmundur var forseti Sálarrannsóknarfélags Íslands í 30 ár og síðar heiðursfélagi, var einnig virkur í Nordisk Spiritual Foundation. Hann rannsakaði andleg málefni á breiðum grunni og út frá vísindalegri nálgun, bæði hér heima og erlendis. Guðmundur var virkur áhugamaður um framgang atvinnulífsins á breiðu sviði og tók þátt í mörgum verkefnum, nefndum og ráðum og sat í stjórnum félaga, s.s. Vinnuveitendasambandi Íslands, Stjórnunarfélags Íslands og var m.a. formaður og síðar heiðursfélagi í Verkfræðingafélagi Íslands. Hann var fenginn til ráðgjafar við ýmis verkefni og má þar m.a. nefna skákmeistaraeinvígi aldarinnar á milli Bobby Fischers og Boris Spassky árið 1972. Hann sat í hreppsnefnd Garðahrepps eitt kjörtímabil. Starfaði í Rótarýklúbbi Austurbæjar í áratugi. Guðmundur var einn af frumherjum í Hestamannafélaginu Sörla í Hafnarfirði.

Útför Guðmundar verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Jarðsett verður í kirkjugarðinum að Görðum á Garðaholti.

Ég kynntist Guðmundi Einarssyni haustið 1977 þegar ég fór að vera tíður gestur á heimili hans, Gimli. Guðmundur var merkur maður, einstaklega félagslyndur og sérlega góðhjartaður. Hann reyndist mér ákaflega góður tengdafaðir, kenndi mér ýmislegt sem ég hafði lítið leitt hugann að. Hann var eins og hafsjór um andleg málefni, það var ekkert honum óviðkomandi í þeim efnum.

Guðmundur var farsæll maður í starfi og einkalífi og eignaðist yndisleg börn, þó komu skuggar í lífi hans. Hann missti konu sína Unni Andreu í blóma lífsins, frá fimm ungum börnum. Hann hélt ótrauður áfram og hélt kærleiksríkt heimili á Gimli með dyggri aðstoð Guðlaugar tengdamóðir sinnar, móður sinni Karólínu og fleiru góðu fólki, því hann var mikið á ferðinni erlendis. Oft hef ég heyrt systkinin tala um hvað hann var frábær faðir. Ógleymanlegar eru þeim ferðir í Sundhöllina á hverjum sunnudegi og munaði ekki um að bæta við fleiri börnum úr hverfinu. Guðmundur unni hestamennsku og naut ég góðs af því, en hann átt mest um tuttugu hesta og var kappkostað að taka sem flesta gesti með í fjörlega reiðtúra.

Ég hef aldrei kynnst eins góðu og velviljuðu fólki og börnum Guðmundar og er það mikið að þakka hversu góð fyrirmynd faðir þeirra var. Það var oft mikið fjör á Gimli og gestir ætíð velkomnir, stórveislur Lilju og Guðmundar eru mér ógleymanlegar.

Á brúðkaupsdaginn minn endaði hann ræðu sína með því að minna okkur hjónin á að "hamingja er ákvörðun". Ég hef oft hugleitt þessi orð hans og er sannfærð að þau eru rétt.

Fyrir mörgum árum dvaldi ég á sjúkrahúsi í langan tíma eftir alvarlegt bílslys. Oft var tíminn lengi að líða og ég oft óttaslegin. Guðmundur kom til mín á hverjum degi og tók um iljarnar á mér með sínum traustu höndum, hélt takinu í dágóða stund og sagði hughreystandi orð við mig. Ég fann straum um fæturna, varð rólegri og fann styrk minn aukast, þessu beið ég eftir á hverjum degi. Þetta var mér ómetanlegt. Guðmundur sagði að við ættum aldrei að kalla okkur sjúklinga né öryrkja, ef við hugsum okkur heil þá upplifum við okkur heil.

Missir Lilju var honum mikið áfall. Fimm árum síðar var óbætanlegt skarð höggvið í fjölskylduna frá Gimli þegar sólargeislinn hans, Fríða, deyr frá þremur yndislegum börnum og manni sínum Sævari, aðeins 34 ára gömul.

Ætlun Guðmundar var að ferðast og sinna áhugamálum sínum á efri árum. Það hefur verið erfitt að horfa á þennan mikla mann glíma við hrakandi heilsu síðari árin og geta ekki tjáð sig vegna heilabilunar. Það eru blendnar tilfinningar að finna fyrir létti við fráfall hans, að sál hans sé nú frjáls og svo hinsvegar söknuðurinn við fráfall ástvinar.

Nú líður honum vel og tekst á við ný verkefni, en þegar hann var í essinu sínu hér áður fyrr var ekkert verkefni honum of stórt.

Ég votta börnunum hans Jóni, Einari, Guðmundi, Karólínu og Guðlaugu og systkinunum Jóhannesi og Guðrúnu og öðrum aðstandendum mína innilegustu samúð.

Guð blessi þig Guðmundur, takk fyrir allt.

Ruth Sigurðardóttir.

Tengdafaðir minn var enginn venjulegur maður. Lífshlaup hans var stórt í sniðum og langt utan og ofan allra þeirra vikmarka sem umlykja hugtakið meðalmennsku. Á það jafnt við um störf hans, áhugamál og einkalíf. Hann kom ótrúlega víða við, fékk miklu áorkað á viðburðaríkri ævi og sinnti efnislegum og andlegum hugðarefnum, sem snertu fjölmörg svið mannlegrar tilveru.

Að afloknu verkfræðinámi og störfum í Bandaríkjunum tók Guðmundur þátt í og veitti forystu mörgum helstu verkefnum á sviði mannvirkjagerðar hér á landi s.s. lagningu Keflavíkurvegar, uppbyggingu Breiðholts, byggingu ratsjárstöðva víða um land og fjölmargra annarra mannvirkja fyrir Varnarliðið. Mörg þessara verkefna voru stærri og flóknari úrlausnar en áður hafði þekkst hérlendis og kröfðust innleiðingar nýrrar hugsunar, tækni, stjórnunaraðferða og verkþekkingar.

Guðmundur var leiðtogi og höfðingi í eðli sínu, sem setti mark á samtíma sinn. Viðfangsefni sín tók hann ætíð föstum tökum og sinnti þeim af brennandi áhuga og elju. Honum var falinn trúnaður í smáu sem stóru og hann valdist til forystu í fjölmennum og framsæknum félögum síns tíma og rækti hann þau hlutverk með miklum sóma. Hann léði hverjum vettvangi sterka nærveru, sem einkenndist afhlýju, manngæsku og jákvæðni. Aldrei fór hanni í manngreinarálit né hallmælti nokkrum manni. Til hans leituðu háir sem lágir með vandamál af öllum stærðum og gerðum og segir kannski meira en mörg orð um mannkosti Guðmundar og það traust sem hann naut, hve margir leituðu til hans þegar sorg hafði knúið dyra eða öll sund virtust þeim lokuð. Veit ég, að fjölmargir minnast hans með þakklæti fyrir góð ráð og stuðning á erfiðum stundum í lífi sínu. Guðmundur mátti sjálfur reyna meira en margur annar. Hann missti báðar eiginkonur sínar fyrir aldur fram og einnig yngstu dóttur sína.

Ekki kæmi mér á óvart þótt flestir könnuðust við Guðmund vegna starfa hans á sviði sálarrannsókna, en þeim málum sinnti hann ótrauður um áratuga skeið. Leit hans að svarinu við spurningunni stóru fléttaðist saman við ráðgátur og staðreyndir varðandi fjölmörg efni, svo sem landnám og sögu Íslands, trúarbrögð og mannkynssögu, tilurð alheimsins, goðafræði og heimspeki, svo aðeins fátt eitt sé nefnt. Margir muna sjálfsagt eftir því, þegar Guðmundur hlutaðist til um, að miðill var fenginn til að segja fyrir um gufuöflun við Kröflu þegar í óefni stefndi varðandi þau mál. Þótti einhverjum ástæða til að gera grín að, en kjarklitlir og þröngsýnir menn hefðu sjálfsagt aldrei lagt nafn sitt við slíkar ráðagerðir.

Á Gimli, hið glæsilega heimili Guðmundar og Lilju, seinni konu hans, var ætíð gott að koma, hvort sem var hversdags eða til höfðinglegrar veislu. Þegar ég hugsa um þá veröld sem var sé ég tengdaföður minn fyrir mér við jólaborðið, mikinn á velli, að skera kalkúninn að alvöru húsbónda sið og spyrja hvern og einn með sinni hljómmiklu röddu: "Hvítt eða brúnt? Stöffing?" og einhverja viðstaddra síðan reyna sig við að herma eftir orginalnum. Fjölskyldan kveður ástkæran föður, tengdaföður, afa og frænda með virðingu og þakklæti fyrir alla þá jákvæðu arfleifð, sem hann skilur eftir í huga okkar allra.

Guðmundur Elías Níelsson.

Við stúdentar frá MR útskrifaðir vorið 1945 syrgjum látinn félaga. Hann var afburða námsmaður úr stærðfræðideild og lá því beint við hvert stefndi þegar að háskólanámi kom. Hann nam verkfræði í Bandaríkjunum og vann þar um tíma og kom síðan til Íslands.

Hann var í miklum metum sem afburða ráðgjafi og stjórnandi í hinum ýmsu deildum og ráðum innan verkfræðinnar, svo sem yfirverkfræðingur hjá Sameinuðum verktökum og framkvæmdastjóri Íslenskra aðalverktaka, fleira verður ekki rakið hér. Auk þess sinnti hann fjölda félags- og trúnaðarstarfa. Hann fékk viðurkenningar sem heiðursfélagi Sálarrannsóknafélagsins og Verkfræðingafélags Íslands og var lengi formaður þessara félaga.

Þrátt fyrir mikið annríki mætti hann alltaf þegar við skólafélagarnir komum saman meðan heilsan leyfði og var ávallt hress og kátur. Hann var hár maður, bjartur yfirlitum, viðræðugóður og góður félagi. Það var mikið áfall þegar hann missti konu sína, Unni frá fjórum efnilegum börnum og síðar seinni konu sína, Lilju og nokkru síðar dóttur þeirra Fríðu, sem þá var orðin læknir. Upp frá því missti hann heilsuna og barðist við heilsuleysi það sem eftir var ævinnar. Við sendum börnum hans og þeirra nánustu innilegar samúðarkveðjur og þökkum af heilum hug hve vel var um hann annast til hins síðasta.

Skólafélagarnir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.