Ásetningsmanndráp er talið sannað á Þórð Jóhann Eyþórsson Dæmdur í ævilangt fangelsi ÞÓRÐUR Jóhann Eyþórsson, 36 ára, var í gær dæmdur í ævilangt fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa af ásetningi orðið Ragnari Ólafssyni, 33 ára, að bana á...

Ásetningsmanndráp er talið sannað á Þórð Jóhann Eyþórsson Dæmdur í ævilangt fangelsi

ÞÓRÐUR Jóhann Eyþórsson, 36 ára, var í gær dæmdur í ævilangt fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa af ásetningi orðið Ragnari Ólafssyni, 33 ára, að bana á heimili þess síðarnefnda við Snorrabraut í Reykjavík aðfaranótt 22. ágúst.

Í niðurstöðum Sverris Einarssonar héraðsdómara segir að dómurinn telji sannað að þegar Þórður hafi tekið upp vasahníf á leið niður kjallaratröppur að íbúð Ragnars hafi myndast hjá honum ásetningur um að reka hnífinn í Ragnar. Þetta er annað ásetningsmanndrápið sem Þórður er dæmdur fyrir en hann varð manni að bana með hnífi á nýársnótt 1983 og var dæmdur fyrir það í 14 ára fangelsi í Hæstarétti. Hann fékk reynslulausn á helmingi refsitímans og var fjögurra ára skilorðstíma að verða lokið þegar hann varð Ragnari að bana.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu braut Þórður sér leið inn í íbúðina og inn í eldhús þar sem Ragnar var fyrir ásamt tveimur konum, sambýliskonu sinni og fyrrverandi sambýliskonu Þórðar. Þórður lagði til Ragnars áður en nokkur þeirra sem í íbúðinni var hafði áttað sig á því hvað gerst hafði eða séð hnífinn í hendi Þórðar. Hann kastaði síðan hnífnum frá sér, hljóp út og fór heim til fyrrum eiginkonu sinnar en gaf sig síðan fram á lögreglustöð eftir að hafa frétt af dauða Ragnars, sem var úrskurðaður látinn um klukkustund eftir atlöguna.

Ásetningur sannaður

Dómurinn hafnar þeirri skýringu Þórðar að hann hafi ekki ætlað að vinna Ragnari mein heldur telur sannað að Þórður hafi af ásetningi stungið Ragnar. Þetta fái stoð í þeirri lýsingu í krufningarskýrslu að stungan hafi verið upp á við, vitni hafi séð hönd Þórðar hreyfast þegar þeir Ragnar rákust saman og á skyrtu Ragnars hafi verið tennt gat, líkt og þrisvar eða fjórum sinnum hafi verið hjakkað í sama farinu. Vegna bráðaaðgerðar sem gerð var til að reyna að bjarga lífi Ragnars var ekki unnt að sjá eftir krufningu hve margar stungurnar voru.

Persónuleikatruflanir

Mat dómkvadds geðlæknis er að Þórður Jóhann sé sakhæfur. Hann hafi greind í meðallagi en beri merki persónuleikatruflana og yfirborðskennds og sjálfmiðaðs tilfinningalífs sem geri hann viðkvæman fyrir áreitni og gagnrýni. Skapgerðarbrestir sem vegi líklega þyngst varðandi nánasta aðdraganda verknaðarins hafi líklega aukist undanfarið vegna áfengis- og fíkniefnaneyslu, atvinnuleysis, stormasamra tilfinningasambanda og neikvæðs félagslegs umhverfis.

Þetta er í annað skipti sem undirréttur á Íslandi dæmir mann til ævilangrar fangelsisvistar. Sakborningur í Guðmundar- og Geirfinnsmáli var dæmdur í héraði í ævilangt fangelsi en hæstiréttur mildaði þann dóm í 17 ára fangelsi.