List Krosssaumur eftir Guðrúnu Bergsdóttur, frá fyrri sýningum Listar án landamæra.
List Krosssaumur eftir Guðrúnu Bergsdóttur, frá fyrri sýningum Listar án landamæra. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listahátíðin List án landamæra hefur verið opnuð í fjórða sinn, en dagskráin stendur til 16. maí.

Listahátíðin List án landamæra hefur verið opnuð í fjórða sinn, en dagskráin stendur til 16. maí. Á hátíðinni er leitast við að sameina ófatlaða og fatlaða listamenn og áhorfendur og nær hún til flestra listgreina, leiklistar, tónlistar, ljóðlistar, myndlistar. Dagskráin er svo umfangsmikil að ekki verður nánar farið í hana hér en bent á meðfylgjandi vefsíðu.

List samtímans er iðulega skipt niður í margar greinar, oft er skiptingin tilefni til vangaveltna. Í myndlistinni getur áhugafólki reynst flókið mál að greina á milli listar áhugafólks og atvinnumanna. Mörkin milli nytjalistar og listar án notagildis eru líka oft umdeild. Hér á landi hefur Níels Hafstein unnið áhugavert verk með samspili næfrar listar og samtímalistar.

List fatlaðra hefur oft verið listamönnum uppspretta en þó kannski án þess að þeir fái sjálfir að koma fram með sína list. Á tuttugustu öldinni kom fram liststefnan Art Brut sem byggðist á sköpunarkrafti listar geðfatlaðra. Trúin á hreinan og ómengaðan sköpunarkraft barna, geðfatlaðra og næfra listamanna var líka einn af grundvöllum listar súrrealistanna í upphafi síðustu aldar og kom fram síðar á öldinni t.d. í list Cobra-hópsins. Í flestum þessum tilfellum voru það þó listamenn sem nýttu sér sköpunarverk annarra við eigin sköpun.

Í dag er það heldur ekki óalgengt að listamenn líti til listar geðfatlaðra í sköpun sinni en nálgun samtímans er önnur en síðustu aldar. Þannig hafa austurrísku tvíburarnir Christine og Irene Hohenbuchler um áraraðir unnið list sína í samvinnu við geðfatlaða, fanga, börn og aðra jaðarhópa. Vinnuaðferð þeirra byggist á hreinni samvinnu þar sem höfundareinkenni mást út en þær skapa iðulega stórar innsetningar þar sem hver og einn fær að njóta sín en hópurinn sem heild er höfundur verksins. Þær hafa kynnt verk sín bæði á Tvíæringnum í Feneyjum og Dokumenta í Kassel og listsköpun þeirra einkennist af samblandi listar og nytjalistar með það að grundvallarmarkmiði að má út landamæri.

Árið 2000 voru Euward-verðlaunin stofnuð í Þýskalandi, með það í huga að skapa grundvöll fyrir list geðfatlaðra en þess má geta að markaðsáhugi er töluverður. Verðlaunin eru veitt í fjórða sinn í ár, og eru sérstaklega fyrir málverk og grafísk verk. Það er Augustinum Stiftung í München sem veitir þau og er miðað við listamenn innan Evrópu. Í dómnefndinni í ár eru þekktir listamenn, Marlene Dumas, Leiko Ikemura og Arnulf Rainer.

Eina af sýningum Listar án landamæra er að finna í Ráðhúsinu og er óhætt að mæla með heimsókn á hana, hér eru fjölbreytt myndverk og hönnun eftir ólíka listamenn. Miðað við hræringar í listheiminum og þau dæmi sem tekin voru hér að ofan gæti ég trúað að æ fleiri sýndu því áhuga að þurrka út landamæri á næstu árum, þessi hátíð er skref í þá átt.

Ragna Sigurðardóttir (ragnahoh@simnet.is)