4. maí 2007 | Viðskiptafréttir | 295 orð | 1 mynd

Byrja á föstudegi til fjár

Fjárfestingarbankinn Saga Capital tekur til starfa með 10 milljarða kr. eigið fé

Saga Framkvæmdastjórnin, f.v.: Ómar Sigtryggsson, Geir Gíslason, Hersir Sigurgeirsson, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, Rúnar Friðriksson og Helga Hlín Hákonardóttir. Örn Gunnarsson var ekki á staðnum.
Saga Framkvæmdastjórnin, f.v.: Ómar Sigtryggsson, Geir Gíslason, Hersir Sigurgeirsson, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, Rúnar Friðriksson og Helga Hlín Hákonardóttir. Örn Gunnarsson var ekki á staðnum. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
SAGA Capital fjárfestingarbanki tekur til starfa í dag. "Okkur þótti við hæfi að byrja á föstudegi til fjár," sagði Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri bankans, á blaðamannafundi í gær.
SAGA Capital fjárfestingarbanki tekur til starfa í dag. "Okkur þótti við hæfi að byrja á föstudegi til fjár," sagði Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri bankans, á blaðamannafundi í gær.

Lokuðu hlutafjárútboði, sem félagið efndi til í ársbyrjun, er lokið og er eigið fé Saga Capital nú 10 milljarðar króna – félagið er um það bil tvöfalt stærra en bæði MP fjárfestingarbanki og VBS.

Saga Capital fékk aðild að Nordic Exchange á Íslandi frá og með 30. apríl sl. og varð þar með fyrst til að hefja viðskipti á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði Nordic Exchange á Íslandi eftir sameininguna við OMX 2. apríl.

Bankinn hlaut í liðinni viku fullt fjárfestingarbankaleyfi Fjármálaeftirlitsins en í dag eru nákvæmlega sjö mánuðir síðan tilkynnt var um stofnun bankans.

Saga Capital er alþjóðlegur fjárfestingarbanki sem sérhæfir sig í fyrirtækjaráðgjöf, útlánum og verðbréfamiðlun. Bankinn stýrir að auki eigin fjárfestingum með virkri þátttöku á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum.

Höfuðstöðvar Saga Capital eru á Akureyri, skrifstofa er í Reykjavík og ætlunin að opna skrifstofu í Eystrasaltslöndunum fljótlega. Félagið var stofnað í október 2006 af nokkrum fyrrverandi starfsmönnum íslensku viðskiptabankanna og völdum fagfjárfestum, en lykilstjórnendur bankans störfuðu allir áður hjá íslensku viðskiptabönkunum. Fyrrum starfsmenn Kaupþings eru Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson forstjóri, dr. Hersir Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri áhættustýringar, Geir Gíslason, framkvæmdastjóri útlánasviðs, og Rúnar Friðriksson, framkvæmdastjóri eigin viðskipta. Fyrrum starfsmaður Glitnis er Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar, frá Straumi-Burðarási kom Helga Hlín Hákonardóttir hdl., framkvæmdastjóri lögfræðisviðs, og frá MP Fjárfestingarbanka kom Ómar Sigtryggsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta.

Þorvaldur Lúðvík sagði í gær að Saga Capital hefði fengið frábærar viðtökur á fjármálamarkaðinum "sem endurspeglast m.a. í því hversu hratt og vel hlutafjárútboðið okkar gekk". Stærstu hluthafarnir eiga á bilinu 8–12%. Þorvaldur er stærsti hluthafinn með 12%, Standhóll og Sundagarðar 11% hvort félag, Hildingur, dótturfélag KEA, 10%, Sparisjóður Mýrasýslu 6% og Sparisjóður Norðlendinga 5%.

www.sagacapital.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.