Rannsókn í Bretlandi á áhrifum tölvuleikja Börnin líkja eftir ofbeldisatriðum London. The Daily Telegraph. BÖRN, sem stunda tölvuleiki mikið, viðurkenna sjálf, að þau verði háð þeim og stundum reyni þau að líkja eftir ofbeldisatriðunum í leikjunum.

Rannsókn í Bretlandi á áhrifum tölvuleikja Börnin líkja eftir ofbeldisatriðum London. The Daily Telegraph.

BÖRN, sem stunda tölvuleiki mikið, viðurkenna sjálf, að þau verði háð þeim og stundum reyni þau að líkja eftir ofbeldisatriðunum í leikjunum. Kemur þetta fram við rannsókn á vegum Aston-háskólans í Bretlandi. Aðeins þrjú prósent foreldra setja börnum sínum einhverjar reglur hvað varðar tölvuleiki þótt miklu fleiri takmarki sjónvarpsgláp þeirra. Þeir, sem stóðu að rannsókninni, telja sig þó ekki geta fullyrt, að tölvuleikirnir hafi langtímaáhrif og valdi ofbeldisfullri hegðun síðar meir.

"Umhyggjusamir foreldrar leyfa ekki börnum sínum að horfa á hvað sem er í sjónvarpinu og þeir ættu einnig að fylgjast grannt með tölvuleikjunum," segir Guy Cumberbatch prófessor, sem stjórnaði rannsókninni en hún var á meðal 150 barna á aldrinum sjö til 16 ára. 72% þeirra sögðu, að þau hefðu misst stjórn á skapi sínu yfir tölvuleik og 40% sögðust reiðast oftar í leiknum en þegar þau væru eitthvað annað að sýsla.

Alið á ofbeldi

Sum barnanna lýstu blóði drifnum atriðum í tölvuleikjum af mikilli innlifun og þau kunnu að telja upp mesta fjölda af hættulegum vopnum. Um 58% barnanna sögðust telja, að tölvuleikir gætu gert fólk ofbeldisfyllra og tæpur fjórðungur barnanna undir 12 ára taldi það eiga við um sig.

Samt sem áður virðast sleppa flest börn skaðlaust frá tölvuleikjunum. Íþróttir eru þeirra aðaláhugamál en 30% kváðu tölvuleikina vera þeirra helsta tómstundagaman og 15% höfðu lagt önnur áhugamál á hilluna þeirra vegna.