10. maí 2007 | Íþróttir | 289 orð | 1 mynd

Teitur Örlygsson er búinn að semja við Njarðvíkinga til tveggja ára

Teitur Örlygsson
Teitur Örlygsson
Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is TEITUR Örlygsson hefur verið ráðinn þjálfari úrvalsdeildarliðs Njarðvíkinga í körfuknattleik í stað Einars Árna Jóhannssonar. Teit þarf vart að kynna fyrir körfuboltaáhugafólki.
Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

TEITUR Örlygsson hefur verið ráðinn þjálfari úrvalsdeildarliðs Njarðvíkinga í körfuknattleik í stað Einars Árna Jóhannssonar. Teit þarf vart að kynna fyrir körfuboltaáhugafólki. Hann er einn besti körfuknattleiksmaðurinn sem Ísland hefur alið og er um leið einn fræknasti leikmaðurinn sem spilað hefur með Njarðvík en Teitur varð tíu sinnum Íslandsmeistari með liðinu á sínum ferli.

,,Maður getur ekki slitið sig frá þessu. Ég veit svo sem alveg hverjar kröfurnar eru hjá þessu liði og það breytist ekkert. Ég hef fengið góðar undirtektir hér í bænum eftir að þetta spurðist út og hlakka óskaplega mikið til að hefja störf," sagði Teitur í samtali við Morgunblaðið í gær en hann hefur handsalað tveggja ára samning við Suðurnesjaliðið, sem tapaði í úrslitarimmunni fyrir KR-ingum um Íslandsmeistaratitilinn á dögunum.

Þetta verður frumraun Teits sem þjálfari hjá meistaraflokki en hann var Friðriki Ragnarssyni innan handar hjá Njarðvíkingum tímabilið 2000-01 þegar Njarðvíkingar urðu Íslandsmeistarar. ,,Ég var ráðinn þjálfari ásamt Friðriki en þetta þróaðist út í að ég spilaði svo mikið að Frikki sá um þetta að mestu. Ég tel mig vel færan um að taka starfið að mér. Ég hef mikla reynslu sem leikmaður og svo hef ég fylgst vel með eftir að ég hætti að spila.

Teitur segir að einhverjar breytingar verði á leikmannahópnum en kjarninn verði sá sami. Halldór Karlsson og Ragnar Ragnarsson hafa lagt skóna á hilluna og Jeb Ivey mun ekki leika áfram með liðinu en menn á borð við Friðrik Stefánsson og Brenton Birmingham verða áfram með liðinu að sögn Teits. ,,Ég er ekkert farinn að hugsa út í hvernig Bandaríkjamann ég tek. Það verða fjórir hjá okkur með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum og þrír í unglingalandsliðinu þannig að ég fæ þá í fínu formi þegar æfingarnar hefjast.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.