11. maí 2007 | Minningargreinar | 1225 orð | 1 mynd

Guðrún Jónasdóttir

Guðrún Jónasdóttir fæddist í Öxney á Breiðafirði 24. júní 1914. Hún lést á St. Franciskusspítala í Stykkishólmi 4. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Elín Guðmundsdóttir frá Munaðarhóli í Neshreppi utan Ennis, f. 27. des. 1886, d. 27. júlí 1928 og Jónas Jóhannsson í Öxney, f. 21. júlí 1891, d. 1. jan. 1970. Systkini Guðrúnar eru Jóhann, f. 1912, d. 2005, Sigurlaug, f. 1913, d. 2005, Leifur, f. 1915, d. 1959, Kristín, f. 1916, María, f. 1917, d. 1969, Sjöfn, f. 1919, d. 1990, Sigríður, f. 1921, d. 1928, Lilja, f. 1923, d. 1971, Hildur, f. 1924, Katrín, f. 1926, d. 1978, og stúlka andvana fædd 1928. Hálfsystir samfeðra er Elín, f. 1945.

Sambýlismaður Guðrúnar var Jóhann Magnús Hallgrímsson frá Ytri- Sólheimum í Mýrdal, f. 23. sept. 1911, d. 1. jan. 1982. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru 1) Hreinn, f. 1937, maki Geirþrúður Kjartansdóttir, f. 1935. Börn þeirra eru Kjartan, f. 1958, Guðrún, f. 1961, og Sturla Jóhann, f. 1971. 2) Sigríður, f. 1943, maki Björgvin Hermannsson, f. 1938, þau slitu samvistum. Sonur þeirra er Hermann, f. 1964. Sambýlismaður Sigríðar er Reynir Vilhjálmsson, f. 1934. 3) Brynja, f. 1947, maki Þorvaldur Ólafsson, f. 1944. Börn þeirra eru Þorbjörg, f. 1970, Þorgerður, f. 1972 og Gunnar, f. 1979. Barnabarnabörn Guðrúnar eru 15.

16 ára gömul fór Guðrún að heiman og vann ýmis störf. Tvítug að aldri stundaði hún nám við Kvennaskólann á Blönduósi, en að því loknu réðst hún matráðskona að Ljósafossvirkjun þar sem hún kynntist Jóhanni. Þau bjuggu fyrst í Reykjavík en fluttu árið 1947 í Garðahrepp. Eftir að þau slitu samvistum vann Guðrún víða sem matráðskona, m.a. í Samvinnuskólanum á Bifröst, á Söltunarstöð Óskars Halldórssonar á Raufarhöfn og í Hraðfrystihúsi Keflavíkur. Um 1970 settist Guðrún að í Stykkishólmi þar sem hún sinnti ýmsum störfum til sjós og lands meðan kraftar entust.

Útför Guðrúnar verður gerð frá Stykkishólmskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

"Minn tími er vorið" var viðkvæði Guðrúnar tengdamóður minnar sem látin er í hárri elli, þrotin að kröftum og södd langra lífdaga. Hún fór því með fallinu að vanda þeirra sem ólust upp við áratök í stríðum straumum milli eyja í mynni Hvammsfjarðar. Langt fram yfir áttrætt stýrði hún báti sínum Gelti snemma vors úr Stykkishólmi inn í Galtarey, þar sem hún reisti sína höll sumarlandsins fyrir 38 árum, um það leyti sem ég fór á fjörurnar við yngri dóttur hennar. Hæfilega einráð drottning í eyríki sínu naut hún þess að sjá hina lifandi náttúru vakna af vetrarsvefni, hlustaði á fuglana syngja og grösin gróa, hlúði að hreiðri og blómi, sáði og setti niður í garðinn sinn.

Niðjar Guðrúnar og aðrir svo lánsamir að tengjast henni fjölskylduböndum áttu í Galtarey griðastað frá erli þéttbýlisins. Þar kynntust barnabörnin og barnabarnabörnin eyjalífi og ýmsum fornum búskaparháttum og lærðu af ömmu sinni og langömmu margt það sem verður ekki numið í skóla. Námsgögnin í Galtarey voru bæði utan húss og innan, því að kennarinn klæddi innveggi með mosa, skeljum og öðrum hnýsilegum gripum af sjávarbotni, en gluggakappinn í eldhúsinu var þarablaðka.

Þótt skólaganga Guðrúnar yrði ekki löng, gerði uppvöxturinn í Öxney, ásamt skarpri athyglis- og ályktunargáfu, hana fluglæsa á náttúruna. Þegar Hólmurum var boruð hola eftir heitu vatni með ágætum árangri, var það nokkurn veginn á þeim stað þar sem Guðrún sagði mér áður að hyggilegast myndi að bora. Þegar maður nokkur hugðist efna til bókar um skrímsli á Íslandi, fól hann Guðrúnu að draga upp trúverðuga mynd af fjörulalla. Veturinn 1934–35 braust Guðrún til mennta í Kvennaskólanum á Blönduósi og var þar í hópi námsmeyja sem skólastjórinn, Hulda Á. Stefánsdóttir, segir í endurminningum sínum hafa verið óvenju samstilltan. Þar lék Guðrún í skólaleiknum "Upp til selja" sem sýndur var 4 sinnum á Blönduósi fyrir fullu húsi. Hún minntist Kvennaskólans jafnan með þakklátri eftirsjá, og víst er að námið, bóklegt sem verklegt, nýttist henni vel á lífsleiðinni.

Hulda lagði ríka áherslu á að námsmeyjarnar lærðu að vefa. En Guðrún hafði ekki tíma til þess að sitja við vefstól næstu áratugina. Samt vafðist ekki fyrir henni hálfsjötugri að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið, hún fékk sér vefstól, setti hjálparlaust fyrstu uppistöðuna í vefinn og tók að vefa myndræn veggteppi. Myndefnið fann hún m.a. í sálufélögum sínum, svo sem Látra-Björgu, Sigurði Breiðfjörð og Sigyn með skálina yfir Loka. En frumleg listhneigð Guðrúnar fann sér fleiri farvegi. Bláskel og blöðruþang urðu í höndum hennar að bísperrtum – en brothættum – frímúrara í kjólfötum!

Hve gott er að hvíla sig rótt,

eins og lokið sé leið,

þótt langur og eilífur gangur

bíði manns enn

orti Steinn Steinarr. Ef nokkuð er hæft í þeim átrúnaði, að hér sé ekki komið að leiðarlokum, þá sé ég í anda tengdamóður mína stýra Gelti inn í Galtarey. Hún fer Þröskulda milli Brokeyjar og Öxneyjar og stýrir fumlaust fram hjá öllum skerjum. Það er vor í lofti, því að hennar tími var vorið.

Þorvaldur Ólafsson.

Mín elskulega amma kvaddi þennan heim í sátt. Hún hafði verið dugnaðarforkur allt sitt líf og mátti aldrei neitt aumt sjá. Hennar verðmæti voru ekki metin í peningum heldur mannúð og skilningi og umhyggju fyrir lítilmagnanum í samfélaginu. Hún kenndi mér að meta náttúruna og fegurð hennar og gaf mér innsýn í gamla heima sem mér hefði aldrei boðist annars. Ég var með henni í Breiðafjarðareyjum sem barn og hefur það verið mér hugleikið alla ævi.

Í tilefni andláts hennar og ósk um hinstu hvílu í Galtarey varð til þessi vísa:

Nú hvílir þú í hvanngrænum mosa

svo himinhvelfingar við þér brosa.

Veraldar fuglar vorljóð þér syngi,

og vonglöð kollan verpir í lyngi.

Hér er þinn heimur og hamingja falin

og hinsta hvílan var löngu útvalin.

Við natinna verka njótum þinna

og nálægð okkar þú átt að finna.

Öll við þig mikils mátum

og margt af þér lærðum meðan við gátum.

Nú Guðrún í Galtarey sefur

og ilmgrasið hana umvefur.

Hún hvílir í skjóli

á heimsins besta bóli.

Hjá bláklukku við Breiðafjörð

þig baðar sól við grænan svörð.

Ég er þakklát fyrir þann tíma sem ég átti með Guðrúnu í Galtarey. Hvíli hún í friði og sátt.

Guðrún Hreinsdóttir.

Elsku amma, nú ert þú farin.

Þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Þú reyndist mér alltaf vel, varst svo skilningsrík og góð, fræddir mig um svo margt. Eyjalífið eins og þú lifðir frá blautri barnæsku, um það hvernig börn byrjuðu að vinna frá sex ára aldri sem ekki þekkist í dag. Alla tíð hefur þú unnið sem hetja til sjós og lands.

Þegar þú fórst að eldast þá vannst þú á veturna og naust þess að vera í Galtarey á sumrin, þar áttum við margar góðar stundir. Ég man svo vel þegar þú varst að klæða skálann að innan með skeljum. Þegar ég reri á Kóna á voginum í Galtarey, báturinn hálffullur af sjó, þá hafði ég ekki áhyggjur því ég vissi að þú varst að fylgjast með mér, ég átti bara að passa mig á straumunum.

Þegar Göltur, báturinn þinn, bilaði gafst þú ekki upp. þú talaðir bara við hann. Við komumst einu sinni í hann krappan á sjónum, það var ótrúlegt hvað þú varst róleg, nikkaðir til mín og þá vissi ég að allt var í lagi. Það var svo gott að vera í návist þinni, alltaf ró og friður.

Ég veit að Guð finnur góðan stað fyrir þig, því hann þarf á góðri hetju að halda.

Hermann Björgvinsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.