Helgi Tómasson "Já, þetta er mikið streitustarf en ég nýt mín vel undir álagi. Kannski fylgir það þessum eiginleika mínum að vilja taka áhættu. Þetta gengur vel og ég ætla að halda áfram að reka ballettinn með sama hætti."
Helgi Tómasson "Já, þetta er mikið streitustarf en ég nýt mín vel undir álagi. Kannski fylgir það þessum eiginleika mínum að vilja taka áhættu. Þetta gengur vel og ég ætla að halda áfram að reka ballettinn með sama hætti." — Ljósmynd/Erik Tomasson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tíu ára strákur í Vestmannaeyjum sér ballettsýningu og hrífst með, skráir sig í listdansskóla Þjóðleikhússins ásamt 200 stelpum og var strítt fyrir að vilja gerast ballettdansari, gerist dansari í Kaupmannahöfn, nemur við School of American Ballet í New...

Tíu ára strákur í Vestmannaeyjum sér ballettsýningu og hrífst með, skráir sig í listdansskóla Þjóðleikhússins ásamt 200 stelpum og var strítt fyrir að vilja gerast ballettdansari, gerist dansari í Kaupmannahöfn, nemur við School of American Ballet í New York, hlýtur annað sætið í alþjóðlegri danskeppni í Moskvu á eftir Mikhail Baryshnikov, er ráðinn aðaldansari við New York City ballettinn og er þar í fimmtán ár og er nú listrænn stjórnandi San Francisco ballettsins. Ferill Helga Tómassonar er ævintýri líkastur.

Eftir Jón Ármann Steinsson

jon@steinsson.com

Það er ekki auðvelt að ná tali af Helga Tómassyni. Með Íslandsferð á döfinni og vetrardagskrá ballettsins að renna sitt skeið á enda þá er hver mínúta skipulögð og lítið svigrúm til breytinga. Eftir mörg símtöl er ég orðinn vel málkunnugur Reginu, aðstoðarkonu Helga, þegar glufa opnast í dagskrá Helga.

"Viltu koma í fyrramálið klukkan ellefu í 45 mínútur?" spyr Regina. "Eða á laugardaginn í 75 mínútur?"

Ég vel laugardaginn því mig munar um þennan auka hálftíma.

Daginn eftir flýg ég til San Francisco yfir hálfa Kaliforníu til að verja 75 mínútum með Helga Tómassyni. Ég brenn í skinninu að komast að því hvernig tíu ára strákur úr Reykjavík eftirstríðsáranna náði að verða einn af mestu ballettdönsurum heimsins, og síðan liststjórnandi sem mótaði einn virtasta ballettflokk í heimi.

Sjötíu og fimm mínútur er ekki langur tími til að reifa heila mannsævi en þær verða að duga...

San Francisco

Ballettflokkurinn er til húsa í hjarta San Francisco. Handan við götuna er The War Memorial Opera House þar sem ballettflokkurinn sýnir Don Quixote um þessar mundir. Í garðinum bak við óperuna kjamsa hvítur hestur og mórauður asni hvor á sinni grastuggu meðan starfsmaður ballettsins kembir þá fyrir sýningu kvöldsins. Þetta eru gæðingurinn Rocinante og asninn hans Sancho Panza. Lifandi leikmunir.

Helgi Tómasson mætir mér brosandi í anddyri balletthússins. Við höfum rétt heilsast þegar mér verður litið á klukkuna. Helgi horfir á mig með spurnarsvip: "Ertu nokkuð tímabundinn?"

Ég muldra eitthvað um þennan klukkutíma sem við höfum fyrir viðtalið og að ég vilji nota tímann vel. "Svona, svona. Við spjöllum þá bara aðeins lengur," segir hann og opnar skrifstofuna sína. Helgi er greinilega ekki eins nákvæmur á stundatöfluna sína og aðstoðarkona hans.

Við ræðum um starf Helga og skipulagið sem þarf til að stjórna einum merkasta ballettflokki heims, velja honum verkefni, fylgjast með æfingum og vera viðstaddur sýningar. "Já, þetta er langur vinnudagur. Reyndar finnst mér starfið mitt ekki vera vinna. Það er alltof skemmtilegt til að hægt sé að kalla það vinnu. Ég byrja daginn snemma og kem heim seint á kvöldin."

En hvað er skemmtilegast í þessu fjölbreytta starfi? Að dansa, vera danshöfundur eða liststjórnandi? "Þessi hlutverk eru öll mjög ólík þó þau séu hluti af sömu listgrein. Dansinn var byrjunin og ef mér hefði ekki þótt gaman að dansi þá hefði ég ekki komist langt í þeim geira. Það sem maður tekur sér fyrir hendur verður að vera gaman. Ég á margar góðar minningar frá þeim tíma sem ég dansaði. Það er stórkostleg tilfinning að dansa fyrir fullu húsi. Enska ortakið "it's a high" nær því best. Ef þú ert ánægður með hvernig þér tekst til og finnur hvernig áhorfendur hrífast með þér, þá er það ólýsanleg tilfinning. Nú er ég að semja ballett og það er gjörólíkt því að dansa sjálfur. Þegar ég dansaði þá átti ég það augnablik í tilverunni meðan dansinn varaði. Síðan er sú stund liðin og er aðeins til í minningunni. Sem danshöfundur get ég séð minn eigin ballett á sviði í kvöld og svo aftur eftir nokkra mánuði eða ár. Þá er það allt önnur tilfinning."

Út í heim

Yrkisefni klassískra balletta byggist á lögmálum ævintýra. Lítilmagninn yfirgefur heimkynni sín með nesti og nýja skó, leysir þrautir og eignast hálft konungsríkið og prinsessuna í lokin. Að mörgu leyti hefur líf Helga sjálfs verið eins og ævintýri sem byrjaði þegar Helgi sá ballett í fyrsta skipti. Hann var fimm ára að aldri þegar Konunglegi danski ballettinn hélt sýningu í Vestmannaeyjum.

"Mamma mín fór og kom heim í hléinu og sótti mig. Hún hélt ég hefði gaman af þessu enda mikið að gerast á sviðinu. Hún sagði mér seinna að eftir þetta, þegar það var tónlist í útvarpinu, þá var ég stökkvandi og dansandi. Nokkrum árum seinna, þegar við fluttum til Reykjavíkur, fór ég í listdansskóla Þjóðleikhússins sem Bidsted-hjónin ráku. Tíu ára gamall fór ég með þeim til Danmerkur og lærði að tala "fuldkommen dansk" og sem táningur dansaði ég í Tívolí-garðinum en þar var Erik Bidsted ballettmeistari og Lisa dansari.

Árin sem Helgi dansaði með Pantomime-ballettflokknum í Tívolí áttu eftir að hafa áhrif á allan hans feril. "Ég var 15 ára og sá aðra dansara á mínu reki. Þá vaknaði í mér samkeppnin og ég uppgötvaði að ég var ekki sem verstur," segir Helgi og brosir. "Ég var jafngóður dansari og þeir og stundum betri. Ég man að ég upplifði einhvers konar "vá, ég get þetta" tilfinningu og ég hef trúað því alveg frá því ég var táningur að ég ætti eftir að komast langt í þessari listgrein. Ég vissi ekki hvernig – hafði ekki hugmynd um af hverju mér væri ætlað þetta lífshlutverk. Ég hefði aldrei getað planlagt mitt líf eins og það gekk eftir. Að fara til Danmerkur og dansa í Tívolí, hitta Jerome Robbins í Reykjavík árið 1959 og síðan George Balanchine, eða keppa í Moskvu árið 1969. Ég ákvað ekkert af þessu fyrirfram og hefði ekki getað planlagt þetta svona. Þessi tækifæri komu til mín. Forsjónin sá um það. Mér hefur alltaf fundist að einhver leiðbeini mér hvert ég á að fara og hvaða ákvarðanir ég á að taka. Það er eins og einhver líti eftir mér."

Jerome Robbins útvegaði Helga námsstyrk til að læra við School of American Ballet í New York. Robbins og Balanchine voru stærstu nöfnin í ballettheiminum á þessum tíma. Þeir hófu báðir feril sinn sem dansarar og urðu virtustu danshöfundar í bandarískum ballett. Báðir voru örlagavaldar í lífi Helga og sömdu dansa sérstaklega fyrir hann. Helgi segir að hann eigi þeim báðum mikið að þakka og reyndar fleirum sem ekki eru eins þekktir.

"Þegar ég byrjaði nám hjá Balanchine kynntist ég Stanley Williams, dönskum ballettkennara sem varð minn "mentor" og hjálpaði mér að fínpússa hreyfingarnar svo þær urðu betri. Stanley hafði dansað á sviðinu í Vestmannaeyjum forðum, á fyrstu sýningunni sem ég sá. Svona er þetta lítill heimur. Stanley reyndist mér vel og var góður vinur okkar hjónanna. Annar danskur ballettdansari, Erik Bruhn, gaf mér bestu ráðleggingu sem nokkur gat gefið ungum manni á tímamótum. Hann sagði mér að fara til Bandaríkjanna því þar væru möguleikarnir. Erik skrifaði fyrir mig kynningarbréf og útvegaði mér sambönd. Hann gaf mér eitt heilræði sem ég hef lifað eftir: "Taktu áhættu. Engin áhætta, enginn ávinningur." Það hef ég gert bæði sem dansari, danshöfundur og liststjórnandi. Þó sérstaklega sem stjórnandi."

Silfrið og Svanavatnið

Helgi var með Harkness-ballettflokknum í New York þegar frú Harkness fékk þá hugmynd að senda hann til Moskvu, í alþjóðlega danskeppni þar. Íslendingurinn Helgi Tómasson var fulltrúi Bandaríkjanna og valið var að dansa þau verk sem hann þekkti best; dansa eftir Robbins og Balanchine.

"Við fengum keppnisreglurnar frá Sovéska sendiráðinu og það mátti skilja þær á tvo vegu hvað varðaði verkefnaval fyrir sólódansara. Þegar ég skráði mig inn í sjálfa keppnina þurfti ég að tilkynna hvaða verk ég myndi dansa ef ég kæmist áfram. Ég hafði skilið reglurnar þannig að ég mætti endurtaka dans en svo var víst ekki. Sá sem skráði mig inn skrifaði niður hvað ég ætlaði að dansa í hverjum riðli, kæmist ég áfram. Honum fannst ekki mikið til þessara nútímalegu verka koma og þekkti ekkert þeirra en öll voru þau eftir Balanchine og Robbins. Að lokum spurði hann hvað ég myndi dansa ef ég kæmist í úrslit. Þó ég skildi ekki rússnesku þá fann ég að þessi maður var svo sannfærður um að ég félli úr keppni í fyrstu umferð og að svarið væri því algjört aukaatriði. Þegar ég fann þetta viðmót þá vaknaði það sem ég kalla mín íslenska þrjóska. Fyrst þessi maður var svona sannfærður um að ég kæmist ekki áfram í keppninni, þá var ég staðráðinn í að standa mig.

Ég komst áfram í næsta riðil og uppgötvaði svo að ég hafði jafnvel möguleika á að ná verðlaunasæti. Við skoðuðum reglurnar aftur og sáum að ég þyrfti annað sóló en þessi sem ég hafði valið í fyrstu. Marlene, konan mín, var með mér og það var hennar hugmynd að ég dansaði hefðbundið verk; sóló úr Svanavatninu sem vinur okkar Erik Bruhn hafði oft dansað. Svarti svanurinn.

Það voru Danir frá Konunglega ballettinum á hótelinu okkar og ég spurði hvort einhver þeirra þekkti þennan sólódans og gæti kennt mér. Jú, það var auðsótt mál og ég lærði dansinn þarna við morgunverðarborðið á hótelinu. Þá vantaði mig bara rétta búninginn og túlkurinn minn fór á stúfana og fékk aðgang að búningasafni Bolshoj-leikhússins. Þar uppi á lofti á efstu hillu voru svartir búningar af öllum stærðum og gerðum og ég mátaði uns ég fann einn sem passaði. Sá var merktur einum af frægu rússnesku dönsurunum sem mér fannst skemmtilegt að vita eftir á. Áhorfendur þekktu náttúrlega Svanavatnið en fram að þessu hafði ég dansað verk sem þeir þekktu ekki. Það hjálpaði vissulega og ég vann silfurverðlaunin."

Helgi setur hönd undir kinn og þagnar. Eflaust hefur hann sagt þessa sögu oft og hugleitt hvaða þýðingu þessi verðlaun höfðu fyrir feril hans sem dansari. Verðlaunasæti í alþjóðlegri ballettkeppni var nokkuð sem enginn hafði búist við af Íslendingi – allra síst þessi tíu ára strákur sem skráði sig í listdansskóla Þjóðleikhússins ásamt 200 stelpum og var strítt fyrir að vilja gerast ballettdansari. Silfurverðlaun Helga voru vissulega verðskulduð viðurkenning en þess má geta að sá sem vann gullið var enginn annar en Mikhail Baryshnikov.

Þú dansar aldrei framar

Árið eftir var Helgi fastráðinn við New York City ballettinn og var einn af aðaldönsurum hans næstu 15 árin. Bæði Robbins og Balanchine sömdu dansa sérstaklega fyrir Helga og hann var talinn einn fremsti dansari sinnar kynslóðar. Lífið brosti vissulega við honum og Marlene sem höfðu eignast tvo syni og stofnað heimili í New Jersey.

"Ég var að dansa Le Baiser de la Fée sem Balanchine hafði samið fyrir mig við tónlist eftir Stravinski – oft talið besta sólóverk sem hann hefur samið fyrir karldansara. Í lok sýningarinnar þá brast eitthvað í bakinu á mér. Ég skil ekki hvernig ég gat haldið áfram en ég kláraði atriðið. Reyndar man ég ekki einu sinni eftir þessum síðustu mínútum né heldur hvernig ég fór að því að keyra heim eftir sýninguna. Næsta dag gat ég ekki hreyft mig.

Aðstoðarmaður Balanchine átti skutbíl og mér var rennt inn um afturhlerann og keyrður á Roosevelt-spítalann. Þar var ég settur í teygjuvél og læknirinn, sem skoðaði mig, fullyrti að ég myndi aldrei dansa framar. Þá kom upp í mér íslenska þrjóskan og ég sagði við hann að ég skyldi sanna að hann hefði rangt fyrir sér.

Þetta var í janúar 1976. Tíu dögum seinna gekk ég út af spítalanum og heilsaði upp á vinnufélagana þá um kvöldið. Næstu þrjár vikur var ég í teygjuvél heima en í júlímánuði var ég aftur kominn á sviðið og dansaði í 9 ár eftir það. En mér var alltaf illt í bakinu þegar ég dansaði og stundum finn ég til þegar ég gleymi mér við að kenna.

Það er sem sagt sannað mál að íslenska þrjóskan hafði betur og læknirinn hafði rangt fyrir sér."

Að vera Íslendingur

"Ég fæ ekki oft tækifæri til að tala íslensku. Enskan er allsráðandi en ég reyni að hringja sem oftast heim og spjalla. Ég er stoltur af því að vera Íslendingur og ég er alltaf að segja kollegum mínum hér hvað Ísland sé sérstakt. Ég spyr þá hvort þeir viti um 300.000 manna samfélag eða borg í Bandaríkjunum sem sé með eigin sinfóníu, óperu, dansflokk, mörg leikhús, fyrsta flokks rithöfunda og listmálara, skákmeistara. Þessi stutta upptalning sýnir hvað við Íslendingar erum merkileg þjóð og hvað við höfum náð langt.

Helgi sýnir mér litprentað antik Íslandskort í ramma uppi á vegg. Landvættir og sæskrímsli verja land og strönd fyrir ósýnilegum óvinum. Við leitum saman að útgáfuárinu og finnum það; 1585 Anno Domini. Sem er um svipað leyti og Don Quixote var fyrst gefinn út á Spáni, þ.e. bókin sem samnefndur ballett er byggður á. Ég missi út úr mér við Helga að ég hafi aldrei á ævinni séð ballett. Kann samt ekki við að viðurkenna að ég hafi reyndar ekki mikinn áhuga. Vil ekki virka ódannaður ofan á þekkingarleysið.

"Hvað segirðu, hefurðu aldrei séð ballet? Þetta er ekki hægt, maður. Þú verður að sjá Don Quixote ."

Helgi grípur símann og hringir í Reginu.

"Geturðu bjargað miða fyrir Jón? Hann hefur aldrei séð ballett."

Meðan Helgi er í símanum verður mér litið á völustein á skrifborðinu hans með áletruninni: "Nothing is written in stone" og þrátt fyrir að löngu sé uppselt á sýninguna þá tekst Reginu að töfra fram miða.

Talið berst að Íslandsferð og Listahátíð í Reykjavík. "Ég var beðinn um að koma með flokkinn til Íslands í sumar og að verkefnaskráin yrði eingöngu verk eftir mig. Það gladdi mig mikið að vera beðinn um það og mér finnst það mikil viðurkenning. Yfirleitt blanda ég verkum saman og hef kannski eitt og eitt eftir sjálfan mig með. Þetta er í fyrsta skipti sem ég set saman dagskrá með eingöngu mínum verkum."

Þó ég sé enginn sérfræðingur um ballett þá vissi ég að það er mjög sjaldgæft að dansarar nái árangri sem danshöfundar og jafnframt sem listrænir stjórnendur. Það er svipað og með leikara sem bæði skrifa og leikstýra. En Helgi er einn af fáum dönsurum sem hafa bæði gerst danshöfundar og stjórnað listdansflokk og farist allt þrennt einstaklega vel úr hendi.

Tomasson 2005

Hvað um álagið sem fylgir því að reka ballettflokk, kenna ballett, semja ballett og velja ballettverk fyrir áhorfendur sem gera miklar kröfur og eiga stundum til að vera miskunnarlausir gagnrýnendur? "Já, þetta er mikið streitustarf en ég nýt mín vel undir álagi. Kannski fylgir það þessum eiginleika mínum að vilja taka áhættu. Þetta gengur vel og ég ætla að halda áfram að reka ballettinn með sama hætti. Ég plana aldrei langt fram í tímann. Maður tekur ákvarðanir út frá ástríðu og ballettflokkur þarf ástríðu til að njóta sín. Dansarar þurfa ástríðu. Dansferillinn er svo stuttur að það er um að gera að fá sem mest út úr hverju augnabliki."

Helgi tekur sér sjaldan frí þannig að það er lítill tími til tómstunda. Reyndar á hann sér tvær ástríður fyrir utan dansinn: "Við hjónin keyptum okkur hús í Napa-dalnum fyrir nokkrum árum og þar var smá vínviðarskiki sem fylgdi. Ég byrjaði að framleiða vín sem hobbí og bauð gestum og er núna að undirbúa Tomasson 2005 framleiðsluna. Þetta er Cabernet Sauvignon á tunnum og ég set það á flöskur í sumar.

Svo finnst mér gaman að veiða en ég hef ekki haft tækifæri til þess lengi. Stundum komst ég í laxveiði á Íslandi hér áður fyrr en það er orðið langt síðan síðast af því ég kemst svo sjaldan heim á sumrin."

Að velja listina sem lifibrauð

Helgi ver miklu af tíma sínum í að kenna dans og þjálfa. "Besta ráð sem ég get gefið þeim sem vilja dansa er að missa ekki sjónar á draumnum. Það er gífurleg samkeppni úti í hinum stóra heimi og kannski nærðu ekki eins langt og þú vildir. En ef þú hefur ástríðuna þá hefurðu möguleika. Það er betra að reyna en að reyna ekki. Ef þú leggur þig fram og gerir þitt besta þá ertu kannski á réttum stað á réttum tíma. Það er ekki alltaf undir þér komið hvort þú kemst áfram eða ekki. En þú kemst ekkert áfram nema þú reynir.

Foreldrar barna sem vilja spreyta sig á þessari listgrein verða að gefa barninu réttan grundvöll til að byggja á. Finna rétta skólann og velja réttan kennara. Ég naut þess að hafa Bidsted-hjónin sem voru þekkt fyrir að byggja upp góða karldansara. Þegar ég kom til Bandaríkjanna þá uppgötvaði ég hvað ég hafði hlotið gott veganesti frá þeim.

Ég var hálft í hvoru feginn að synir mínir höfðu ekki áhuga á að gerast dansarar. Kristinn er bifreiðahönnuður og Erik er lærður kvikmyndatökumaður. Erik byrjaði fyrir tilviljun að taka ljósmyndir af dönsurunum þegar hann kom að heilsa upp á mig í vinnunni. Þetta voru það góðar myndir að dansflokkurinn réð hann til að mynda allt okkar kynningarefni sem hefur breyst mikið frá því sem áður var."

Don Quixote

Það eru liðnir tveir tímar og Helgi er að verða of seinn á fund. Við göngum yfir Franklin Street og meðfram garðinum við óperuhúsið þar sem leikmunavörður ballettflokksins leiðir Rosinante og mórauða asnann að sviðsinnganginum. "Já, þeir eru fallegir reiðskjótarnir okkar," segir Helgi og hlær.

Við kveðjumst og Helgi keyrir út í umferð San Francisco-borgar. Ég geng í humátt á eftir Rosinante í átt að miðasölu óperuhússins. Svei mér, þá ef ég er ekki farinn að hlakka til að sjá ballettinn.

Í lok sýningarinnar kemur kona með pakka og í pakkanum er rauðvínsflaska; Tomasson Cabernet Sauvignon, 2004. Á miðanum er prentuð tilvitnun frá víngerðarmanninum sjálfum: "Life is a dance."

Lífið er dans.

Höfundur er kvikmyndagerðarmaður í Los Angeles.