17. maí 2007 | Neytendur | 600 orð | 1 mynd

Mæla með þorskalýsi frekar en ufsalýsi

Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur join@mbl.is "ÉG mæli með þorska- eða Krakkalýsi bæði fyrir börn og fullorðna. Úr lýsi er fólk að sækjast eftir A- og D-vítamínum og omega-3 fitusýrum.
Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur

join@mbl.is

"ÉG mæli með þorska- eða Krakkalýsi bæði fyrir börn og fullorðna. Úr lýsi er fólk að sækjast eftir A- og D-vítamínum og omega-3 fitusýrum. Sami ráðlagði dagskammtur af D-vítamíni er fyrir einstaklinga frá sex mánaða til sextugs, en börn þurfa mun minna af A-vítamíni en fullorðnir. Engum er hollt að fá of stóra skammta af A-vítamíni og því mæli ég ekkert sérstaklega með ufsalýsinu, sem er ríkt af A-vítamíni og alls ekki ætlað börnum til inntöku.

Með því að taka þorskalýsi fram yfir ufsalýsi fær fólk líka meira af omega-3 fitusýrum í kaupbæti, ef svo má segja, því það tekur fleiri millilítra af þorskalýsinu en ufsalýsinu," segir Brynhildur Briem, næringarfræðingur á matvælasviði Umhverfisstofnunar.

Öll lifrin er brædd saman

Þorskalýsi er ekki bara unnið úr þorsklifur og ufsalýsi ekki einvörðungu úr ufsalifur heldur innihalda báðar þessar vörutegundir lýsi úr lifur þorskfiska, þorski, ýsu og ufsa. "Við söfnum saman lifur úr þessum fisktegundum og bræðum saman austur í Þorlákshöfn. Það er hins vegar of kostnaðarsamt að halda lifrinni aðgreindri því fisklifur er viðkvæm," segir Jón Ögmundsson, gæðastjóri hjá Lýsi.

A-vítamín minnkað um helming

Lýsið er hreinsað til að losa úr því mengunarefni, en í hreinsunarferlinu tapast náttúrulegu vítamínin. Það þarf því að bæta við vítamínum í lýsið að loknu vinnsluferlinu.

Helsti munurinn á þorska- og ufsalýsi felst því í mismikilli vítamínbætingu. Ufsalýsið er mun vítamínríkara en þorskalýsið. Að sögn Jóns er bæði A- og D-vítamínum bætt í lýsið, en nýlega hefur A-vítamín í ufsalýsi verið minnkað um helming, í samráði við sérfræðinga Lýðheilsustöðvar, til að unnendur ufsalýsis fari ekki yfir ráðlagðan dagskammt af A-vítamíni. Fólk fær almennt ekki D-vítamín úr daglegri fæðu sinni, nema í síld, laxi, eggjum og sumum mjólkurafurðum, en getur aftur á móti fengið A-vítamín eða forvera A-vítamíns úr mjólkurvörum, fiski, grænmeti og ávöxtum auk lýsisins. A-vítamín hefur áhrif á sjón, stuðlar að heilbrigði húðar, hefur áhrif á vöxt beina, styrkir ónæmiskerfið og flýtir fyrir að sár grói.

Þungaðar konur og mjólkandi mæður hafa lítils háttar aukna þörf fyrir A-vítamín. En hætta eykst á fæðingargöllum ef teknir eru á meðgöngu stærri skammtar en ráðlagt er.

Túnfiskur líka í Krakkalýsinu

"Við höfum vissulega stundum velt nafnabreytingu á lýsinu fyrir okkur þar sem ufsalýsið er ekki bara unnið úr ufsalifur og þorskalýsið ekki bara unnið úr þorsklifur. Það hefur þó enn ekki orðið úr því vegna þess að við teljum að nafnabreyting myndi ekki falla í góðan jarðveg. Neytendur eru íhaldssamir og vilja bara fá sitt lýsi undir heitunum þorskalýsi og ufsalýsi.

Persónulega kýs ég þó að taka Krakkalýsi því mér finnst það langbest. Það er ekki stór munur á Krakkalýsi og þorskalýsi, en það er á hinn bóginn mikill munur á þessu tvennu og ufsalýsi enda erum við að ráðleggja mun minni inntöku á ufsalýsinu en hinu og alls ekki er mælt með ufsalýsi fyrir börn yngri en 12 ára. Í Krakkalýsið notum við þorsk-, ýsu- og ufsalifur, en bætum túnfiski út í það til að fá í það aukið magn af fjölómettuðu DHA-fitusýrunni, sem er hluti af svokölluðum omega-3 fitusýrum.

DHA-fitusýran er talin hafa mikilvægu hlutverki að gegna í uppbyggingu heila, miðtaugakerfis og sjónar," segir Jón.

Í einu grammi af þorskalýsi eru 2 míkrógrömm af D-vítamíni, 50 míkrógrömm af A-vítamíni og 1 milligramm af E-vítamíni. Í einu grammi af ufsalýsi eru nú um 4 míkrógrömm af D-vítamíni og 100 míkrógrömm af A-vítamíni og 2 milligrömm af E-vítamíni. Eitt gramm af Krakkalýsi inniheldur 2 míkrógrömm af D-vítamíni, 35 míkrógrömm af A-vítamíni og 1 milligramm af E-vítamíni. Lýðheilsustöð mælir í sínum leiðbeiningum með þorskalýsi umfram ufsalýsi því of stórir skammtar af A-vítamíni geta verið skaðlegir vegna eituráhrifa.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.