Þingsalurinn? Óvíða í náttúru Íslands hagar svo vel til ef velja þyrfti stað til þinghalds, þar sem skjól er aðalatriðið. Í aldanna rás hefur ekkert breyzt annað en að einn og einn steinn hefur hrunið úr bergveggnum og einnig var hér lagður hluti Kóngsvegarins 1906–1907. Hann er þarna ennþá þótt ekki sé hann notaður sem akvegur.
Þingsalurinn? Óvíða í náttúru Íslands hagar svo vel til ef velja þyrfti stað til þinghalds, þar sem skjól er aðalatriðið. Í aldanna rás hefur ekkert breyzt annað en að einn og einn steinn hefur hrunið úr bergveggnum og einnig var hér lagður hluti Kóngsvegarins 1906–1907. Hann er þarna ennþá þótt ekki sé hann notaður sem akvegur. — Ljósmynd/Gísli Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gengið hefur verið að því sem vísu frá stofnun lýðveldisins á Þingvöllum að Lögberg sé þar sem fánastöngin stendur á Hallinum. En er það víst?

Gengið hefur verið að því sem vísu frá stofnun lýðveldisins á Þingvöllum að Lögberg sé þar sem fánastöngin stendur á Hallinum. En er það víst? Svo spyr Gísli Sigurðsson og kveður þá staðsetningu, að því er bezt verði séð, byggða á ágizkun og telur að hún sé í meira lagi vafasöm. Eðlilegasti staðurinn fyrir þinghald sé hins vegar skammt frá, á flötinni í Almannagjá, á stað sem virðist vera sniðinn fyrir þinghald. Því megi spyrja hvort ekki væri eðlilegt að leysa þetta ágreiningsmál og gera það að tilefni stórhátíðar þegar 80 ár verða liðin f´rá Alþingishátíðinni 1930.

Er hugsanlegt að þjóð sem á skráða sögu sína frá upphafi og stofnaði þjóðþing árið 930, á undan öllum öðrum þjóðum, viti ekki hvar á Þingvöllum sjálft Lögberg var? Við bendum erlendum gestum með stolti á þann stað á berum, hallandi klöppum á Hallinum og höfum reist þar fánastöng og göngupalla. En margt bendir til þess að þetta standist ekki.

Bæði í Íslendingasögum og ótal öðrum heimildum um þinghald á Þingvöllum er nákvæmlega getið um þingstörf og atburði, sem gerðust í tengslum við þinghaldið, en engum hefur þótt það ómaksins virði að taka af allan vafa með staðarlýsingu og í nútímanum hefur þetta afar lítið verið rætt.

Samt eru til góðar vísbendingar úr lögbókinni Grágás og þar er staðnum lýst með vísun til sólar.

Svo segir Þórarinn Þórarinsson arkitekt, sem nú starfar hjá Skipulagi Reykjavíkur, en hefur verið mér til halds og trausts við þetta greinarkorn.

Í allmörg ár hefur spurningin um Lögberg tekið huga Þórarins og hann er þrautlesinn í öllu sem að efninu lýtur.

Árið 2000, meðan ég var enn á Lesbók Morgunblaðsins, benti Örlygur Hálfdánarson bókaútgefandi mér á að Þórarinn arkitekt væri mikill áhugamaður um þá spurningu hvar Lögberg hefði verið. Mér kom efnið á óvart; vissi ekki að það gæti verið neinn vafi á ferðinni um þetta.

Ég ræddi þá við Þórarin og í framhaldi af því skrifaði hann grein sem birtist í Lesbók í desembermánuði árið 2000. Mér þótti fengur í greininni og átti von á svargreinum og umræðum í fjölmiðlum. En enginn reis upp til að andmæla og það var eins og enginn hefði skoðun á þessu, eða þyrði að láta hana í ljósi. Hljótt hefur verið um málið á vettvangi fjölmiðla; þó birtist sumarið 2006 viðtal Egils Ólafssonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, við Adolf Friðriksson fornleifafræðing um rannsóknir hans á Þingvöllum, en þar var í rauninni alls ekki verið að leita sérstaklega að Lögbergi. En hver tók þá ákvörðun að setja fánastöngina niður á Hallinum fyrir lýðveldishátíðina 1944 og staðsetja þar með Lögberg?

Matthías Þórðarson tekur af skarið

Við sem stóðum í slagviðrinu á Þingvöllum 17. júní 1944 vorum ekki í neinum vafa um Lögberg. Það var hinn heilagi staður efst, eða ofarlega á Hallinum, þar sem við höfðum að sögn "tekið við" trúnni árið 1000. En eftir að hafa ótal sinnum komið á þennan stað og reynt að sjá fyrir mér í huganum þinghaldið og ýmsa atburði sem tengdust því, þá virtist vonlaust að koma því heim og saman og þess vegna þótti mér grein Þórarins arkitekts vera mjög áhugaverð.

Sú spurning vaknaði hvort þarna væri byggt á staðreyndum eða munnmælum. Eða hafði jafnvel einhver embættismaður tekið af skarið?

Raunar var það Matthías Þórðarson þjóðminjavörður, sem bæði var áhugasamur um þetta efni og vel menntaður, sem tók af skarið og ákvað staðinn þar sem fánastöngin hefur staðið síðan.

Að sjálfsögðu hafði hann sín rök fyrir þessu vali en virðist þó hafa sést yfir þýðingarmiklar bendingar í sjálfri Grágás.

Árið eftir lýðveldishátíðina kom út bók Matthíasar, Alþingisstaðurinn forni. Þar tekur hann saman allar helztu heimildir sem hann hefur fundið um þingstaðinn á Þingvöllum og samkvæmt því ákveður hann hvar Lögberg hafi verið. Í framhaldi lét hann setja upp merkta steina. Þessar merkingar hafa síðan verið teknar góðar og gildar.

Raunar var það svo að ofarlega á þessari hallandi hraunklöpp á neðri gjárbarminum hafði áður verið manngerður, hringlaga stallur, um 22 m í þvermál, og hallinn hafði þá verið tekinn af með þriggja álna hleðslu, eða 180 cm, að sunnanverðu.

Í búðaskrá frá árinu 1700 getur Sigurður lögmaður Björnsson þessarar hleðslu og segir hana á gjárbarminum milli Krossgarðs og Snorrabúðar og að þar hafi áður verið fjórðungsdómaþingstaður, einn fyrir hvern landsfjórðung. Þórarinn Þórarinsson telur að á þessum palli hafi verið helgistaður þingsins og kirkja eftir kristnitöku.

En hleðsluna framan undir pallinum var ekki hægt að sjá í friði. Þegar Jón Ólafsson frá Grunnavík var aðstoðarmaður lögmanns á Þingvöllum 1724, lét hann rífa steinana upp og velta þeim niður Hallinn vegna þess að hann vantaði svona steina fyrir stiklur út í Öxarárhólma.

Matthías Þórðarson lýsir hinum meinta þingstað uppi á neðri gjárbrúninni, en virðist ekki gera sér grein fyrir því að hann er þar að lýsa stað sem væri gersamlega ónothæfur fyrir þinghald: Mjög ósléttri brekku á beru hrauni og í bezta lagi smá láréttur flötur efst, þar sem lagað hafði verið til samkvæmt því sem áður var lýst. Áheyrendur neðar og neðst í brekkunni gátu enga aðstöðu haft til að fylgjast með og heldur ekki þeir sem hefðu staðið niðri í gjánni. Þótt við gefum okkur að Þingvellir hafi verið í mun ríkari mæli vaxnir birki um árið 1000, má gera ráð fyrir því að á hraunklöppinni efst á Hallinum hafi lítið breyzt og að þar hafi í mesta lagi þrifizt lyng.

Hvaða vísbending er í Grágás?

Þórarinn Þórarinsson arkitekt hefur eins og áður sagði legið í heimildum og reynt að vekja áhuga þar til bærra yfirvalda á málinu. Hann telur að ekki hafi verið tekið mark á talsvert nákvæmri vísbendingu í Grágás, þar sem Lögbergi er lýst með tilvísun til sólar. Um það segir hann:

"Í norrænum löndum höfðu menn lengi haldið þing um sólstöður og annar tími hefur ekki þótt koma til greina þegar ákveðið var að hefja þinghald á Þingvöllum. Þingið hófst alltaf á föstudagsmorgni."

Í Grágás stendur svo um þetta á blaðsíðu 383 í útgáfu Máls og menningar frá árinu 1992: "Goðar allir skulu koma til þings fimmta dag viku eftir er tíu vikur eru af sumri, áður en sól gangi af þingvelli, ef þeir koma eigi svo eru þeir útlagir og af goðorði sínu nema nauðsynjar beri til."

Eftirtektarvert er að hér er sagt að þingið sé haldið á velli. En uppi á Hallinum hefur aldrei verið neinn völlur, og jafnvel þó að örlítill blettur hafi verið sléttaður og hallinn jafnaður með grjóthleðslu, þá hefði slíkt aldrei verið kallaður völlur.

Sá eini völlur, sem um er að ræða, hefur að mati Þórarins verið niðri í gjánni, næstum beint á bak við þann stað þar sem fánastöngin var reist. Þar er sléttur völlur undir háum bergvegg Almannagjár og nær hann upp að hinum lægri gjárvegg að sunnanverðu.

Að austanverðu myndaði Öxará aðhald, enda var hylurinn þá bæði stærri og dýpri en nú er eftir að útfallið var lækkað af manna völdum þar sem brúin er. Á þessum velli er beinlínis náttúrulegur þingsalur og margfalt betra skjól en uppi á Hallinum.

Undir hinum nyrðri bergvegg Almannagjár er gróin brekka sem nær um það bil 3 metra upp frá sléttum vellinum. Þórarinn telur alveg víst að þessi brekka sé manngerð; hún sé úr aðfluttum jarðvegi og megi raunar sjá fyrir stöllum í henni.

En þar hefur engin rannsókn farið fram.

Það virðist hafa farið framjá mörgum að til er allnákvæm lýsing á þingstaðnum á Þingvöllum í Íslandslýsingu Arngríms lærða, sem hann skrifaði á latínu, og út var gefin í Amsterdam árið 1643.

Þar segir hann að landsbúar "hafi haldið árlegt þing við klett eða hamra, sem eru að lengd um það bil hálf míla frá suðri til norðurs, þar sem annaðhvort jarðskjálfti eða náttúra hafa myndað lítinn dal, ekki ófagran".

Arngrímur lærði lýsir því síðan hvernig á renni í gegnum nokkurn hluta dalsins þar til hún kemur að sjálfum þingstaðnum (ad ipsum habendorum judiciorum locum) en taki þar gagnstæða stefnu og fái útrennsli eftir að hafa fallið í fossi yfir hina hlið dalsins.

Verðugur og glæstur þingsalur

Efst í brekkunni undir hamraveggnum, sem hér sést á mynd, er líkt og grópað hafi verið fyrir sæti úr bergveggnum að baki. Þar telur Þórarinn að hafi verið rúm eða sæti lögsögumanns og styður þá skoðun með því að einmitt þaðan sést nógu vel yfir hinn lægri gjárveg til þess að sjá á Spöngina, milli Nikulásargjár og Flosagjár, þar sem hann og fleiri álíta að Lögrétta hafi verið, en þar var dæmt í málum.

Það sem eindregnast bendir á þennan stað er lýsing í Grágás á því hvar sólin á að skína á völlinn, bæði við upphaf þings að morgni og við þinglok að kvöldi.

Menn hafa verið snemma á fótum og viljað nota vel tímann og ekki skorti birtuna um sólstöðurnar. Undirbúa þurfti vel öll þingstörf og velja menn í dóma áður en sól "kom á þingvöll".

Í Grágás segir og um fyrrnefndan fund goðanna að þeir verði allir að vera mættir áður sól er af þingvelli, en það er að okkar tímatali um kl. 6 eftir hádegi.

Í fyrrnefndri Lesbókargrein frá árinu 2000 segir Þórarinn Þórarinsson:

"Goðar þeir og lögsögumaður sem staðið hefðu á stallinum upp af þeim stað sem fánastöngin var síðar reist, hefðu ekki verið sýnilegir nema fáum mönnum sem staðið hefðu efst í brekkunni og náðu að horfa inn á stallinn. Hinir sem stóðu neðar í meiri bratta sáu hvorki né heyrðu hvað fram fór. Rétt neðan við brekkuna voru svo búðir þingmanna staðsettar, sennilega nokkuð stórar byggingar og stóðu væntanlega þétt hver við aðra. Við þær hefði oft á tíðum verið erill og hávaði sem truflað hefði þinghald i brekkunni. Sléttlendið á árbakkanum þar sem búðirnar stóðu gat fráleitt talizt sem þingvöllur vegna truflandi framferðis allra þeirra mörgu sem á þingstaðnum voru og tóku ekki þátt í þinghaldinu."

Sæti lögsögumanns

Reynum sem snöggvast að sjá fyrir okkur þingheim að störfum í hinum náttúrulega "þingsal" inni í Almannagjá með háan gjárvegginn að baki.

Þórarinn telur að inngangurinn hafi verið þar sem stígurinn frá búðunum lá upp í Hamraskarð og staðurinn varinn að norðaustanverðu af Öxará og lægri vegg Almannagjár að sunnanverðu. Hann nefnir að kristnitökusumarið árið 1000 hafi kristnir menn ætlað að verja "vígi" þingvöllinn og geti það einmitt átt við þingvöllinn inni í gjánni, sem auðvelt var að verja með vopnum.

Um brekkuna undir hamraveggnum, sem áður var á minnst, segir Þórarinn:

"Efst í brekkunni, nokkurn veginn mitt á milli Hamraskarðs og Krossskarðs, er láréttur stallur sem hefði getað rúmað um og yfir 30 manns, þess vegna 36 goða í sæti. Niður af stallinum má ógreinilega sjá móta fyrir fleiri stöllum neðar í brekkunni."

Umgjörð þessa þingstaðar er tignarleg og hann hentar afar vel til þess að margir áheyrendur geti fylgst með því sem fram fer. Ef hinn tignarlegi nyrðri bergveggur Almannagjár er hið eiginlega Lögberg, þá eru þeir sem í brekkunni standa neðan hans "að Lögbergi".

Hann nefnir einnig að efst í brekkunni sé lítil klettabrík eins og grópuð í bergið. Þar er því líkast að mótað hafi verið fyrir sæti. Úr þessu sæti, eða hásæti, hagar svo til að vel sést út yfir lægri gjárvegginn og út á Spöngina, sem er í háaustur frá þessu sæti.

Af þeirri ástæðu telur Þórarinn að Lögrétta, sem átti að vera í háaustur frá Lögbergi, hafi einmitt verið á Spönginni og að ummerkin þar séu eftir dómstaðinn.

Hvar mundum við velja þinghaldi stað?

Nú skulum við skunda á Þingvöll og treysta vor heit eins og segir í alþekktu kvæði. Hvar mundum við velja mikilvægustu samkomu þjóðarinnar stað á Þingvöllum, ef hún ætti að fara fram ár hvert undir berum himni, og burtséð frá því að við komum nú akandi í bílum á Þingvöll en ekki á hestum? Við mundum leita að sléttum velli með aðliggjandi brekku og við mundum umfram allt velja stað sem skýlir okkur fyrir vindum. Við mundum byggja búðir okkar í nánd við rennandi vatn og einnig þar huga að skjóli.

Þegar allt þetta er haft í huga þykir mér augljóst að við mundum færa okkur frá staðnum þar sem fánastöngin stendur og niður í Almannagjá, sem er að vísu örstutt vegalengd, en skiptir algerlega sköpum fyrir öll skilyrði til þinghalds.

Hvar var Lögrétta?

Dómendur sátu í Lögréttu og þar voru dómar kveðnir upp. Þeir voru 36 talsins, en þegar fimmtardómur sat voru þeir 48, en málshefjendur máttu ryðja alls 12 mönnum úr dómi, og þá voru 36 eftir; það var sá dómstóll sem dæmdi. Þórarinn Þórarinsson er jafn viss um þann stað og Lögberg, hann segir:

"Lögrétta var á sléttum bletti milli gjánna, Nikulásargjár og Flosagjár. Ef að er gáð kemur í ljós að þar eru 60 fet milli gjánna og þessi slétti blettur er einnig 60 fet á lengd. Ekki veit ég hvort það er tilviljun, en frá gjárbörmunum eru líka 60 fet niður á gjárbotn. Ég tel alveg víst að þarna hafi verið hringlaga hlaðnir útveggir, sem nú eru með öllu horfnir, en út á Spöngina komust menn á tveim göngubrúm, sem þar voru settar. Við brúarsporðana hafa verið verðir og þessi staðsetning milli gjánna hefur ugglaust verið til þess að ekki væri hægt að ryðjast inn á dómstaðinn. Við skulum einnig gæta þess að þarna voru menn líka innan þinghelgi og þar mátti ekki bera vopn. Eftirtektarvert er að menn töluðu ekki um gjárnar, heldur "ána"," segir Þórarinn, enda er heilmikið straumvatn í þeim.

Öxarárhólmi er horfinn

Þar sem Öxará fellur fram á flatlendið myndaði áin áður stóran hólma, Öxarárhólma. Þórarinn segir að í tengslum við Alþingishátíðina 1930 hafi vestari kvíslin verið stífluð og síðan hefur enginn Öxarárhólmi verið til. Og hversvegna var þetta gert? Líklega til að búa til stærri samfelldan völl vestan við ána.

En við höldum aftur út á Spöngina, svæðið milli Flosagjár og Nikulásargjár, þar sem Þórarinn og margir fleiri telja að Lögrétta hafi verið. Að sjálfsögðu hefur verið margt um manninn í kringum Spöngina; fólk sem var á staðnum og hlýddi á dóma. Áheyrendur tóku sér sæti á hrauninu báðum megin við gjárnar, en mest þó að sunnanverðu. Stundum gat komið þar til uppþota eins og gerðist þegar Flosi á Svínafelli var í Lögréttu og sá að ekki var allt með felldu í hópi áheyrenda sunnan gjár. Þó að göngubrú væri þá komin á gjána hefur Flosa ekki litizt vel á að fara yfir hana og lenda þá inni í hópi andstæðinga sem þar var fyrir. Hann gerði sér lítið fyrir og stökk yfir gjána nokkru ofar. Varla eru það minna en 3–4 metrar en bakkinn sem Flosi stökk af er að vísu nokkuð hærri þar. En síðan hefur gjáin verið við hann kennd.

Grundvallarbreytingar á Alþingi

Eftir lok þjóðveldisins 1262 varð sú grundvallarbreyting að þingið hætti að koma saman að Lögbergi, segir Þórarinn, og eftir það fluttist þinghaldið allt á Spöngina. Í 332 ár höfðu menn þingað undir bergveggnum í Almannagjá, sem fyrr segir. Eftir það tók við eitthvað viðaminna þinghald á Spönginni, sem stóð í 306 ár. Þeir sem halda því fram að á Spönginni hafi alla tíð verið þingstaður á Þingvöllum, hafa þá rétt fyrir sér að nokkru leyti.

Ég gerði það að gamni mínu að orða við nokkra ágæta menn hvort þeir hefðu skoðun á því hvar Lögberg hefði verið á Þingvöllum. Yfirleitt var svarið á þann veg að þeir hefðu aldrei spáð í þetta, en litið á það sem staðreynd að fánastöngin vísaði á Lögberg.

Jónas Kristjánsson, fyrrum forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, hafði velt þessu fyrir sér án þess að komast að niðurstöðu. En þegar ég nefndi staðinn á Hallinum þar sem fánastöngin stendur var svarið: "Nei, ekki þar." Jónas taldi að þar á klöppunum væri mjög áveðurs og hann kvaðst telja víst að menn hefðu valið skjólbetri stað. Annar maður, sérfróður um Þingvelli, Sigurður G. Tómasson útvarpsmaður, svaraði nokkurn veginn því sama og Jónas; hann taldi að við fánastöngina væri mjög óheppilegur staður til þinghalds og nú þyrfti að grafa og gera fornleifarannsókn í brekkunni undir hærri gjárbarminum til að ganga úr skugga um hvort sú brekka væri manngerð.

Áríðandi að leysa málið farsællega

Nú er ljóst að margir, sem á annað borð hafa velt þessu eitthvað fyrir sér, líta á það sem fjarstæðu að þinghaldið hafi verið á klöppunum þar sem fánastöngin er og að þar sé Lögberg. En hvað segir Þingvallanefnd og hvað segja vísindamenn?

Ef tækist að leysa þetta ágreiningsmál mætti gera það að tilefni stórhátíðar á Þingvöllum og nú má minna á að þrjú ár eru þar til 80 ár eru liðin frá Alþingishátíðinni á Þingvöllum. Svo gerólík aðstaða yrði fyrir þingmenn á hinum nýja – eða gamla – þingstað að það má láta sér detta í hug að Alþingi gæti haldið þar árlegan fund. Engar stórkostlegar breytingar þyrftu að eiga sér stað, en sjálfur þingvöllurinn í gjánni verður þó að vera heill og óskiptur og ekki gengur að gamli vegurinn um Almannagjá liggi yfir hann.

Annað sem verður að vera í lagi á fjölmennum nútímaferðamannastað eru snyrtingar. Ekki er hægt að vísa fólki inn í Þjónustumiðstöð, innst á völlunum, eða niður í Valhöll; hér yrði einhvers staðar að koma salernum fyrir neðanjarðar svo lítið bæri á og það er ugglaust vandalítið.

En það sem síðan brennur á okkur er að gera gott og greinilegt aðgengi, bæði að Lögbergi í Almannagjá og Lögréttu á Spönginni. Ekki kostar það neinar breytingar svo heitið geti; Fánastönginni væri eðlilegra að finna nýjan stað, til að mynda á miðjum þingvellinum í gjánni ef svo færi að menn sættust á þann stað. Vafamál er þá hvort göngupallarnir framan í Hallinum yrðu til einhvers og væri líklega bezt að rífa heila móverkið.

Austur á völlunum þurfa að vera stór og vönduð skilti til þess að gestir átti sig á aðkomu bæði að Lögbergi og Lögréttu. Þar þurfa síðan að vera vönduð skilti á nokkrum tungumálum, sem lýsa því sem þar fór fram. Þau eru þar raunar, en þá er gert ráð fyrir Lögbergi í hallanum á neðri gjárveggnum.

Það heyrir síðan til framtíðinni að útrýma barrtrjánum, sem ævinlega stinga í augu og allir sjá að eru ekki hluti af þessari náttúru. Við hvaðeina sem flokkast getur undir mannvirki finnst mér að bezt fari á því að hlaða úr hraungrjóti eins og vel kemur í ljós í fagurlega hlöðnum görðum hjá þjónustumiðstöðinni.

Höfundur er blaðamaður.