Ása María Björnsdóttir
Ása María Björnsdóttir
Ása María Björnsdóttir-Togola skrifar í tilefni af stofnun heimasíðu um legslímuflakk: "Gera má ráð fyrir að sjúkdómurinn kosti u.þ.b. 650 m.kr. á ári og er þá einungis tekið tillit til veikindafjarvista þeirra sem hafa endometríósu."

SAGA um endometríósu (á íslensku oft nefnt legslímuflakk eða legslímuvilla) er þekkt allt frá ofanverðri 17. öld. Enn er ekki að fullu vitað hvað veldur sjúkdómnum og þess vegna hefur reynst erfitt að finna nægilega góða lækningu. Á Íslandi og víðar hefur m.a. verið sýnt fram á að erfðir skipta máli sem ein af hugsanlegum orsökum.

Endometríósa er sjúkdómur hjá konum þar sem legslímhúð nær að vaxa utan legholsins, venjulega í kviðarholinu. Við tíðablæðingar blæðir úr þessum vef og hann myndar blóðhlaupna flekki innan á lífhimnu kviðarholsins og í eggjastokkunum. Blæðingin veldur ertingu og bólgu og við það lóðast vefirnir sem blæðir inn í við nálæg líffæri og gróa við þau. Á eggjastokkunum myndast blóðfylltar blöðrur og úr þeim lekur smám saman gamalt blóð inn í kviðarholið. Bólguástand verður í líkamanum, konan fær mjög slæma verki með blæðingunum og samgróningar og truflun á starfsemi eggjastokkanna dregur úr frjósemi.

Fyrsti aðalfundur Samtaka kvenna með endómetríósu verður haldinn 22. maí nk. en samtökin voru stofnuð 20. október í fyrra. Ákveðið var að nota alþjóðlega heitið endómetríósa um sjúkdóminn og hafa það í nafni samtakanna.

Sjúkdómseinkenni

Kvalafullar og miklar tíðablæðingar, verkir við egglos, sársauki við samfarir, sársaukafullar þarmahreyfingar, verkir við þvaglát, uppblásinn magi, niðurgangur og ógleði, síþreyta og andleg uppgjöf svo eitthvað sé nefnt. Um 30-40% af konum með endometríósu lenda í erfiðleikum með að verða barnshafandi. Í mörgum tilfellum veikist ónæmiskerfi líkamans með tilheyrandi sýkingum og líkur á að veikjast af öðrum sjúkdómum aukast, þar á meðal af krabbameinum í öðrum líffærum kvenna, svo sem í eggjastokkum og brjóstum.

Ekki er hægt að tala um eina ákveðna meðferð þar sem einkenni geta verið mismunandi en meðferð felst að miklu leyti í verkjalyfjum, langvarandi töku getnaðarvarnapillunnar, sérhæfðri hormónameðferð, skurðaðgerðum þar sem fjarlægður er endometríósuvefur í sem mestu magni og, sem allra síðasta úrræði, brottnám legs og/eða eggjastokka. Allar aðferðirnar hafa í för með sér aukaverkanir.

Ein goðsögnin er sú að verkir séu eðlilegur hluti af lífi konunnar. Sú staðhæfing fælir konur frá því að leita sér hjálpar og við það seinkar greiningu sjúkdómsins oft um allmörg ár. Algengt er að taki 6-10 ár þar til greiningin fæst, en til þess þarf skurðaðgerð sem nefnist kviðarholsspeglun. Að meðaltali getum við sagt að verkir hjá konu með endometríósu vari í 13 daga í hverjum mánuði.

Vandamál

Sjúkdómurinn hefur í för með sér veruleg vandamál. Niðurstaða evrópskrar könnunar, sem gerð var nýlega meðal kvenna með endometríósu, leiddi í ljós eftirfarandi tölur:

73% kvenna eru ófær að taka þátt í félagslífi nokkra daga í hverjum mánuði.

80% sögðu að endometríósa truflaði svefn og gæði hans.

35% svöruðu að endometríósa hefði áhrif á samlíf þeirra og væri jafnvel orsök hjónaskilnaðar.

80% höfðu verið fjarverandi frá vinnu á sl. 5 árum vegna endometríósu og af þeim hafði:

14% verið sagt upp starfi, þær misst það með öðrum hætti eða neyddar til að fara á eftirlaun löngu fyrir eðlilegan tíma.

8% skiptu um atvinnu vegna vandamála í tengslum við fjarvistir.

14% höfðu dregið úr vinnu og farið í hlutastarf.

Alls höfðu 66% þeirra sem tóku þátt í könnuninni fengið ranga sjúkdómsgreiningu í upphafi.

Kostnaður

Sjúkdómurinn veldur margvíslegum útgjöldum. Á Íslandi má, miðað við evrópskar áætlanir, gera ráð fyrir að sjúkdómurinn kosti um það bil 650 milljónir króna á ári hverju og er þá einungis tekið tillit til veikindafjarvista þeirra einstaklinga sem hafa endometríósu. Til viðbótar kemur kostnaður við aðgerðir, lyf og aðrar meðferðir. Það skal tekið fram að þetta er hóflega áætlað og tekið er mið af niðurstöðum kannana í Evrópu þar sem um 6% kvenna á barnseignaraldri hafa greinst með endometríósu.

Á stofnfundi samtakanna í október í fyrra voru meðal annars teknar ákvarðanir um að samtökin myndu stuðla að samhjálp meðal kvenna sem greinast með sjúkdóminn, samstarfi við hið opinbera og meðferðaraðila, með það að markmiði að bæta gæði meðferðar, auka upplýsingar til sjúklinga, aðstandenda og almennings um sjúkdóminn og greiningu hans og stuðla að því að komið verði á fót sérhæfðri miðstöð þar sem besta sérþekking til ráðgjafar og meðferðar fyrirfinnst á hverjum tíma, líkt og gert er í nágrannalöndunum.

Með því að auka gæði þjónustunnar og auðvelda aðgengi að teymi með sérþekkingu má flýta fyrir greiningu og bata, en það mun draga verulega úr kostnaði við veikindafjarveru, lyf, frjósemiaðgerðir og fleira. Um leið aukast lífsgæði einstaklinga með endometríósu og aðstandenda þeirra, sem er meginmarkmið samtakanna.

Heimasíða samtakanna verður opnuð formlega á aðalfundi þeirra þriðjudaginn 22. maí kl. 20.00 og eru allir velkomnir. Vill stjórnin sérstaklega hvetja aðstandendur og vini kvenna með endómetríósu til að mæta. Konur og aðrir velunnarar samtakanna geta haft samband við stjórn á netfanginu endo@endo.is.

Höfundur er nemi í næringarfræði og formaður Samtaka kvenna með endometríósu.