27. maí 2007 | Aðsent efni | 738 orð | 1 mynd

100 ára afmæli Kleppsspítala

Sveinbjörg Júlía Svavarsdóttir skrifar um félagsráðgjöf á Kleppsspítala í 40 ár

Sveinbjörg Júlía Svavarsdóttir
Sveinbjörg Júlía Svavarsdóttir
Sveinbjörg Júlía Svavarsdóttir skrifar um félagsráðgjöf á Kleppsspítala í 40 ár: "Þjónusta félagsráðgjafa miðar að því að styrkja tengsl til þess að viðhalda lífsgæðum og réttindum. Hún kallar á skilning á daglegu lífi fólks."
SÚ þjóðfélagsgerð sem við búum við í dag er önnur og talsvert flóknari en hún var fyrir 30-40 árum. Af því leiðir að aukin þörf hefur skapast fyrir fólk með menntun í félagsráðgjöf til þess að veita stuðning og upplýsingar um réttindi og úrræði. Að nota ýmsa félagslega þjónustu er réttur þeirra sem á henni þurfa að halda. Þjónusta félagsráðgjafa á geðsviði miðar einnig að því að viðhalda og styrkja tengsl einstaklinga með geðrænan vanda við fjölskyldu, vinnufélaga o.fl. Fyrir marga er þessi þjónusta forsenda þess að ná virkni, viðhalda lífsgæðum sínum og mannréttindum.

Félagsráðgjöf á geðsviði kallar á skilning á daglegu lífi fólks, þörfum þess, óskum og vilja. Það eru gerðar miklar kröfur til félagsráðgjafa sem fagfólks og hugsandi einstaklinga.

Félagsráðgjafar á geðsviði hafa umfram allt það hlutverk að styðja skjólstæðinga sína til sjálfshjálpar samkvæmt vinnureglum og siðfræði félagsráðgjafar. Þar vegur þekking, reynsla og innlifun félagsráðgjafans þungt. Hann vinnur með tengsl sem hafa rofnað. Í þessari vinnu eru skoðaðir ytri og innri þættir sem hafa áhrif og þar skipar viðtalstækni háan sess og er talin vera undirstaða þess að geta náð til skjólstæðings á hans forsendum. Viðtalstækni er meira en aðferð og tækni. Þar kemur til samkennd og tillitssemi. Hlustað er af innlifun.

Það er ákveðin list að lesa í sögð og ósögð orð og tilfinningar. Líkja má samskiptum skjólstæðings og meðferðaraðila við flugferð. Maður hefur sig á loft frá einum stað yfir á annan og á fluginu fær maður sýn yfir landslagið. Allan tímann mætir maður einstaklingnum af innlifun og vinnur með innsæi og vitund.

Sagan

Kristín Gústafsdóttir kom fyrst félagsráðgjafa til starfa á Kleppsspítala árið 1967. Hún var eini félagsráðgjafinn í rúmlega 3 ár. Nú starfa 26 félagsráðgjafar á öllum einingum geðsviðs; Barna- og unglingageðdeild, ferli- og bráðaþjónustu, áfengis- og vímuefnadeildum, bráðameðferðardeildum og endurhæfingar- og hæfingardeildum.

Snemma tóku félagsráðgjafar, í samræmi við menntun sína, að sér að skipuleggja vinnu með fjölskyldum geðsjúkra. Fjölskyldumeðferð er talsverð hjá félagsráðgjöfum á geðsviði með mismunandi áherslum sem mótast af þekkingu þeirra á viðfangsefninu, nýjum kenningum o.fl.

Kristín sérhæfði sig í fjölskylduvinnu/meðferð í framhaldsnámi sínu og kynnti hana fyrir þeim félagsráðgjöfum sem unnu með henni, þannig að hér hefur fjölskylduvinna/ meðferð verið notuð nánast alveg frá upphafi félagsráðgjafar hér á geðsviði. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor við H.Í. hefur svo þróað þetta meðferðarform með nýjum stefnum og straumum, sem svo hefur haldið áfram að taka á sig nýjar birtingarmyndir í höndum félagsráðgjafa á geðsviði.

Kristín lagði ríka áherslu á að þeir sem ynnu með henni væru ekki í hvítum sloppum. Það var gert grín að þessu í upphafi, en nú eru fáir í hvítum sloppum á geðsviði. Starfsfólk vill ekki vera í sérstöðu. Við vinnum saman að ákveðnum málefnum fyrir skjólstæðinga. Það er ekki lengur viðhorfið "við og þið". Þarna var verið að byggja upp valdeflingu sjúklinga og draga úr stofnanavaldi og valdamisvægi meðferðaraðila og sjúklinga.

Félagsráðgjafar hafa haft faglega umsjón með vernduðum heimilum síðastliðin 34 ár, en þau voru stofnuð að frumkvæði félagsráðgjafa á Landspítalanum árið 1973.

Rannsóknir sýna fram á að innlögnum hefur fækkað til muna með tilkomu vernduðu heimilanna og faglegri umsjón félagsráðgjafa þar.

Vernduð heimili þykja nú barn síns tíma og önnur hugmyndafræði varðandi búsetu geðfatlaðra hefur litið dagsins ljós. Nú eru kröfur um meira einkarými og einkalíf geðfötluðum til handa, sem þykja sjálfsögð mannréttindi, og ekki þykir lengur við hæfi að fullorðið fólk búi í litlum herbergjum eins og tíðkast á vernduðu heimilunum og deili stofu, eldhúsi og baðherbergi með 2–3 öðrum íbúum.

Meginmarkmið með störfum félagsráðgjafa er að búa svo um hnútana að þeir, sem til geðsviðsins leita, fái þannig þjónustu að minni líkur séu á að þeir þurfi á þjónustu geðsviðs að halda til lengri tíma.

Félagsráðgjafar á geðsviði starfa í teymum með öðrum heilbrigðisstéttum eða taka þátt í því starfi sem er á hverri einingu. Teymin eru samansett af fagfólki sem hefur mismunandi menntun og býr yfir fjölþættri þekkingu og reynslu. Þannig fæst víðtækari sýn á aðstæður einstaklingsins og möguleika hans.

Crafoord, C. (1994). Människan är en berättelse. Stockholm: Natur och kultur.

Kristín Gyða Jónsdóttir og Sigurrós Sigurðardóttir (2003). Hagir geðfatlaðra í verndaðri búsetu. Í Friðrik H. Jónsson (ritstj.), Rannsóknir í félagsvísindum IV (bls, 203-215). Reykjavík: Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan.

Björg Karlsdóttir, Ólöf Unnur Sigurðardóttir og Sveinbjörg Júlía Svavarsdóttir (2006). Geðheilbrigði og félagsleg tengsl. Í Sigrún Júlíusdóttir og Halldór Sig. Guðmundsson (ritstj.) Heilbrigði og heildarsýn, félagsráðgjöf í heilbrigðisþjónustu, Háskóli Íslands (bls 172 ), Háskólaútgáfan og RBF.

Siðareglur félagsráðgjafa.

Höfundur er forstöðufélagsráðgjafi á geðsviði LHS.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.