Ungir Íslendingar Að baki einfaldra staðhæfinga um útlendinga, nýbúa eða innflytjendur standa margbreytilegir einstaklingar.
Ungir Íslendingar Að baki einfaldra staðhæfinga um útlendinga, nýbúa eða innflytjendur standa margbreytilegir einstaklingar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir stuttu rötuðu Kárahnjúkar enn í fréttir vegna lélegs aðbúnaðar verkafólks. Hvers vegna heyrum við svona oft slíkar fréttir? Er hægt að tala um nýja kynþáttahyggju í þessu samhengi?

Fyrir stuttu rötuðu Kárahnjúkar enn í fréttir vegna lélegs aðbúnaðar verkafólks. Hvers vegna heyrum við svona oft slíkar fréttir? Er hægt að tala um nýja kynþáttahyggju í þessu samhengi? Kristín Loftsdóttir veltir fyrir sér umfjöllun fræðimanna um nýja kynþáttahyggju og hvað hún segir okkur um hnattvæddan samtímann.

Kenningar um nýja kynþáttahyggju koma óneitanlega upp í hugann þegar maður les í dagblöðum og heyrir í útvarpi endurteknar fréttir af aðbúnaði verkafólks við Kárahnjúkavirkjun. Lélegur aðbúnaður endurspeglar í raun illa það sem um er rætt enda eru lýsingarnar þannig að halda mætti að verið sé að ræða um þrælabúðir frá miðöldum en ekki atvinnulíf í íslensku samtímasamfélagi.

Fréttir um að 180 manns hafi veikst vegna vinnu við gangagerð hafa að einhverju leyti verið bornar til baka, en það breytir þó ekki því að þarna virðist fólk vera að vinna við aðstæður og aðbúnað sem maður hélt að þekktust ekki á íslenskum vinnumarkaði. Þegar haft er í huga að fréttir af slíkum aðbúnaði koma alltaf annað slagið upp í fréttum í tengslum við útlendinga þá má spyrja hvort ný tegund af kynþáttahyggju hafi skotið rótum í íslensku samfélagi?

Fræðimenn hafa um nokkurt skeið talað um að hugtakið menning sé í sívaxandi mæli notað eins og hugtakið kynþáttur áður, þ.e. að menning sé notuð sem útskýring á slæmri stöðu ákveðinna hópa eða stigi vanþróunar. Heimspekingurinn Etienne Balibar notar ásamt öðrum hugtakið "ný kynþáttahyggja" (neo-racism) til að gagnrýna vaxandi áherslu á menningu sem útskýringu á hegðun og eðli einstaklinga.

Rétt eins og kynþáttur áður, eru hugmyndir um menningu notaðar til þess að alhæfa um ákveðinn hóp einstaklinga og gera lítið úr honum á einhvern hátt. Fræðimenn hafa í raun í nokkra áratugi bent á að skipting fólks í afmarkaða kynþætti hefur ekkert vísindalegt gildi eða gagnsemi vegna þess að hún endurspeglar ekki skiptingu manneskjunnar í ólíka líffræðilega hópa. Slík flokkun var sérstaklega mikilvæg í evrópskum samfélögum á nítjándu og fyrri hluta tuttugustu aldar en var síðan harkalega gagnrýnd af fræðimönnum sem drógu vísindalegt gildi hennar í efa. Þrátt fyrir afneitun vísindafólks á slíkri skiptingu hefur hún haldið áfram að vera áhrifamikið tæki félagslegrar mismununar og hluti af skilningi flestra á umheiminn. Þannig má segja að kynþáttahyggja sé enn mikilvæg samfélagi okkar, þ.e. trú á gagnsemi þess að flokka fólk í kynþætti, þó að flokkun í kynþætti sé í sjálfu sér ekki gagnleg vísindalega.

Þrátt fyrir að á tuttugustu öld hafi skipting fólks í kynþætti snúið að líffræðilegum þáttum, hefur kynþáttahyggja sögulega séð falið í sér sterka samtengingu líffræðilegs og menningarlegs atgervis. Eins og mannfræðingurinn George W. Stocking gerir grein fyrir í rannsóknum sínum á hlutverki kynþáttahyggju í sögu mannfræðinnar á 19. öld, þá var litið svo á að húðlitur gæfi ákveðnar vísbendingar um menningu. Dregin voru upp gróf tengsl á milli líkamlegs útlits og andlegs atgervis einstaklinga og yfirgripsmiklar alhæfingar byggðar á þeim. Kynþáttahyggja er því fyrirbæri sem breytir sér og lagar sig að breyttum tímum.

Fordómar

Kynþáttafordómar og fordómar almennt hafa mikið verið til umræðu í íslensku samfélagi undanfarið. Nýleg skýrsla evrópunefndar gegn kynþáttafordómum og skorti á umburðarlyndi fjallar á áhugaverðan hátt um fordóma á Íslandi. Fjallað er sérstaklega um atvinnuleyfi útlendinga og lögð áhersla á, að með því að láta atvinnurekandann fá atvinnuleyfi en ekki launþegann, sé verið að skapa kjöraðstæður fyrir margskonar misnotkun, auk þess sem þetta fyrirkomulag sé niðurlægjandi fyrir viðkomandi launþega.

Í skýrslunni eru einnig gerðar athugasemdir við margt annað af því sem hefur verið rætt um á almennum vettvangi. Til dæmis um ábendingu að 40% kvenna sem leita til Kvennaathvarfsins séu af erlendum uppruna, og að konur af erlendum uppruna sem fara frá mönnum sínum áður en þær hafa búið hér í þrjú ár missi við það dvalarleyfi. Vissulega hafa stjórnvöld veitt undanþágur fyrir konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi en eins og bent er á í skýrslunni, eru konurnar sjálfar ekki nægilega upplýstar um það og líklegt að sumar treysti sér ekki til að sækja um slíka undanþágu. Einnig kemur fram í skýrslunni að íslenskir múslimar hafi þurft að bíða eftir leyfi til að byggja mosku síðan 1999, nokkuð sem sé sérlega alvarlegt í ljósi þess að vaxandi fordóma hefur gætt í garð múslima eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin, hinn 11. september, 2001.

Margir fræðimenn hafa einmitt sérstaklega notað hugtakið "ný kynþáttahyggja" í samhengi við fordóma tengda þeim atburði enda múslimum gjarnan steypt saman í stóran, einsleitan hóp og litið er á íslam sem einhvers konar andstæðu kristni en ekki trúarbrögð með sömu rætur. Fordómar eru einnig viðfangsefni samræðna í samfélögum og í fjölmiðlum má sjá blaðagreinar þar sem pistlahöfundar staðhæfa að þeir hafi kynnt sér málið en séu samt á móti réttindum ákveðinna hópa eins og giftingum samkynhneigðra eða búsetu útlendinga á Íslandi. Að sumu leyti má því kannski segja að orðið fordómar sé ekki sérlega gagnlegt í þessu samhengi því það felur í sér þá merkingu að "dæma eitthvað fyrirfram." Hins vegar má einnig koma með rök fyrir því að alhæfingar um ákveðna hópa og einhvers konar skerðingu á réttindum einstaklinga, vegna þess að þeir eru hluti af hóp, séu í raun fordómar, vegna þess að einstaklingurinn er flokkaður fyrirfram sem hluti af ákveðnum hóp. Honum eru fyrirfram gerðar upp skoðanir, markmið og jafnvel útlit sem hluti af ákveðnum hóp. Í bók James Scott Weapons of the Weak: Everyday Forms of Resistance, sem út kom árið 1985, er sjónum beint að andófi venjulegs fólks á jaðri samfélagsins. Bókin er skrifuð í anda þeirrar áherslu sem fræðimenn hafa andúð á og þá sérstaklega á andóf jaðarhópa gegn aðstæðum sínum og leiðir þeirra til að bæta þær og breyta þeim. Í íslensku samfélagi sjáum við nýja Íslendinga á margvíslegan hátt hrista upp í viðteknum skoðunum og neyða samlanda sína að horfast í augu við eigin fordóma. Stuttermabolirnir sem eru til sölu með margvíslegum áletrunum svo sem "Ég er þetta vinnuafl," "Ég er þessi Erlendur," beina sjónum að því að á bak við einfaldar staðhæfingar um útlendinga, nýbúa eða innflytjendur, standa margbreytilegir einstaklingar. Þeir eru einhverjir aðrir en einfaldir merkimiðar eða tölfræðileg fyrirbæri.

Samtök sem fólk af erlendum uppruna hefur stofnað eða átt þátt í að stofna, svo sem W.O.M.E.N. (Women of Multicultural Ethnicity Network), bera augljóslega vott um ákveðinn atbeina. Þau gerðu m.a. mjög alvarlegar athugasemdir við lagafrumvarp stjórnvalda frá árinu 2004 þar sem lagðar voru til mjög umfangsmiklar breytingar á stöðu innflytjenda. Samtökin Ísland Panorama hafa beinlínis að markmiði að berjast á móti fordómum. Einnig má minnast á atbeina annarra jaðarhópa svo sem samkynhneigðra sem hafa árlega verið með eina skemmtilegustu skrúðgöngu ársins fyrir allar fjölskyldur í landinu.

Útlendingar í hnattvæddum heimi

En mennirnir á Kárahnjúkum eru ekki nýir Íslendingar. Þeir eru einfaldlega útlendingar sem dvelja hér á landi tímabundið til þess að reyna að bæta aðstæður sínar heima fyrir. Þeir eru ódýrt vinnuafl samtímans, nútíma farandverkamenn sem halda héðan líklega í aðrar stórframkvæmdir annarstaðar í heiminum. Vinnuafl er í raun og veru auðvitað bara einstaklingar og í sjálfu sér er enginn einstaklingur ódýrari en annar, það er bara samningstaða hans á markaðnum sem er slæm og hann fær þannig stöðu sem ódýrt vinnuafl. Í fréttum fjölmiðla af veikindum verkamannanna á Kárahnjúkum kom fram að sumir þeirra hefðu haldið heim á leið þar sem þeir væru ekki tryggðir gegn slíkum áföllum. Þetta hlýtur að vera mjög skýrt dæmi um slæma samningsstöðu þessara manna. Hvað um mennina sem hafa dáið í vinnuslysum við virkjunina? Voru þeir tryggðir fyrir slíku? Hver hefur borgað þann "kostnað"? Hvaða bætur fengu fjölskyldur þessara manna og frá hverjum?

Eitt af einkennum hnattvæðingar hefur auðvitað verið mikil hreyfing fólks á milli staða í margvíslegum tilgangi og má í því sambandi tala um nýtt form farandverkamennsku. Farandverkamennska á sér auðvitað langa sögu en með tilkomu hnattvæðingar virðist sem hún hafi orðið fjölbreyttari, lögformlegri og með nokkrum hætti kerfisbundnari.

Nú er hægt að leigja sér vinnuafl, eins og hugtakið starfsmannaleiga felur í sér. Einstaklingar selja ekki lengur vinnu sína milliliðalaust heldur eru þeir leigðir út eins og stóll eða bíll, og svo er hægt að skila þeim til baka, eins og þegar stóll brotnar eða tölva bilar. Hér er orðið "leiga" notað vegna þess að um er að ræða aðild þriðja aðila, en þó ekki einhvern sem hefur það fyrst og fremst að leiðarljósi að vernda hagsmuni viðskiptavina sinna því þá væri hugtakið umboðsmaður trúlega notað eða atvinnumiðlun.

Að sumu leyti virðast því útlendingar sem koma hingað til lands að vinna, næstum vera einskonar ólöglegir innflytjendur sem ríkisvaldið leggur þó blessun sína yfir; ég nota þessa samlíkingu vegna þess að þeir virðast ekki eiga rétt á sama aðbúnaði og íslenskir verkamenn, né sömu réttindum og kjörum. Staða þeirra er því lík stöðu ólöglegra mexíkóskra innflytjenda sem koma til Bandaríkjanna tímabundið og veita landi og þjóð full not af starfskröftum sínum en öðlast engin réttindi fyrir vinnu sína.

Satt best að segja þá skil ég þetta ekki. Almannatengslafulltrúar fyrirtækjanna stökkva til þegar hvert málið af öðru kemur upp, með allskonar ótrúverðugar útskýringar og hið sama gildir um fulltrúa frá starfsmannaleigunum. Eftir stendur þó að verkafólki hefur verið boðinn aðbúnaður sem Íslendingum yrði aldrei boðinn. Hið sama gildir um erlenda verkamenn sem búa í húsnæði í iðnaðarhverfum sem aldrei var hugsað né ætlað sem íbúðir fólks.

Eru ekki til lög og reglur sem banna slíka meðferð á fólki? Auglýsingar sem vísa til húsnæðis fyrir Pólverja, endurspegla nöturlega að húsnæðið henti ákveðnum flokki einstaklinga, þ.e. einstaklingum sem eru ekki Íslendingar. Burt séð frá hvort við köllum þetta nýja kynþáttahyggju eða ekki, hlýtur þetta að vera óviðunandi.

Höfundur er dósent í mannfræði í Háskóla Íslands.