27. maí 2007 | Aðsent efni | 455 orð | 2 myndir

Fátt er nýtt undir sólinni

Anna Bragadóttir og Karl Jósafatsson skrifa um frumgreinasvið HR

Anna Bragadóttir
Anna Bragadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Bragadóttir og Karl Jósafatsson skrifa um frumgreinasvið HR: "Frumgreinasvið Háskólans í Reykjavík er engin ný bóla – hefur staðið traust í ríflega fjörutíu ár."
ÞESSA dagana er kynnt með kappi í fjölmiðlum ný námsleið, frumgreinadeild Keilis, ætluð fólki sem vantar undirbúning fyrir háskólanám. Gott mál en lítil nýjung. Frumgreinadeild var stofnuð árið 1964 við Tækniskóla Íslands, síðar Tækniháskóla Íslands, og við sameiningu hans og Háskólans í Reykjavík árið 2005 var nafninu breytt í frumgreinasvið. Við erum stolt af því metnaðarfulla starfi sem farið hefur fram við frumgreinasvið HR í ríflega fjörutíu ár. Það að aðrir vilji auglýsa nám undir sama nafni sýnir og sannar enn á ný að orðstír okkar er góður og margir vildu Lilju kveðið hafa. Menn skyldu samt varast að rugla saman frumgreinadeild Keilis og frumgreinasviði HR, þó að vissulega komi margt í kennsluskrá þeirra fyrrnefndu kunnuglega fyrir sjónir.

Hagnýt menntun frá árinu 1964

Tilgangur frumgreinasviðs Háskólans í Reykjavík hefur alla tíð verið að mynda nokkurs konar brú milli iðnmenntunar, atvinnulífs og háskólanáms. Þar hefur mikil áhersla verið lögð á stærðfræði og raungreinar en tungumálin eru einnig mikilvæg í undirbúningi nemendanna. Frumgreinasvið HR er líka vettvangur fyrir fólk sem þarf að bæta við sig námi í stærðfræði og raungreinum. Nemendur á frumgreinasviði HR eru fjölbreyttur hópur; iðnaðarmenn og fólk með mikla starfsreynslu. Allir keppa að sama markmiði, að öðlast hagnýtan og markvissan undirbúning fyrir háskólanám.

Hvað segja nemendur?

Árið 2006 var unnin rannsókn með stuðningi frá Nýsköpunarsjóði námsmanna, Iðnskólafélaginu, Háskólanum í Reykjavík og Samtökum iðnaðarins um hversu vel nám við frumgreinasvið nýttist nemendum í tæknifræði og verkfræði við HR. Niðurstaðan var mjög jákvæð því mikill meirihluti sagðist hafa fengið hagnýtan og markvissan undirbúning við frumgreinasviðið, auk þess sem iðn- og starfmenntun nýttist vel í fyrrnefndu námi.

Meðalaldur nemenda frumgreinasviðs HR er í kringum 27 ár, starfsandi er góður og metnaður mikill. Við segjum engum sem hyggur á nám við frumgreinasvið HR að þeirra bíði notalegt nám og mikill frítími. Þvert á móti viljum við að nemendur viti að vinnusemi, kraftur og ástundun eru mikils metin við skólann. Í áðurnefndri könnun frá 2006 kom einnig fram að nemendum líkar vel námið við frumgreinasvið m.a. vegna þess að þar eru gerðar kröfur. Mikil og krefjandi vinna en skemmtileg eru orð sem margir notuðu í könnuninni til að lýsa frumgreinasviði HR. Þetta eru verðug ummæli um nám sem byggir á traustum grunni.

Enn er hægt að sækja um

Umsóknarfrestur við frumgreinasvið Háskólans í Reykjavík rennur út 31. maí n.k. Við hvetjum þá sem eiga sér draum um að komast í nám í tæknifræði og verkfræði, en skortir viðeigandi undirbúning, að skoða heimasíðu frumgreinasviðs og námsframboð skólans á www.hr.is. Látið drauminn rætast og veljið leið sem hefur verið fjölmörgum lykill að spennandi námi og starfi. Frumgreinasvið Háskólans í Reykjavík er engin ný bóla – hefur staðið traust í ríflega fjörutíu ár.

Anna Bragadóttir, M.Paed. íslenskukennari og Karl Jósafatsson, Ph.D. eðlisfræðikennari.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.