Gylfi Felixson fæddist í Reykjavík 22. september 1939. Hann lést á líknardeild LSH í Kópavogi 2. maí síðastliðinn og var jarðsunginn frá Árbæjarkirkju 9. maí.

Þeir sem starfa saman í kór tengjast oft býsna náið og því getur verið erfitt að kveðja kórfélaga. Nú kveðjum við Stefnismenn góðan félaga, Gylfa Felixson, sem gekk í Stefni fyrir rúmum 20 árum og starfaði með okkur þangað til veikindi settu strik í reikninginn. Gylfi söng 2. tenór, var traustur og góður félagi og viljugur að taka þátt í ýmsum aukastörfum fyrir kórinn. Hann sat til dæmis í stjórn hans sem gjaldkeri um skeið og tók virkan þátt í ýmiss konar félagslífi á vegum kórsins, meira að segja leikstarfsemi, sem honum þótti þó ekki alltaf standa undir þeim gæðakröfum sem hann gerði sjálfur. Hann hafði góða nærveru eins og það er stundum kallað, var vingjarnlegur, glaðlegur og áreiðanlegur.

Kórfélagarnir eiga sjálfsagt býsna fjölbreyttar minningar um Gylfa eftir 20 ára samstarf. Það er þó líklegt að í huga margra standi eitt atvik upp úr. Fyrir fáum misserum hélt Stefnir tónleika á Flúðum og þá voru Gylfi og Hanna búin að koma sér upp sumarhúsi þar eystra. Þau gerðu sér lítið fyrir og buðu öllum kórmönnum heim til sín að tónleikunum loknum. Það var ákaflega skemmtilegt boð og marga kórmenn dreymdi um að endurtaka það. Menn áttu þó misjafnlega auðvelt með að rata aftur þarna austur af því að minningin um heimferðina var ekki jafnljós í hugum allra. Sumir mundu ekki annað en að þetta hefði verið einhvers staðar fyrir austan fjall og heimferðin hefði tekið óratíma. Um leið og kórinn þakkar gott starf, vináttu og félagsskap og vottar Hönnu og öðrum aðstandendum innilega samúð, er við hæfi að þakka sérstaklega fyrir þetta boð. Nú verður það ekki endurtekið, en það gleymist ekki.

Karlakórinn Stefnir.