HINN 10. september 2005 bárust harmafregnir af sjóslysi á Viðeyjarsundi. Ástvinir okkar, Matthildur Harðardóttir og Friðrik Ásgeir Hermannsson, létust í slysinu.
HINN 10. september 2005 bárust harmafregnir af sjóslysi á Viðeyjarsundi. Ástvinir okkar, Matthildur Harðardóttir og Friðrik Ásgeir Hermannsson, létust í slysinu. Lögregla hóf þegar rannsókn á tildrögum slyssins og lauk þeirri rannsókn með því að ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur Jónasi Garðarssyni vegna brota hans gegn almennum hegningarlögum og siglingalögum.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum hinn 6. júní 2006 var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í þrjú ár vegna stórfelldra brota sinna. Var honum jafnframt gert að greiða skaðabætur og allan málskostnað. Hæstiréttur Íslands staðfesti þá niðurstöðu með dómi sínum hinn 10. maí síðastliðinn.

Með dómi Hæstaréttar lauk erfiðu ferli sem tekið hefur á okkur öll. Einna verst þótti okkur að sakborningur skyldi gera sig sekan um það "óskaplega tiltæki", svo vitnað sé beint í röksemdir héraðsdóms, "að bera af sér sakir og reyna að koma ábyrgð yfir á þá, sem létust í sjóslysinu af völdum hans". Við erum því fegin að dómstólar skuli hafa séð í gegnum tilburði ákærða með því að hafna algerlega, með afdráttarlausum hætti, röngum framburði hans. Það er okkur jafnframt mikill léttir að þeim sem ábyrgð ber á dauða ástvina okkar skuli gert að sæta ábyrgð vegna gerða sinna.

Rannsóknarnefnd sjóslysa skilaði skýrslu um orsakir slyssins og eftirfarandi björgun. Niðurstaða nefndarinnar er skýr um það hver beri ábyrgð á dauða ástvina okkar, sá er dóminn hlaut, skipstjóri bátsins. Rannsóknarnefndin komst einnig að þeirri niðurstöðu að alvarlegir ágallar hefðu verið á björgunaraðgerðum og skipulagi þeirra, sem brýnt sé að bæta úr. Um það atriði erum við sammála. Við álítum það skyldu okkar allra að koma í veg fyrir að mistök verði endurtekin, ef þess er nokkur kostur. Að því munum við vinna og treystum á liðsinni annarra í því efni.

Við viljum að lokum koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem hafa staðið þétt við bakið á okkur, sent kveðjur, hugsað hlýlega til okkar og þannig sýnt okkur ómetanlegan stuðning á þeim erfiðu tímum sem við höfum gengið í gegnum. Við erum einnig þakklát öllu því fagfólki sem fjallað hefur um málið af fagmennsku og á vandaðan hátt. Þá þökkum við fjölmiðlum fyrir þann skilning sem þeir hafa sýnt aðstæðum okkar. Allt þetta metum við mjög mikils.

Fyrir hönd fjölskyldna þeirra sem létust, Jóhannes Rúnar Jóhannsson hæstaréttarlögmaður.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.