27. maí 2007 | Aðsent efni | 595 orð | 1 mynd

Geir kyssir vöndinn

Sverrir Leósson er óánægður með þá ákvörðun að Norðausturkjördæmi fái ekki ráðherra

Sverrir Leósson
Sverrir Leósson
Sverrir Leósson er óánægður með þá ákvörðun að Norðausturkjördæmi fái ekki ráðherra: "Geir Haarde lítilsvirti kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi með því að sniðganga Kristján Þór Júlíusson."
ÉG veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Geir Haarde hefur myndað nýja ríkisstjórn. Hann hefur dregið Samfylkinguna upp úr feninu, sem hún hefur setið í frá fæðingu. Þar hefði hana dagað uppi án áhrifa, ef enginn hefði komið til hjálpar. En það gerði Geir, að því er virðist af góðmennsku einni saman, því aðrir kostir voru til staðar. Hann hefur komið Ingibjörgu Sólrúnu í valdastól, ásamt Össuri Skarphéðinssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur og Kristjáni Möller, sem hvað harðast hafa lamið á Sjálfstæðisflokknum í valdatíð hans undanfarin 16 ár. Í minni sveit var þetta kallað að kyssa vöndinn. Þar að auki fær Norðausturkjördæmi engan ráðherra, sem ég túlka sem svik við kjósendur Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.

Ég studdi Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi bæjarstjóra á Akureyri, í prófkjöri, sem efnt var til við uppstillingu á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Stuðningsmenn hans og flokksins töldu mikilvægt að Akureyringar ættu oddvita listans. Þar að auki töldum við næsta víst, að ef Kristján ynni afgerandi sigur í prófkjörinu og síðan góðan sigur í alþingiskosningunum, þá væri tæpast hægt að ganga fram hjá honum við ráðherraval, ef flokkurinn yrði áfram í ríkisstjórn. Þetta gekk eftir. Kristján fékk afgerandi kosningu í efsta sæti listans, sem hann leiddi síðan til sigurs í nýafstöðnum kosningum til Alþingis.

Hann náði því markmiði að verða fyrsti þingmaður kjördæmisins, skákaði þar með Valgerði Sverrisdóttur.

Þar að auki bætti flokkurinn við sig þriðja þingmanninum í kjördæminu og var nærri því að ná þeim fjórða. Þrátt fyrir þetta var gengið fram hjá Kristjáni Þór, þegar að því kom að velja ráðherra.

Geir Haarde hefur með þessu sýnt Kristjáni Þór og kjósendum Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi lítilsvirðingu. Geir er sjálfur kosinn á þing fyrir annað Reykjavíkurkjördæmið, en úr hinu kjördæminu ákvað hann að taka tvo ráðherra, jafnvel þótt fimmtungur kjósenda annars þeirra hafi strikað annan þeirra, Björn Bjarnason, út af listanum. Þar með færðist hann niður um eitt sæti. Þrátt fyrir það naut hann áfram trausts hjá formanninum, sem ákvað að verðlauna þetta kjördæmi með tveimur ráðherrum, en á sama tíma fékk Norðausturkjördæmi engan ráðherra á vegum Sjálfstæðisflokksins. Eina kjördæmið sem ekki á ráðherra á vegum flokksins. Á sama tíma velur Samfylkingin oddvita sinn í kjördæminu, Kristján Möller, í sæti samgönguráðherra. Það er til að snúa hnífnum í sári okkar Sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi. Fyrst Geir vildi ekki okkar mann í ráðherrastól átti hann að fyrirbyggja þennan gjörning Ingibjargar. Þetta gefur Kristjáni Möller tækifæri til að vinna sér til vinsælda í kjördæminu, sem gæti síðan leitt til þess, að Samfylkingin yrði stærri flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn í næstu kosningum.

Ég held að Geir Haarde hafi gert mikil mistök með því að hafna áframhaldandi stjórn með Framsókn. Þar átti hann möguleika á átta ráðherrastólum. Þar átti Sjálfstæðisflokkurinn mun meiri sóknarmöguleika. Þess í stað ákvað hann að bjóða Ingibjörgu Sólrúnu upp í dans. Ég óttast að það verði hrunadans Sjálfstæðisflokksins, enda mátti greina háðsglott á vörum Samfylkingarfrúarinnar, þegar fyrsta sporið var stigið.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn hefur hann nær undantekningalaust falið einhverjum þingmanni sínum af Norðausturhorninu ráðherradóm. Undantekning var eftir kosningarnar 2003, þegar Tómas Ingi Olrich þurfti að yfirgefa ráðherrastól og Halldór Blöndal var ekki forseti Alþingis nema hálft kjörtímabilið. Við því var ekkert að segja, því þá galt listi flokksins afhroð í kjördæminu. Nú unnum við stóran sigur undir forystu Kristjáns Þórs Júlíussonar, en hann hlýtur ekki stuðning til ráðherradóms. Geir Haarde hefur gert lítið úr kjósendum Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Ég veit ekki um aðra, en ég mun hugsa mig tvisvar um áður en ég kýs flokkinn oftar, ef Geir gerir ekki bragarbót fyrr en síðar.

Höfundur er fyrrverandi útgerðarmaður á Akureyri.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.