27. maí 2007 | Viðskiptafréttir | 610 orð | 2 myndir

Þetta helst...

Hafnað Kanadíska Alcan hefur hafnað yfirtökutilboði bandaríska Alcoa.
Hafnað Kanadíska Alcan hefur hafnað yfirtökutilboði bandaríska Alcoa. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tilboði Alcoa hafnað * Kanadíska álfyrirtækið Alcan, móðurfélag álversins í Straumsvík, hafnaði í vikunni yfirtökutilboði bandaríska álfyrirtækisins Alcoa, móðurfélags Fjarðaráls á Reyðarfirði.

Tilboði Alcoa hafnað

* Kanadíska álfyrirtækið Alcan, móðurfélag álversins í Straumsvík, hafnaði í vikunni yfirtökutilboði bandaríska álfyrirtækisins Alcoa, móðurfélags Fjarðaráls á Reyðarfirði. Tilboðið í hlutafé Alcan var upp á 33 milljarða dollara, um 2.100 milljarða íslenskra króna, og með yfirtökunni hefði orðið til stærsta álfyrirtæki heimsins. Í yfirlýsingu frá Alcan segir að einhugur hafi ríkt í stjórn félagsins um að hvetja hluthafa til að hafna tilboðinu. Yves Fortier, stjórnarformaður Alcan, segir að tilboðið endurspegli ekki nægilega virði eigna félagsins og vaxtarmöguleika og að ekki sé boðið nóg fyrir ráðandi hlut Alcan, auk þess sem tilboðið sé háð mörgum skilyrðum og sé óljóst. Alain Belda, forstjóri Alcoa, sagði að tilboðið hefði verið lagt fram í kjölfar viðræðna, sem staðið hefðu yfir í nær tvö ár milli stjórnenda fyrirtækjanna um ýmsa möguleika á samstarfi eða samruna. Félögin ættu samleið og sameining yrði þeim til góðs. Fortier tók ekki í sama streng.

Aðstoð við ungmenni

* Tilkynnt var fyrir skemmstu um stofnun Fjölsmiðju á Akureyri á aðalfundi Rauða kross Íslands. Fjölsmiðja er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á krossgötum, sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu, þar sem ungmennum er hjálpað við að finna sér stað í vinnu eða námi. Rauði krossinn leggur til 15 milljónir króna í stofnkostnað Fjölsmiðjunnar, Akureyrarbær leggur til 10 milljónir, Vinnumálastofnun 5 milljónir og menntamálaráðuneytið 2 milljónir króna. Fjölsmiðjan er vinnusetur þar sem þátttakendum gefst tækifæri til að þjálfa sig fyrir almennan vinnumarkað eða áframhaldandi nám. Byggt verður á reynslu Fjölsmiðjunnar í Kópavogi, en Rauði krossinn hafði frumkvæði að því að því var komið á fót árið 2000, en þar hefur það sýnt sig að fjölda ungmenna hefur tekist að fóta sig í lífinu eftir starf þar. Sérstök áhersla er lögð á í nýrri stefnu að starfa með innflytjendum til að auðvelda gagnkvæma aðlögun – bæði með því að efla þátttöku þeirra í starfi Rauða krossins og eins að auka þjónustu við innflytjendur.

Álframleiðsla 2010

* Undirbúningur að álveri Norðuráls í Helguvík er kominn vel á veg, en gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fyrir áramót og að fyrstu kerin verði tekin í notkun árið 2010. Ragnar Guðmundsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar- og fjármálasviðs Norðuráls, segir verkefnið vera í lögformlegum farvegi og almenn sátt ríki um verkefnið á svæðinu. Í nýframlagðri frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum kemur fram að álverið falli undir íslenska ákvæði Kyoto-bókunarinnar og samræmist stefnu íslenskra stjórnvalda um losun gróðurhúsalofttegunda. Áhrif á aðra umhverfisþætti eru í flestum tilvikum talin óveruleg nema á afmörkuðum svæðum sem fara undir mannvirki. Fyrir liggur orkusamningur við Hitaveitu Suðurnesja og samningur við Orkuveitu Reykjavíkur er á lokastigum. Gert er ráð fyrir að fyrstu framkvæmdir vegna álversins í Helguvík geti hafist fyrir áramót.

Hlynntir álveri á Bakka

* Rétt tæp 70% íbúa á Norðausturlandi eru hlynnt byggingu álvers á Bakka við Húsavík samkvæmt skoðanakönnun,

sem Capacent Gallup hefur gert. Stuðningur við álverið mælist nú 69,5% og hefur aukist um rúm 11% frá því í desember en þá studdu 58,2% íbúanna byggingu álversins. Alls reyndust 19,9% andvíg áformum um byggingu álvers á Bakka nú, en 27,7% voru á móti framkvæmdunum í desember. Á Húsavík mælist stuðningurinn nokkru meiri en á landsfjórðungsvísu, eða 83%. Í könnuninni kemur einnig fram að vaxandi meirihluti íbúa Norðausturlands er jákvæður í garð Alcoa Fjarðaáls. 67% eru frekar eða mjög jákvæð í garð fyrirtækisins, tæpum 10% fleiri en í síðustu mælingu. Önnur könnun Capacent Gallup leiðir í ljós að stuðningur á meðal íbúa Mið-Austurlands við Alcoa Fjarðarál og álversframkvæmdir á Reyðarfirði hefur heldur minnkað frá síðustu könnun. Þannig eru 75,8% íbúa nú hlynnt framkvæmdum en voru 82,2% í desember. Þeir sem eru jákvæðir í garð Alcoa Fjarðaráls mælast nú 76,2% en voru 83,9% í desember.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.