Gaman á þingi Þessir menn sátu lengi saman á Alþingi. Lögfræðingurinn Matthías Á. Mathiesen sat á þingi í 32 ár. Lögfræðingurinn og sýslumaðurinn Friðjón Þórðarson sat á þingi samtals í 27 ár. Kennarinn og skólastjórinn Helga Seljan sat á Alþingi í 16 ár.
Gaman á þingi Þessir menn sátu lengi saman á Alþingi. Lögfræðingurinn Matthías Á. Mathiesen sat á þingi í 32 ár. Lögfræðingurinn og sýslumaðurinn Friðjón Þórðarson sat á þingi samtals í 27 ár. Kennarinn og skólastjórinn Helga Seljan sat á Alþingi í 16 ár.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is Í GEGNUM árin hefur samsetning alþingismanna breyst mikið samhliða breytingum á samfélaginu. Bændur, prestar og sýslumenn voru fjölmennir á Alþingi fyrir hundrað árum.
Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

Í GEGNUM árin hefur samsetning alþingismanna breyst mikið samhliða breytingum á samfélaginu. Bændur, prestar og sýslumenn voru fjölmennir á Alþingi fyrir hundrað árum. Í dag er einn bóndi á þingi, einn prestur en enginn sýslumaður. Þar eru hins vegar 13 lögfræðingar, fjórir hagfræðingar og fimm stjórnmálafræðingar.

Fátítt er í dag að þingmenn gegni öðrum störfum samhliða þingmennsku, en á árum áður var það regla að þingmenn væru jafnframt í öðrum störfum. Eftir að Alþingi var endurreist árið 1845 kom það í fyrstu saman aðeins annað hvert ár. Það var ekki fyrr en í byrjun síðustu aldar sem Alþingi var kallað saman á hverju ári. Árið 1910 var t.d. ekkert þing. Á þessum árum var þingmennska því sannkallað aukastarf þeirra manna sem sátu á Alþingi.

Helmingurinn prestar, bændur og sýslumenn

Árið 1907 sátu 40 þingmenn á Alþingi, en þar af voru níu prestar, sjö bændur og fimm sýslumenn. Aðeins einn útgerðarmaður sat þá á þingi, þrír kennarar, þrír kaupmenn, þrír læknar, tveir ritstjórar, póstafgreiðslumaður, bókavörður og þrír menn sem kalla má embættismenn eða fyrrverandi embættismenn. Á þinginu sat einnig einn bankastjóri og einn ráðherra.

Kaupfélagsstjórar setjast á þing

Fimmtíu árum síðar má greina þjóðfélagsbreytingar á skipan alþingismanna. Þá var þingmennska enn aukastarf flestra þingmanna. Á þingi voru þá fimm kaupfélagsstjórar, fimm framkvæmdastjórar, tveir bæjarstjórar og borgarstjórinn í Reykjavík sat einnig á þingi. Á þingi sátu þá að auki tveir bankastjórar og tveir bankaútibússtjórar. Ritstjórar sátu einnig á þingi líkt og 1907. Þar voru einnig tveir læknar, tveir kaupmenn og tveir sem titla má kennara. Þá líkt og 1907 sat aðeins einn útgerðarmaður á þingi og einn maður sem vann sem múrari þegar hann var ekki á þingi. Þar er einnig að finna tvo menn sem titla má verkalýðsforingja eða starfsmenn verkalýðsfélaga.

Á þinginu 1957 sat aðeins einn prestur og þrír sýslumenn. Sex bændur sátu þá á þingi. Segja má að þeir hafi verið eins konar héraðshöfðingjar sem gerðu fleira en að vera þingmenn og bændur. Sama má raunar segja um fleiri þingmenn; þeir voru í ýmsum aukastörfum samhliða þingmennsku.

Árið 1957 voru sex ráðherrar á þingi og gegndu þeir ekki öðrum störfum á meðan.

Doktorar og skipstjórar

Það er erfitt að flokka þingmenn í dag eftir þeim störfum sem þeir gegna vegna þess að þingmennska er í dag orðin fullt starf. Það er hins vegar fróðlegt að skoða menntun þingmanna, en það verður ekki annað sagt en að hún sé fjölbreytt.

Það hefur oft verið sagt að það séu margir lögfræðingar á Alþingi. Af 63 þingmönnum eru 13 með lögfræðimenntun. Þar sitja einnig a.m.k. fimm hagfræðingar og fjórir sem lokið hafa menntun í stjórnmálafræði. Þar sitja líka þrír doktorar, einn er doktor í lífeðlisfræði með fiskeldi sem sérgrein, annar er doktor í stærðfræði og þriðji í árangursstjórnun. Á þingi sitja einnig hjúkrunarfræðingar, dýralæknir, skipstjórar, byggingatæknifræðingur, flugfreyja, sjúkraþjálfari, skólastjórar, jarðfræðingur, líffræðingur, leikstjóri og fólk sem hefur menntað sig í bókmenntum, sögu og heimspeki. Þá var einn bóksali kjörinn á þing og þó nokkrir hafa starfað sem blaðamenn um lengri eða skemmri tíma. Á þingi eru núna sex menn sem starfað hafa sem aðstoðarmenn ráðherra. Margir þingmenn hafa einnig gegnt störfum í sveitarstjórnum, ýmist sem sveitarstjórnarmenn eða bæjarstjórar. Tveir fyrrverandi borgarstjórar í Reykjavík sitja nú á þingi. Þá eru 12 menn á þingi sem gegna ráðherraembætti.

Almennt má segja að þingmenn séu mjög vel menntaðir, en þeir hafa líka gegnt störfum sem ekki krefjast mikillar menntunar, einkum á yngri árum. Sumir hafa reyndar sest á þing mjög ungir og því verið skamman tíma á almennum vinnumarkaði eftir að þeir luku námi.

Árið 1907 sat engin kona á Alþingi, en konur höfðu þá ekki kosningarétt. Árið 1957 sat ein kona á þingi, en alþingismenn voru þá 52 að tölu.

Í kosningunum í vor náðu 20 konur kjöri á Alþingi, en þar sitja 63 þingmenn.

Að lokum er fróðlegt að skoða menntun þeirra ráðherra sem tóku við völdum í vikunni. Geir H. Haarde er hagfræðingur, Árni M. Mathiesen er dýralæknir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Björn Bjarnason eru lögfræðingar. Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Þórunn Sveinbjarnardóttir eru stjórnmálafræðingar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er sagnfræðingur að mennt, Össur Skarphéðinsson er doktor í lífeðlisfræði með fiskeldi sem sérgrein, Jóhann Sigurðardóttir er fyrrverandi flugfreyja, Kristján Möller er íþróttakennari að mennt, og Björgvin G. Sigurðsson er með BA-próf í sögu og heimspeki.

Í hnotskurn
» Prestar, bændur og sýslumenn voru helmingur þingmanna fyrir 100 árum síðan.
» Fyrir 50 árum var aðeins einn prestur á þingi, en kaupfélagsstjórar og framkvæmdastjórar voru talsvert margir á þingi.
» Nú eru margir þingmenn með menntun í lögfræði, hagfræði og stjórnmálafræði.
» Fyrir 50 árum var ein kona á þingi en nú eru 20 af 63 þingmönnum konur.