Jóhanna Jóhannsdóttir fæddist í Skógum á Fellsströnd 13. febrúar 1910. Hún lést 29. apríl sl. Foreldrar hennar voru Jóhann Jónasson bóndi í Skógum, f. 20.10. 1867, d. 30.8. 1951, og eiginkona hans Margrét Júlíana Sigmundsdóttir húsmóðir, f. 12.7. 1876, d. 29.8. 1968.

Útför Jóhönnu fór fram frá Fossvogskapellu 7. maí sl. í kyrrþey að hennar ósk.

Á 19. ári lá leið Jóhönnu að heiman er hún fór hún í vinnumennsku að Ásgarði í Dölum þar var hún í tvö ár. Þaðan fór hún á Húsmæðraskólann á Hallormsstað sem þá var tveggja vetra skóli og þótti afar góður. Eftir það vann hún hefðbundin sveitastörf á ýmsum stöðum, þar á meðal í Ásgarði, Staðarfelli, en einnig á heimili Margrétar systur sinnar sem var ljósmóðir og þurfti því oft að vera að heiman.

Árið 1939 fór Jóhanna í Ljósmæðraskólann og lauk þaðan námi 1940. Í framhaldi af því starfaði hún eitt ár sem ljósmóðir norður í Vatnsdal, en fékk þá Borgarnesumdæmið ásamt þremur hreppum. Þar var hún starfandi ljósmóðir frá 1942 til 1980 og bjó í Borgarnesi. Umdæmið var stórt og ekki auðvelt yfirferðar, sérstaklega að vetri. Oft mun hún hafa þurft á fyrstu árum sínum í Borgarnesi að fá far með þeim sem áttu leið um vegi héraðsins, en þá var fáförulla en síðar varð. Á þessu réð hún bót sjálf með því að taka bílpróf og kaupa sér Willys jeppa. Borgnesingar og Mýramenn sem muna árin um og upp úr miðri síðustu öld munu minnast konunnar sem ók þar um vegi á gráum Willys M-125.

Árið 1952 hóf Jóhanna sambúð með Benedikt Sveinssyni skrifstofumanni hjá Kaupfélagi Borgfirðinga, en hann lést fyrir aldur fram eftir skamma samvist þeirra.

Mig langar til að geta hér einnar ferðar Jóhönnu sem lýsir henni vel. Sem áður sagði var Margrét systir hennar einnig ljósmóður og bjó hún í Saurbæjarhreppi í Dölum. Í marsmánuði árið 1943 átti Margrét von á sínu fjórða barni og hafði samist um það milli þeirra systra að Jóhanna kæmi vestur til að taka á móti barninu. Jóhanna fékk far með bíl upp að Dalsmynni, en þaðan hafði hún loforð fyrir að fá að fljóta með póstinum sem ætlaði þennan dag vestur yfir Bröttubrekku, að sjálfsögðu var pósturinn á hestum. Frost var talsvert og gekk á með hríðarbyljum. Pósturinn hætti við að fara, og fer tvennum sögum af ástæðunni, en Jóhanna lét það ekki aftra sér. Næsta morgun fyrir dag lagði hún af stað ein og gangandi. Göngufæri var afleitt, talsverður snjór og krap á sumum stöðum. Þegar halla tók vestur af Brekkunni hafði Jón bóndi á Breiðabólsstað komið á móti henni á hestum og flutt hana heim að Breiðabólsstað þar sem hún fékk góðan beina áður en haldið var af stað aftur. Í Ásgarði var símstöð og mun frændfólk hennar þar hafa vitað að hennar var von og haft samband við Jón og beðið hann að fara á móti henni. Jón flutti hana svo vestur á móts við vinnumann frá Ásgarði sem kom á móti og flutti hana að Ásgarði og svo áfram vestur í Saurbæ. Þangað komst hún í tæka tíð.

Þessi saga lýsir vel einbeitni og þreki sem Jóhanna bjó yfir, að fara þetta á einum degi, fyrst gangandi og svo á hestum í mjög vondu veðri. Að lokum, takk, frænka mín, fyrir að leggja allt þetta á þig til að hjálpa mér að komast í þennan heim.

Grétar Sæmundsson.

Jóhanna frænka okkar er látin, 97 ára að aldri. Fyrir okkur rifjast upp margar góðar minningar og þá sérstaklega er við vorum börn og unglingar og dvöldum hjá henni hluta úr sumrum í Borgarnesi, ýmist með mömmu eða ömmu. Jóhanna starfaði þar sem ljósmóðir árin 1942–1980. Þá flutti hún til Reykjavíkur þar sem hún bjó með systkinum sínum þar til hún fór í Sóltún 2004, þar sem hún naut góðrar umönnunar þar til hún lést 29. mars sl. Sólveig yngsta systir Jóhönnu á einnig þakkir skildar fyrir sýnda umhyggju.

Það var eftirvænting í Volkswagen-bílnum hjá okkur krökkunum á leið í Borgarnes. Húsið hennar var við Skallagrímsgötu svo stutt var í Skallagrímsgarð þar sem við nutum okkar við leik og gönguferðir. Eftirminnilegur er Willys jeppinn sem hún ferðaðist í um sveitirnar og tók á móti börnum og leit eftir með sængurkonum. Við fórum með henni í heimsóknir á bæi og til berja á haustin. Í smásendiferðir fórum við, keyptum mjólk í brúsa í Mjólkursamlaginu og reyndum að hjálpa til við garðræktina. Fjaran var líka leikvangur en þar þurfti að hafa gætur því fjarað gat hratt út að eins og við eigum minni til. Öll okkar eigum minningar um heimili Jóhönnu, blár bolti í skál, eldhúsgardínur með fallegum myndum. Á haustin fór mamma með börnin 4 í sláturgerð til Jóhönnu og fengum við að taka þátt. Það hefur nú þurft þó nokkra þolinmæði að hafa þessa hjörð hjá sér í slíku amstri og hana hafði Jóhanna. Sambýlismaður Jóhönnu í Borgarnesi var Benedikt Sveinsson en hann lést 1967. Hann var líka óþreytandi að hafa ofan af fyrir okkur með ýmsum þrautum og leikjum. Þessa vísu orti hann um okkur:

Kolbrún, Erna, Hreinn og Hrönn

hlýja okkar geði.

Víst var gleðin sæl og sönn

sem þau okkur léðu.

Jóhanna var mikil hannyrðakona, hún m.a. prjónaði og gimbaði en það er ekki á færi margra nú. Hún fékk viðurkenningarskjal frá Álafossi fyrir að taka þátt í að prjóna lengsta trefil í heimi og komst þar með í heimsmetabók Guinness 1985.

Við kveðjum Jóhönnu, fallega konu og góða, og þökkum henni fyrir það sem hún var okkur og stundirnar sem við fengum að njóta með henni.

Kolbrún, Erna,

Jón Hreinn og Hrönn.