Þóroddur Bjarnason
Þóroddur Bjarnason
Þóroddur Bjarnason skrifar um háskólanám á Akureyri: "Allt frá jafnréttisviðhorfum unglinga til náttúruspeki gamalla selveiðimanna og frá nektardansi til byggðaþróunar í íslensku dreifbýli."
MEGINMARKMIÐ þjóðfélagsfræðanna er að auka skilning okkar á þjóðfélaginu sem heild, stórum og smáum samfélögum innan þess og tengslum einstaklings og samfélags. Helstu stoðgreinar þeirra eru félagsfræði, mannfræði og stjórnmálafræði en milli þeirra hafa jafnframt þróast margvíslegar, fjölfaglegar greinar á borð við afbrotafræði, ferðamálafræði, fjölmiðlafræði, kynjafræði, stjórnunarfræði, tómstundafræði og vinnumarkaðsfræði, svo fátt eitt sé nefnt.

Formlegt nám í þjóðfélagsfræðum á sér ekki langa sögu á Íslandi þótt ýmsar fræðigreinar hafi fengist við einstök viðfangsefni þeirra hér á landi. Þannig hafa íslenskir háskólanemar lengi kannað menningu og sögu í íslenskum fræðum og sagnfræði, lögmál peninganna í viðskipta- og hagfræði, tengsl vitundar og líkama í læknisfræði og síðar sálfræði, regluverk mannskepnunnar í lögfræði og hinstu rök tilverunnar í guðfræði og heimspeki.

Þegar kennsla hófst í þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands árið 1970 var hins vegar brotið blað í þessum efnum. Fyrstu árin voru þjóðfélagsfræðin kennd sem sérstök grein en fljótlega var farið inn á þá braut að byggja upp einstakar greinar þeirra sem sjálfstæð fræðasvið. Nú hafa þessar greinar þjóðfélagsfræðanna verið stundaðar á fjórða áratug hér á landi og vaxið og eflst. Rannsóknir íslenskra þjóðfélagsfræðinga eru í fremstu röð í heiminum og niðurstöður þeirra hafa birst í flestum helstu alþjóðlegum fræðitímaritum á sviðum þjóðfélagsfræða.

Með stofnun félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri árið 2003 var einangrun félagsvísindanna á suðvesturhorni landsins loksins rofin (www.unak.is). Þar er lögð höfuðáhersla á rannsóknatengt nám og hagnýtingu fræðanna í brennandi úrlausnarefnum samtímans. Þannig hafa kennarar og nemendur við skólann stundað rannsóknir á velflestum sviðum þjóðfélagsfræðanna, allt frá jafnréttisviðhorfum unglinga til náttúruspeki gamalla selveiðimanna og frá nektardansi til byggðaþróunar í íslensku dreifbýli.

Öflugt rannsóknarstarf kennara og nemenda byggist á traustum grunni við Háskólann á Akureyri. Deildarmúrar eru lægri og samstarf milli deilda því auðveldara en víðast hvar annars staðar. Rannsókna- og þróunarmiðstöð skólans (www.rha.is) er ein helsta rannsóknastofnun landsins á sviði félagsvísinda og þar gefast nemendum margvísleg tækifæri, ekki síst í aðgangi að viðamiklum gagnasöfnum af ýmsu tagi. Jafnframt er þátttöku Íslands í tveimur stærstu rannsóknarverkefnum samtímans á sviði unglingarannsókna stýrt frá Háskólanum á Akureyri – evrópsku vímuefnarannsókninni ESPAD (www.espad.is) og alþjóðlegu lífskjararannsókninni HBSC (www.hbsc.is). Í tengslum við þau hefur fjöldi nemenda fengið tækifæri til launaðrar rannsóknarvinnu og dýrmætrar þjálfunar í vinnubrögðum þjóðfélagsfræðanna.

Haustið 2007 hefst kennsla í þjóðfélagsfræðum við Háskólann á Akureyri. Þetta nám byggist á aðferðum og kenningum félagsfræði, mannfræði og stjórnmálafræði en námskeið sem þegar eru kennd við Háskólann á Akureyri veita nemendum í þjóðfélagsfræðum umtalsvert frelsi við mótun eigin háskólanáms. Þar má til dæmis nefna námskeið um afbrot, fjölmiðla, byggðaþróun, þróunaraðstoð, menntamál og heilbrigði í samfélaginu, svo fátt eitt sé nefnt. Jafnframt bjóðast nemendum sem þess óska margvíslegir möguleikar á því að stunda hluta náms síns við aðra háskóla á Íslandi og í öðrum löndum.

Uppbygging háskólanáms um allt land er eitt mikilvægasta viðfangsefni næstu ára. Ríflega þriðjungur allra nýstúdenta útskrifast frá framhaldsskólum utan suðvesturhornsins. Hins vegar gefst aðeins um 15% háskólanema á landinu kostur á því að stunda nám utan Reykjavíkur. Engin haldbær rök eru fyrir því að háskólanám í félagsvísindum þurfi að stærstum hluta að fara fram í Reykjavík, en nemendur í félagsvísindum eru stærsti hópur háskólanema á Íslandi.

Aðstæður til háskólanáms eru til dæmis að mörgu leyti ákjósanlegri á Akureyri en í Reykjavík – fjarlægðir eru minni, húsnæði ódýrara, börn komast fyrr í leikskóla og umfram allt er þekkingarþorpið þar ekki aðeins abstrakt hugmynd heldur lifandi samfélag fólks í nánum tengslum við bæjarlífið. Háskólinn á Akureyri veitir ekki aðeins háskólanemum af svonefndri landsbyggð kost á háskólanámi sem stenst samanburð við það besta sem býðst annars staðar á landinu – þar er einnig gullið tækifæri fyrir væntanlega háskólanema af suðvesturhorninu til að sleppa úr rokinu og rigningunni um nokkurra ára skeið.

Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri.