Pétur Gunnarsson | 26. maí 2007 Króníkan fyrir dóm?
Pétur Gunnarsson | 26. maí 2007

Króníkan fyrir dóm?

Nýr þingmaður Vinstri grænna og nýr varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins eru sitt hvoru megin borðsins sem lögmenn í athyglisverðri deilu um réttindi og skyldur launafólks, sem gæti komið til kasta dómstóla innan tíðar. Það er réttarstaða blaðamanna Króníkunnar sálugu sem deilt er um og hótanir um málshöfðun ganga á víxl milli aðila. Útgáfu tímaritsins Króníkunnar var hætt í vetur eftir að sjö tölublöð höfðu verið gefin út. Reyndir blaðamenn, með margra ára reynslu, höfðu ráðið sig á Króníkuna og yfirgefið góð störf á Morgunblaðinu og Fréttablaðinu til þess að taka þátt í útgáfu nýs fréttatímarits. Blaðamennirnir höfðu verið fullvissaðir um að fjármögnun til sex mánaða útgáfu hefði verið tryggð [...] En fyrirtækið reyndist byggt á sandi. Eftir útgáfu sjöunda tölublaðsins kom skyndilega í ljós að útgáfufélag Króníkunnar hafði gert samning við útgefendur DV.

Sá samningur virtist ganga út á það að leggja niður Króníkuna og bjóða starfsmönnunum að ráða sig til starfa á DV. Útgefendur Króníkunnar, hjónin Sigríður Dögg og Valdimar Birgisson, réðu sig sjálf til DV en enginn blaðamannanna sá sér fært að fylgja þeim eftir. Þetta horfir þannig við starfsmönnunum að það eina sem útgefendur Króníkunnar hafi haft að selja hafi verið vinnusamningar við blaðamenn.

Blaðamennirnir töldu sig eiga rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti frá Króníkunni og hafa reynt að innheimta þær kröfur á hendur hjónunum Sigríði Dögg og Valdimar Birgissyni með fulltingi lögmannsstofu Atla Gíslasonar. Atli hefur árum saman verið lögmaður Blaðamannafélags Íslands en er nú orðinn þingmaður Vinstri grænna.

Lögmaður Sigríðar Daggar og Valdimars er hins vegar Dögg Pálsdóttir, nýr varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Nýlega barst blaðamönnunum bréf frá henni þar sem kröfum þeirra er vísað á bug og því hótað að blaðamennirnir verði sjálfir dregnir fyrir dóm fyrir að hafa rift með ólögmætum hætti samningi sínum við Króníkuna.

hux.blog.is