27. maí 2007 | Myndlist | 249 orð | 1 mynd

MYNDLIST - Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhús

Slátrari býður upp í dans

D-sýningarröðin, Rækt, Sigurður Guðjónsson,

Slátrari "Á tvo veggi er varpað kyrrmyndum af svínsskrokkum, litrófið er dempað líkt og 17. og 18. aldar málverk, brúntónar eru ráðandi."
Slátrari "Á tvo veggi er varpað kyrrmyndum af svínsskrokkum, litrófið er dempað líkt og 17. og 18. aldar málverk, brúntónar eru ráðandi."
Til 17. júní. Opið alla daga frá kl. 10-17. Fullorðnir: kr 500, eldri borgarar og öryrkjar 250, yngri en 18 ára ókeypis. Ókeypis á fimmtudögum.
SALURINN er myrkur þegar inn er komið, ókennileg hljóð og dramatísk tónlist berast til eyrna, þung teppalykt fyllir vitin. Á tvo veggi er varpað kyrrmyndum af svínsskrokkum, litrófið er dempað líkt og 17. og 18. aldar málverk, brúntónar eru ráðandi. Á langvegg rúllar myndin Rækt, en söguþráður hennar er rakinn stuttlega í texta á vegg áður en inn er komið. Þar segir af svínarækt á nokkuð sérstakan máta.

Mynd- og frásagnarstíll Sigurðar minnir á mynd David Lynch, Eraserhead frá 1977 þar sem Henry Spencer reynir á örvæntingarfullan máta að lifa af í iðnvæddum hryllingsheimi. Litanotkun og dramatísk myndræn áhrif ljóss og skugga kalla líka málverk Caravaggios frá 17. öld upp í hugann. Sigurður er augljóslega aðdáandi hins gróteska og þeirrar mótsagnakenndu fegurðar sem kalla má fram með eins konar upphafningu ljótleikans og hins óhugnanlega. Grótesk myndlist hefur birst á margvíslegan máta í gegnum aldirnar, en komst í tísku á fimmtándu öld þegar rómverskar rústir – grotte – fundust með kynlegum og flúruðum skreytingum af mönnum og dýrum, síðan hefur hið gróteska reglulega gengið í endurnýjun lífdaga, fyrr á öldum í málverkum en á okkar tímum ekki síst í kvikmyndum. Myndmál Sigurðar og áherslan á tilfinningar og undirmeðvitund minnir líka á verk þekktra listamanna á borð við Matthew Barney og hérna heima á Gabríelu Friðriksdóttur. Sigurði hefur þó tekist að skapa persónulegt og trúverðugt verk og framsetning þess er með besta móti. Rækt nær tökum á áhorfandanum og ljóst að list Sigurðar mun vekja athygli á komandi árum.

Ragna Sigurðardóttir

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.